Áramótahugleiðingar

Mótmæli í Gálgahrauni
Mótmæli í Gálgahrauni

Í haust þegar baráttan um Gálga-Garðahraunið (vegargerð) stóð sem hæst og þörf var á fjölmenni þá reif ég mig upp úr eldhússtólnum og ákvað að hella mér út í náttúruverndarbaráttuna. Nú var lag. Gálgahraunið var nærtækt og einsýnt að ég myndi aldrei verða staðarmótmælandi hvorki í Þjórsárverum, við Langasjó né Hólmsá austur. Nú var tækifærið fyrir mig, 66 ára og búsetta í Mosfellsbæ. Ég taldi einsýnt að fjöldi manns af Reykjavíkursvæðinu myndi taka þátt í mótmælunum því varðstaðan í Hrauninu var nærtæk og brýn, mótmælin þar yrði vendipunktur um varnir Íslands á þessum vettvangi.

 

Ykkur að segja varð ég fyrir miklum vonbrigðu fyrstu daga mína í Hrauninu. Þá var biðstaða í fyrirhugaðri vegargerð bæjarstjórnar Garðabæjar í því að kljúfa hraunið þvers og kruss og eyðilegga að eilífu einu hrauntunguna sem rennur svo til óspillt til sjávar á Reykjavíkursvæðinu og spannar um 108 hektara. Það var fámennt í varðstöðunni, 10-20 manns að jafnaði daglega þrátt fyrir „SOS“ útkall Landverndar o.fl. samtaka. Hvar var allt fólkið? Fólkið sem vissi af fyrirhugðuðum spjöllum, var ekki tímabundið, hafði tækifæri, gat fengið sig laust úr vinnu (eða tekið út frídaga)?

 

Varðliðarnir voru á ýmsum aldri, þó flestir yfir fertugt og allt upp undir áttrætt. Yndislegt fólk með hugsjónir – lagði allt í sölurnar, heilsuna, frídagana, fjölskylduna og meira að segja sakavottorðið. En það vantaði fleiri. Það vantaði fjöldann!

 

Eftir fyrsta daginn gerði ég úttekt á hópnum, svona í huganum. Sá sérvitringa, fólk sem hafði merkt sér Hraunið með gönguferðum (hundaferðum), fólk sem var í nöp við bæjarstjórnina (bæjarstjórann), – nöp við sjálfstæðismenn, -nöp við verktaka, -nöp við peningahyggju, – fylgjandi álfum, ræðuhöldum, „egói“, Kjarval, skógrækt, „ túrisma“, o.s.frv.. Þó nokkrir voru náttúruvendarsinnar í víðum skilningi en þó fannst mér „sérsinna“ fólkið atkvæðameira ,– og þótti miður.
Nokkuð vatn hefur runnið til sjávar frá fyrsta degi og margt hef ég lært sem Hraunavinur og þakklát fyrir kynni af merkilegu fólki sem stóð varðstöðuna frá degi til dag án þess að mögla – bæði í hita og kulda. Svo var valtað yfir hugsjónavinnuna í Hrauninu þann 21. okt. – en dagarnir verða svo sannarlega í minnum og ritum hafðir.

 

Hver og einn varðliði hafði sínar ástæður fyrir mótmælunum en þó er alltaf mikilvægt að fólk haldi sinni sérvisku fyrir sig og gangi fyrst og fremst fram í þágu íslenskrar náttúru, hvort sem um er að ræða sanda, jökla, hveri, fjöll, lindir eða hraun. Þannig, – og einungis þannig, nær fólk að mynda breiðfylkingu náttúruverndarsinna!

Gleðilegt og árangursríkt ár 2014!
Sesselja Guðmundsdóttir Mosfellsbæ

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *