Monthly Archives: júní 2010

Hraun

Ný gönguleiðabók

Forsíða bókarinnar

Reynir Ingibjartsson, stjórnarmaður í Hraunavinum, gaf nýverið út bókina: Náttúran við bæjarvegginn – 25 gönguleiðir á höfuðborgarsvæðinu. Eins og nafnið gefur til kynna lýsir Reynir 25 hringleiðum á höfuðborgarsvæðinu. Flestar eru þær í námunda við vötn, ár eða strendur hér í nánasta umhverfi mesta þéttbýlissvæðis landsins. Þeir sem hafa áhuga á að kanna nýjar slóðir eða bæta við þekkingu sína á stöðum sem eru í snertifæri, ættu að tryggja sér eintak og fara út að ganga.    read more »

Hraun

Suðvesturlína – athugasemdafrestur til 28. júlí 2010. Þeir sem ekki gera athugasemd teljast samþykkir línulögninni.

Suðvesturlína fer inn á óraskað svæði í Almenningi

Ágæt mæting var í göngu Hraunavina um fyrirhugað línustæði Suðvesturlína í Almenningi sem farin var miðvikudagskvöldið 9. júní. Veður var milt en það rigndi aðeins á göngufólkið því það gekk á með skúrum. Veðrið var ekki til trafala, enda gott að fá rigningaskúr þar sem mjög þurrt hefur verið að undanförnu. Gróðurinn í Almenningi er óvenju snemma á ferðinni og gróskan með mesta móti. Allt birki- og víðikjarrið er löngu orðið grænt og sóttist ferðin seint vegna þess að víða þurfti að krækja fyrir þéttvaxnar kjarrbreiður. Gróðurinn hefur tekið gríðarlegan vaxtakipp síðasta áratuginn og eru margar birkirunnar orðnir rúmlega tveggja metra háir.

Fyrst var komið við í Fjárborginni, en ef valkostur B verður valinn fyrir Suðvesturlínur munu háspennumöstrin liggja suðaustan við Fjárborgina á skógræktarsvæði þar sem byrjað var að plantá út fyrir tæplega 60 árum. Ef þessi línuleið verður valin mun nýja spennistöðin vera nokkur hundruð metra frá Gjáseli og línan fara yfir mitt selið og mjög nærri Straumsseli og Óttarsstaðaseli.

Línuleið A er illskárri kostur en línuleið B, þó svo að báðar eigi að fara um mjög merkilegt og fallegt náttúru- og minjasvæði sem nýtur hverfisverndar samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025. Að mati margra Hraunavina eru báðir kostirnir ómögulegir og mun nær hefði verið að setja allar raflínurnar í jörðu í núverandi línuvegastæði eins og gildandi aðalskipulag gerir ráð fyrir.

Línuleið A mun sneiða mjög nærri þremur seljum

Göngufólk lýsti yfir undrun sinni yfir þessum áformum og spurði ítrekað hvaða öfl það væru sem óskuðu eftir að flytja háspennulínuna svo sunnarlega í þetta fallega og gróna land. Svarið er einfalt. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa óskað eftir færslu línunnar.

Hægt er að lesa athugasemdir tveggja stjórnarmanna Hraunavina sem eru báðir Hafnfirðingar, hér fyrir neðan. read more »

Félagsstarf

Gönguferð miðvikudagskvöldið 9. júní

Fjárborgin verður á vegi göngumanna

Hraunavinir efna til kvöldgöngu í Almenningi næstkomandi miðvikudag 9. júní kl. 20.00. Mæting er kl. 20.00 skammt sunnan við Rallýkrossbrautina við Krýsuvíkurveg. Safnast verður saman við vegslóða sem liggur að skógræktarsvæðinu í Almenningi, en við hann er nokkuð áberandi vatnsverndarskilti. Reikna má með að gangan taki um 2-3 tíma, en tekið verður mið af veðri, skyggni og aðstæðum. read more »