Monthly Archives: júní 2012

Minjar

Kristrúnarborg og fólkið á Óttarstöðum

Fjárborgir er víða að finna á Reykjanesskaganum og víðar og vitna um gott verklag og hyggjuvit þeirra sem hlóðu þær. Flestar borgirnar eru kenndar við þá bæi sem þær tilheyrðu en ein fjárborg er kennd við konu og nefnd Kristrúnarfjárborg. Þessi fjárborg stendur á nokkuð sléttum hraunhrygg skammt vestan við Smalaskála í Hraunum sunnan við Straumsvík. Fjárborgin er allt eins nefnd Óttarstaðafjárborg, en Kristrúnarborg er það nafn sem staðkunnugir notast jafnan við. Konan sem fjárborgin er nefnd eftir hét Kristrún og var Sveinsdóttir en hún kom upphaflega sem vinnukona að Óttarstöðum frá Miðfelli í Þingvallasveit og varð húsmóðir á bænum. Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði og örnefnasafnari sagði frá því í örnefnaskrá sinni að Kristrún hefði hlaðið borgina ásamt vinnumanni sínum. read more »

Félagsstarf

Vel heppnuð sólstöðuganga

Sólstöðuganga Hraunavina var að þessu sinni eftir Alfaraleiðinni sunnan og vestan Straumsvíkur, gömlu leiðinni milli Innnesja og Suðurnesja. Ganga hófst hjá Gerðistjörn og gengið var í tvo og hálfan tíma í afbragðs gönguveðri.
 
Staldrað var fyrst við á rústum Þorbjarnarstaða og komið við í Stekknum, sunnan Þorbjarnarstaða. Síðan gengið um Draugadali og Þrengsli að Gvendarbrunni og margir fengu sér þar sopa, enda stóð vatn hátt í brunninum. Haft var á orði að þar þyrfti að koma fyrir ausu með löngu skafti til að auðvelda göngufólki að svala þorstanum.
 
Gengið var út af Alfaraleiðinni hjá Löngubrekkum og að Smalaskálakeri í Smalaskálahæð. Þar blasti við ,,hús“ Hreins Friðfinnssonar, myndlistarmanns og var ekki laust við að undrunarsvipur kæmi á göngufólk. Húsið er reyndar aðeins stálgrind, eftirlíking af grindinni í húsi sem Hreinn byggði á þessum stað árið 1974, þar sem grindverkið var klædd með bárujárni að innan og veggfóðri að utan. Í Hafnarborg í Hafnarfirði stendur nú yfir sýning á húsum Hreins. read more »
Félagsstarf

Sólstöðuganga fyrir alla 21. júní kl. 20.00

Fimmmtudagskvöldið 21. júní kl. 20.00 verður ókeypis sólstöðuganga í Hraunum við Straumsvík í boði Hraunavina. Safnast verður sama við húsið Gerði skammt frá álverinu. Auðveldast er að komast þangað með því að beygja út af Reykjanesbrautinni í áttina að Gámasvæðinu þegar komið er á móts við miðjan álversskálann. Síðan er ekið eftir gamla Keflavíkurveginum í suðvesturátt þar til komið er að húsinu Gerði sem nokkurnvegin þar sem framkvæmdir standa nú yfir á Reykjanesbrautinni, en þar er verið að útbúa mislæg gatnamót við innkeyrsluna að álverinu. read more »

Félagsstarf

Vel heppnuð ganga að Kjarvalsklettum

Listasafn Reykjavíkur efndi til gönguferðar um Gálgahraun og Klettahraun að kvöldi 14. júní í tengslum við sýninguna Gálgaklettur og órar hugans sem stendur yfir á Kjarvalsstöðum um þessar mundir. Þar eru m.a. sýnd um 30 málverk sem Jóhannes Sveinsson Kjarval málaði í Klettahrauni, sem er hluti Garðahrauns, en hann nefndi myndirnar ýmist úr Bessastaðahrauni, úr Gálgahrauni eða jafnvel Gálgaklettur þó svo að hann hafi ekki málað Gálgakletta enda komst hann aldrei nálægt þeim stað þar sem þeir klettar standa.

Ólafur Gíslason listheimspekingur og sýningarstjóri hefur lagt út af málverkum Kjarvals og hvernig hann nálgaðist viðfangsefnið á afskaplega fjölbreyttan hátt í fyrirlestrum sínum í Listaháskólanum og víðar. Á sýningunni eru verk eftir fjölda annarra listamanna og talaði einn þeirra Halldór Ásgeirsson um nálgun sína við viðfangsefnið þegar komið var að Kjarvalsflöt og Kjarvalsklettum eins og farið er að nefna klettana sem Kjarval heillaðist svo mjög af og málaði aftur og aftur.

read more »

Félagsstarf

Sólstöðuganga 21. júní 2012 kl. 20.00

Fimmmtudagskvöldið 21. júní kl. 20.00 efna Hraunavinir til Sólstöðugöngu í Hraunum við Straumsvík. Öllum er velkomið að taka þátt í göngunni og ekki þarf að greiða neitt gjald enda er gangan farin til að kynna hvað hraunin á félagssvæði Hraunavina hafa upp á að bjóða.   

Safnast verður sama við húsið Gerði skammt frá álverinu í Straumsvík.

Reynir Ingibjartsson leiðir gönguna en gönguleiðabók hans um 25 gönguleiðir á Reykjanesskaga er nýlega komin út. Ætlunin er að fylgja Alfaraleiðinni frá Gerði að Kristrúnarborg og síðan að fara gamla Keflavíkurveginn til baka að Gerði. Þetta er sama leið og merkt er nr. 2 í bók Reynis, þannig að göngufólk fær smjörþefinn af því hverskonar leiðir um er að ræða. Reynir mun fræða fólk á leiðinni og leggja áherslu á merka staði, mannvistarminjar og náttúrufyrirbæri. Hann mun  rifja upp sitthvað sem tengist örnefnum, kennileitum og staldra við á nokkrum stöðum á leiðinni. Það er sjálfsagt að hafa nesti meðferðist og svo er skynsamlegt að hafa skjólfatnað því að kólnar þegar líður að kvöldi.  read more »

Hraun

Myndlist og hraun

Um þessar mundir standa yfir tvær merkar myndlistarsýningar þar sem hraun koma við sögu. Sú fyrri var opnuð í Sverrissal í Hafnarborg laugardaginn 12. maí 2012 og nefnist Hús. Þar eru myndraðir af þremur húsum sem myndlistarmaðurinn Hreinn Friðfinnsson á heiðurinn að.

Hin sýningin var opnuð á Kjarvalsstöðum laugardaginn 2. júní og nefnist Gálgaklettur og órar sjónskynsins. Sýningin byggir að mestu nokkrum tugum málverka sem Jóhannes S. Kjarval málaði í Garðahrauni en þangað sótti hann í mörg ár og málaði oftar en ekki sömu klettana við mismunandi skilyrði. Á þeirri sýningu eru einnig verk eftir 20 aðra myndlistarmenn sem leggja út frá náttúrunni og  náttúrusýn líkt og Kjarval var þekktur fyrir að gera. 

read more »