Ársskýrsla stjórnar 2010-2011

Hraunavinir héldu aðalfund sinn í Haukshúsi á Álftanesi laugaradaginn 12. nóvember 2011. Pétur Stefánsson formaður flutti skýrslu stjórnar þar sem helstu viðburðir starfstímabilsins 2010 til 2011 voru tíundaðir. Auk venjubundinna aðalfundarstarfa flutti Sigríður Auður Arnardóttir lögfræðingur í Umhverfisráðuneytinu erindi um Árósarsamninginn og síðustu skrefin í að löggilda hann. Hér að neðan er hægt að lesa skýrslu stjórnar.  

1.       Ársfundur 2010:

Ársfundur Hraunavina 2010 var haldinn í Haukshúsi á Álftanesi, laugardaginn 6. nóvember 2010.

Á fundinum var stjórn félagsins endurkjörin til eins árs en hana skipa:

                                Jónatan Garðarsson,      Hafnarfirði

                                Reynir Ingibjartsson               „

                                Pétur Stefánsson,            Garðabæ

                                Þorsteinn Þorsteinsson        „

                                Ólafur  Proppé,                 Álftanesi.

Reikningar voru lagðir fram og samþykktir samhljóða.

Á fundinum kynntu Halldóra Hreggviðsdóttir og Heiða Aðalsteinsdóttir frá Alta tillögur að deiliskipulagi fyrir Garðahverfi á Garðaholti sem Alta hefur unnið að. Almenn ánægja var með skipulagstillögurnar og var þeirri viðhorfsbreytingu sem orðið hefur til svæðisins fagnað.

2.       Starfsemi félagsins:

Á fyrsta fundi stjórnar skipti stjórn með sér verkum þannig:

                Pétur Stefánsson, formaður

                Jónatan Garðarsson, ritari

                Ólafur Proppé,  gjaldkeri

Stjórnin ákvað jafnframt að tilnefna sömu ármenn áfram næsta starfsár, þ.e.

                Af Álftanesi:                       Elín Jóhannesdóttir

                                                                Gunnsteinn Ólafsson

                                                                Janus Guðlaugsson

                                                                Sveinbjörn Baldvinsson

                Í Garðabæ:                         Eymundur S. Einarsson

                                                                Jón Hjaltalín Ólafsson

                                                                Ólafur G. Einarsson

                                                                Óli Björn Hannesson

                Í  Hafnarfirði:                      Margrét Guðmundsdóttir

                                                                Pétur Óskarsson

                                                                Sigurður Einarsson

 Stjórnin hélt 8 bókaða fundi á árinu auk fundar með umhverfisnefnd Garðabæjar og ýmissa vettvangsathugana. Árið  mótaðist enn af vissri ládeiðu í framkvæmdum. Það gaf hinsvegar svigrúm til að koma áleiðis ýmsum stefnumálum félagsins og skal hér drepið á það helsta.

3.       Einstök mál:

Merking göngustíga í Gálgahrauni:  Í framhaldi af viðræðum stjórnar Hraunavina við bæjarstjór n Garðabæjar á árinu 2010 um samvinnu við merkingu sögulegra minja í Garðabæ var ákveðið að leggja á þessu ári áherslu á merkingu sögulegra stíga í Gálgahrauni. Bæjarstjórn hafði fyrir sitt leyti vísað málinu til umhverisnefndar bæjarins sem sýndi því mikinn áhuga. Ljóst var að verkið yrði nokkuð kostnaðarsamt ef leysa ætti það með þeim sóma sem hugur manna stóð til. Hraunavinir leituðu til þriggja fyrirtækja í Garðabæ, Íslandsbanka, Ikea og Marel sem hvert um sig hétu 200 þúsund króna framlagi til verksins. Þetta fé, ásamt myndarlegu framlagi bæjarins nægði til að láta gera tvö vönduð upplýsingaskilti  um gönguleiðir í hrauninu. Umhverisnefnd sá um framkvæmdina við skiltin og jafnframt að merkja með hælum bæði Fógetagötu  ásamt hjáleið og Garðastíg frá Stóra Skyggni að Garðastekk. Uplýsingaskiltunum var komið fyrir annars vegar við enda Fógetagötunnar  nálægt hringtorgi á Vífilsstaðavegi  og  við Garðastíg rétt við Garðastekk. Bæjarstjóri Garðabæjar vígði skiltin með viðhöfn að viðstöddum fulltrúa umhverfisráðuneytisins, framkvæmdaaðilum, gefendum og fjölda gesta fimmtudaginn 27. ágúst. Að vígslu lokinni var farið í göngugerð um stígana og að Gálgakletti í leiðsögn Jónatans Garðarssonar.

Hreinsun í landi Óttarstaða: Umfjöllun og ljósmyndir í fjölmiðlum af slæmri umgengni og miklu drasli í hrauninu við gamla Keflavíkurveginn og í Rauðamelsnámu í landi Óttarstaða varð til þess að sú hugmynd kviknaði að Hraunavinir hefðu forgöngu að hreinsun í hrauninu á degi íslenskrar náttúru hinn 16. september 2011. Reynir Ingibjartsson kannaði málið og hafði m.a. samand við sjáfboðasamtökin SEEDS og nokkra skóla í Hafnarfirði. Að fengnum jákvæðum fyrstu viðbrögðum var leitað til fjölda aðila og verkið undirbúið með stuttum fyrirvara. Föstudaginn 16. september mættu um 170 börn úr 3 skólum í Harfnarfirði ásamt hópi frá SEEDS og fleiri sjálfboðaliðum í rigningarsudda á bílastæðinu við Straum . Skólabörnin  hreinsuðu  allt hraunið sjávarmeginn við Keflavíkurveginn vestan Straumsvíkur en hópur sjálfboðaliðanna fór i Rauðamelsnámuna. Nokkur hópur Hraunavina og fleiri sjálfboðaliðar hélt hreinsunarstarfinu einnig áfram laugardaginn á eftir. Þótt hreinsun alls hraunsins á svæðinu yrði vissulega ekki lokið, þá náðist á þessum tveim dögum undraverður árangur.Framtak þetta vakti mikla og verðskuldaða athygli og gerðu fjölmiðlarnir því óvenju góð skil.

Þeir aðilar sem töku þátt í þessu verkefni með okkur voru:

Áslandsskóli

                Hraunvallaskóli

                Hvaleyrarskóli

                Sorpa

                Gámaþjónustan

                Fura

                Hópbílar

                SEEDS

                Framkvæmdasvið Hafnarfjarðar

Rio Tinto Alcan sem gaf 200 þús kr. til verkefnisins.

 Auk framangreindra aðila gáfu Sóma samlokur, Innnes, Stjörnusnakk og Eggert Kristjánsson       matföng og sælgæti til að næra og gleðja þátttakendur.

Bæjarstjóri og Framkvæmdasvið Hafnarfjarðar buðu stjórn Hraunavina til móttöku að Norðurhellu 2  hinn 8. nóvember  í viðurkenningarskini fyrir þetta framtak.

Árósarsamþykktirn: Allt frá stofnun Hraunavina hefur það verið mikið kappsmál að fá Árósasamninginn frá 1998 lögfesta á Íslandi en samþykktin opnar fyrir aðkomu einstaklinga og frjálsra félagasamtaka að undirbúningsferli skipulagsáætlana og framkvæmda. Í þessu augnamiði hafa fulltrúar Hraunavina heimsótt alla umhverfisráðherra  frá stofnum samtakanna. Þau ánægjulegu tíðindi urðu nú í september síðastliðnum að Árósasamningurinn var loks lögfestur á Alþingi íslendinga. Stjórn Hraunavina taldi þessi tímamót tilefni til að senda frá sér svohljóðandi ályktun:

Stjórn Hraunavina, félags áhugafólks um byggðaþróun og umhverfismál í Álftaneshreppi hinum forna, fagnar löggildingu Árósasamningsins frá 1998. Samningurinn tryggir aðkomu almennings að undirbúningi skipulagsáætlana og meiri háttar framkvæmda. Samningurinn er að mati stjórnarinnar veigamikill áfangi í því að tryggja vandaðan undirbúning framkvæmda og stuðla að farsælli sátt milli nýtingar- og verndarsjónarmiða og virðingu fyrir náttúru landsins og menningarverðmætum.

Fulltrúar stjórnar Hraunavina heimsóttu núverandi umhverfisráðherra  31. október síðastliðinn og afhentu ráðherra ályktunina og færðu honum þakkir félagsins. Ályktuninni var síðan dreift til fjölmiðla.

Fleiri mál hafa vissulega verið á borði stjórnar á árinu, svo sem Álftanesvegur, friðun Búrfellshraun o.fl.  sem bíður úrlausnar.

4. Vettvangsganga:

Hraunavinir efndu til sólstöðugöngu í Eskines og að  Gálgaklettum  í júní  og  var mjög góð þátttaka í göngunni, þar með talinn innanríkisráðherra og frú.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *