Suðvesturlína – athugasemdafrestur til 28. júlí 2010. Þeir sem ekki gera athugasemd teljast samþykkir línulögninni.

Suðvesturlína fer inn á óraskað svæði í Almenningi

Ágæt mæting var í göngu Hraunavina um fyrirhugað línustæði Suðvesturlína í Almenningi sem farin var miðvikudagskvöldið 9. júní. Veður var milt en það rigndi aðeins á göngufólkið því það gekk á með skúrum. Veðrið var ekki til trafala, enda gott að fá rigningaskúr þar sem mjög þurrt hefur verið að undanförnu. Gróðurinn í Almenningi er óvenju snemma á ferðinni og gróskan með mesta móti. Allt birki- og víðikjarrið er löngu orðið grænt og sóttist ferðin seint vegna þess að víða þurfti að krækja fyrir þéttvaxnar kjarrbreiður. Gróðurinn hefur tekið gríðarlegan vaxtakipp síðasta áratuginn og eru margar birkirunnar orðnir rúmlega tveggja metra háir.

Fyrst var komið við í Fjárborginni, en ef valkostur B verður valinn fyrir Suðvesturlínur munu háspennumöstrin liggja suðaustan við Fjárborgina á skógræktarsvæði þar sem byrjað var að plantá út fyrir tæplega 60 árum. Ef þessi línuleið verður valin mun nýja spennistöðin vera nokkur hundruð metra frá Gjáseli og línan fara yfir mitt selið og mjög nærri Straumsseli og Óttarsstaðaseli.

Línuleið A er illskárri kostur en línuleið B, þó svo að báðar eigi að fara um mjög merkilegt og fallegt náttúru- og minjasvæði sem nýtur hverfisverndar samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025. Að mati margra Hraunavina eru báðir kostirnir ómögulegir og mun nær hefði verið að setja allar raflínurnar í jörðu í núverandi línuvegastæði eins og gildandi aðalskipulag gerir ráð fyrir.

Línuleið A mun sneiða mjög nærri þremur seljum

Göngufólk lýsti yfir undrun sinni yfir þessum áformum og spurði ítrekað hvaða öfl það væru sem óskuðu eftir að flytja háspennulínuna svo sunnarlega í þetta fallega og gróna land. Svarið er einfalt. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa óskað eftir færslu línunnar.

Hægt er að lesa athugasemdir tveggja stjórnarmanna Hraunavina sem eru báðir Hafnfirðingar, hér fyrir neðan.

Línuleið B fer beint yfir Gjásel

Fimmtudaginn 10. júní birtist auglýsing í Fjarðarpóstinum þar sem fram kemur að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi samþykkt að gera breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 fyrir Suðvesturlínunnar í Hafnarfirði. Hægt er að skoða tillögurnar á bæjarskrifstofunum og á vef bæjarins, en athugasemdar frestur er til 25. júlí næstkomandi. Þeir sem ekki gera athugasemdir við breytingarnar teljast samþykkir þeim.

Tveir félagsmenn úr hópi Hraunavina gerðu ítarlegar athugasemdir 28. febrúar 2010 sem sendar voru til Umhverfis- og tæknisviðs Hafnarfjarðar, en þær hafa ekki haft nein áhrif á tillögugerðina, allavega ekki enn sem komið er.  Það er mikilvægt að fólk kynni sér í hverju þessar breytingar felast og sendi inn skriflegar athugasemdir ef ástæða þykir til.

Hér koma athugasemdir stjórnarmanna Hraunavina:

Efni: Umsögn um breytingar á aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005 – 2025 vegna lagningar Suðvesturlínu

Við undirritaðir; Reynir Ingibjartsson og Jónatan Garðarsson höfum skoðað umhverfisskýrslu og kortagögn vegna breytinga á aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005 – 2025 vegna breytinga á Suðvesturlínu til Hafnarfjarðar og Suðurnesja.

Við erum stjórnarmenn í umhverfishópnum Hraunavinum, sem lætur sér annt um umhverfið í bæjarlöndum Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Álftaness m.a. með því að fylgjast náið með skipulagsmálum í viðkomandi bæjarfélögum. Sem íbúar í Hafnarfirði og áhugamenn um náttúru og umhverfi bæjarins ritum við þetta bréf.

Eftirfarandi athugasemdum viljum við koma á framfæri sem íbúar í Hafnarfirði og lýsum um leið yfir þeirri skoðun okkar að þetta mál hafi því miður farið allt of lágt og að við teljum það miður að umhverfisskýrsla og önnur gögn varðandi málið hafi ekki verið send Hraunavinum til umsagnar. Skýringin er væntanlega sú að félagið telst ekki umsagnaraðili samkvæmt lögum, sem er miður þar sem félagasamtök á borð við Hraunavini ættu ætíð að vera með í ráðum þegar svo stór mál eru annarsvegar.

Áformaðar breytingar felast í því að styrkja á raforkuflutningakerfið á Suðvesturlandi m.a. með nýjum loftlínum til Suðurnesja og að færa raforkulínur og tengivirki út fyrir skipulagða byggð í Hafnarfirði. Í staðinn eru þessi mannvirki fyrirhuguð á ósnortnu landsvæði sunnarlega í landi Hafnarfjarðar, sem getur engan vegin talist ásættanlegt.

Við gerum fyrst í stað athugasemdir við línubreytingar frá Sandskeiði að Stórhöfða, á þeim hluta sem áætlaður er í landi Hafnarfjarðar austan og sunnan Helgafells. Bendum við á að veruleg útsýnismengun mun skapast við Helgafell þar sem ný háspennumöstur verða að líkindum mun hærri en þau sem eru þegar fyrir hendi á þessum slóðum. Lega nýju háspennumastranna verður að vera nær Helgafelli, sem getur reynst varhugavert. Þetta er samt sem áður eini kosturinn ef nýjar loftlínur verða setta upp, þar sem möstrin mega alls ekki fara suður og austur fyrir núverandi línustæði vegna Litluborga, sem er merkilegt náttúrufyrirbæri sem nýlega var friðlýst. Þetta er snúið mál, og að okkar mati hefði verið mun betri kostur að leggja línurnar í jörð.

Gamli línuvegurinn sem liggur frá Sandfelli um Rjúpnadyngjuhraun og Húsfellsbruna hefur þegar raskað landslagi á þessum slóðum. Það ætti að nota hann til línulagnar í jörð því við teljum það algjörlega úrelta leið að setja upp hátimbruð spennuvirki sem sjást langar leiðir. Ef það er ekki fjárhagslega hagkvæmt að leggja línur í jörð verður hreinlega að endurhugsa orkufrekar framkvæmdir. Það er löngu tímabært að viðunandi verðlagningar sé krafist fyrir línur og raforku. Þetta á ekki að vera útsöluvarningur enda er ekki slegið af verðlagningu til almennings þegar raforkan er annarsvegar. Sama ætti að gilda um erlenda orkukaupendur og aðra sem kaupa orku til stóriðju.

Athugasemdir okkar snúa samt sem áður fyrst og fremst að svæðunum sunnan iðnaðar- og íbúasvæða í Hafnarfirði: Hrauntungum, Nýjahrauni (Kapelluhrauni), Seljahraunum, Flám, Draughólshrauni og fleiri hraunum og Almenningi.

Í umhverfisskýrslu sem unnin er af verkfræðistofunni EFLU er svæðinu skipt í tvennt: ofan byggðar og innan byggðar. Það svæði sem telst innan byggðar hefur að mestu verið skipulagt sem iðnaðarsvæði og að hluta sem íbúasvæði fram til 2025. Eins og nú háttar í byggingarmálum verður varla byggt á þessum svæðum næstu ár og jafnvel áratugi. Verulegt rask hefur hins vegar víða orðið á svæðinu s.s. vegna efnistöku, einkum á svæði sem er í eigu Skógræktar ríksins nærri Hrauntungum.

Valkostunum í skýrslunni er stillt upp þannig að innan byggðar verði óbreytt ástand með s.k. núllkosti. Tengivirki verði áfram við Hamranes og Suðurnesjalína áfram á sínum stað. Enginn aukinn orkuflutningur eigi sér þá stað. Ofan byggðar sé hins vegar um tvo kosti að ræða. Syðra línustæðið er áætlað þannig að það liggi m.a. yfir Gjásel, mjög nærri Fornaseli, og rétt norðan við Straumssel. Spennivirkið er sýnt innan skógræktargirðingar þar sem útplötnun hófst um eða eftir 1950. Þetta er afskaplega sérkennilegur kostur og ef hann verður fyrir valinu er ekki hægt að segja annað en að þarna stefni í verulegt umhverfisslys.

Hinn kosturinn er línulega sem er sýnd allt að 600 metrum norðar, sem er illskárri en samt ekki góður kostur því spennivirkið verður í ósnortnu brunahrauni sem nefnist Brenna og mjög nálægt fjölda fornminja. Háspennulínan og möstrin munu fara yfir ósnortið land og liggja óþarflega nærri Straumsseli og fornum minjum sem eru umhverfis það. Línulegan er sýnd fara yfir Laufhöfðahraun, um Jónshöfða og syðsta hluta Draughólshrauns. Á þessari leið eru gamlar minjar sem og Straumsselsstígurinn sem er forn þjóðleið. Stígurinn virðist ekki vera rétt eða nákvæmlega staðsettur á kortum í umhverfisskýrslunni þar sem hann er sýndur í beinni stefnu þar sem háspennulínunni er ætlað að fara um. Engu er líkara en að þarna hafi ekki verið vandað nægjanlega til verks. Auðvelt hefði verið að rekja legu stígsins nákvæmlega með því að leita til aðila sem þekkja þetta svæði mjög vel. 

Það breytir engu hvor kosturinn verður fyrir valinu, því hvorugur þeirra er ásættanlegur að okkar mati. Rétt er að vísa til þess að í núgildandi aðalskipulagi er gert ráð fyrir að nýjar rafmagnslínur verði lagðar í jörðu. Þá verði tengivirkið við Hamranes flutt sunnar. Sú hugsun hvarflar óneitanlega að, að hin raunverulega ástæða fyrir nýjum línustæðum á ósnortnu landi sé, að orkuflutningsaðilinn Landsnet sé að spara sér kostnað með loftlínum í stað jarðstrengja. Þá hefði verið vel hægt að finna tengivirkinu nýjan stað á þegar röskuðu landi og mun sunnar en núverandi tengivirki við Hamranes er. Svo má gera því skóna að Hafnarfjarðarbær hafi séð sér hag í því að ýta þessum mannvirkjum út fyrir núverandi aðalskipulag og nýta landið ,,innan byggðar” frekar undir aðra hluti.

Eðlilegt hefði verið að hafa fjórða valkostinn: nýjar flutningslínur í jörð sem næst núverandi Suðurnesjalínu ásamt nýrri staðsetningu tengivirkis lengra frá íbúabyggð. Þess í stað er hlutunum stillt upp þannig, að kosturinn er í raun aðeins einn eða hver vill leggja rafmagnslínur yfir fornt sel?. Þau rök að verið sé að flytja óæskileg mannvirki (loftlínur og tengivirki) út fyrir byggðina, halda ekki, þar sem gert er ráð fyrir loftlínum frá nýju tengivirki í Hrauntungum að álverinu í Straumsvík og tengivirkið við Hamranes mun áfram vera á sínum stað um sinn. Enn einkennilegra er að nýju tengivirki er valinn staður á óröskuðu brunahrauni sem stingur í stúf og samræmist ekki náttúruverndarlögum. Skammt frá er raksað hraun á landi Skógræktar ríkisins, sem er í raun ríkisland og því ætti að reynast auðvelt að fá leyfi fyrir byggingu tengivirkis þar.

Í umræddri umhverfisskýrslu er umhverfismatinu skipt í níu þætti: landslag og sjónræn áhrif, jarðfræði og jarðmyndanir, gróður, fuglalíf, fornleifar, vatnsverndarsvæði, útivist og ferðamennsku, náttúruminjar og heilsu og öryggi. Síðan er hverjum þætti gefin einkunn – jákvæð eða neikvæð. Í þessari umsögn verður fylgt sömu skiptingu.

Landslag og sjónræn áhrif:

Landið sem fyrirhugað er að leggja nýjar rafmagnsloftlínur um ásamt byggingu nýs tengivirkis er í dag, ósnortið land að mestu, allavega af hálfu tæknialdar og vélbúnaðar.  Fyrirhuguðum framkvæmdum fylgir slóðagerð og umtalsvert og varanlegt, óafturkræft rask.  Samkvæmt lögum um náttúruvernd njóta eldhraun þ.e. hraun runnin eftir landnám, sérstakrar verndar. Eitt slíkt hraun er Kapelluhraun – Nýjahraun. Þá nýtur s.k. Almenningur, þar sem m.a. nokkur forn sel eru ásamt fjölda annarra fornminja, hverfisverndar samkvæmt ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar. Almenningur er mjög gróinn, einkum birki og víði, og hraunbreiðan rís hátt yfir umhverfið. Að sumri til breiðist grænn litur yfir Almenning og hér er ákjósanlegt útivistarland – sumar sem vetur. Í þessu landslagi hafa há rafmagnsmöstur ein og sér – mikil sjónræn áhrif og flestir ljósmyndarar forðast að taka myndir af þeim. Enn er Almenningur ósnortinn – rétt við bæjardyr Hafnfirðinga. Sömuleiðis er dapurt að fórna hluta af Hrauntungum undir tengivirki. Það er hægt að fjarlægja raflínur og brjóta niður stíflur, en rask í hraunum verður ekki bætt, nema nýtt hraun renni, sem gerist vonandi ekki í bráð.

Jarðfræði og jarðmyndanir:

Ofan byggðar eru margbreytileg hraun, runnin á ýmsum tímum. Yngst er Nýjahraun – Kapelluhraun, sem talið er hafa runnið um 1151 í miklum gosum frá sprungukerfi norðan Undirhlíða og Sveifluháls og  í Móhálsadal að sunnan, þegar hraun runnu bæði til norðurs og suðurs s.s. Ögmundarhraun. Á norðanverðum Móhálsadal er Hrútagjárdyngja og miklar hraunbreiður sem runnu til norðurs frá Vatnsleysuvík og að Kaldárseli, eru frá henni komin. Mikil spjöll hafa verið unnin á eldstöðvum sunnan og austan Hafnarfjarðar s.s.á Óbrinnishólum sem og gígaröðinni við Sandfellsklofa. Kominn er tími til að stöðva þessa þróun, sem hefur spillt mjög umhverfinu.

Gróður:

Eins og nefnt hefur verið, er mikil gróska í Almenningi. Birkið og víðirinn eru þar mest áberandi og einnig lynggróður og hraungambri. Í umhverfisskýrslunni er vitnað í niðurstöður rannsókna sem benda til staðbundinna gróðurskemmda við háspennumöstur vegna dreifingar sinks á gamburmosa. Almennt er það mosagróðurinn sem mest einkennir hraunin ofan byggðar og hann er mjög viðkvæmur fyrir öllu raski.

Fuglalíf:

Í Almenningi og í grennd er ríki mófugla s.s. þúfutittlings, steindepils og skógarþrastar. Einnig eru þar vaðfuglar s.s. heiðlóa, spói og hrossagaukur  Ekki má svo gleyma rjúpunni. Rafmagnslínur eru mikil vá fyrir fugla vegna áflugs. Það hjálpar ekkert fuglalífinu á þessum slóðum að s.k. Hamraneslínur verði aflagðar, en þær liggja nú um Heiðmörk og uppland Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Því ber hins vegar að fagna mjög, að þær á að fjarlægja, enda mikil lýti í landslaginu og hættulegar fuglum og jafnvel mönnum vegna áhrifa segulsviðsins.

Fornleifar:

Fæstir gera sér grein fyrir að í ofanbyggðarlandinu sunnan Hafnarfjarðar leynist fjöldi merkra fornminja. Það eru selin, fjárborgir, fjárbyrgi, fjárhellar, stekkir og kvíar auk fjölda annarra minja um fornan búskap s.s. vatnsból og vörður. Á vefriti Ómars Smára Ármannssonar – Ferlir.is er gríðarmikill fróðleikur um selin, sem heimildir eru til um allt frá landnámi og til upphafs tuttugustu aldar. Á Reykjanesskaganum einum hafa félagar í gönguhópnum Ferlir skráð ein 139 sel á 102 stöðum og þau eru örugglega fleiri. Þeir hafa varpað nýju ljósi á seljabúskapinn á Íslandi í 1000 ár og þar hafa minjarnar á Reykjanesskaganum ekki síst gildi. Á flestum býlum  á skaganum var haft í seli og oft bæði kýr og kindur og jafnvel hross líka. Sel voru algeng í Noregi, en fjárborgirnar má líklega rekja til Írlands og Skotlands. Þær er einnig víða að finna á Reykjanesskaganum og er ein sú stærsta og merkasta nærri áætluðu línustæði og tengivirki.

Í Almenningi og upp af Vatnsleysuströndinni röðuðu selin sér frá austri til vesturs. Austast voru: Fornasel og Gjásel. Fornminjarannsókn hefur verið gerð í Fornaseli á vegum Umhverfis- og útivistarfélags Hafnarfjarðar og er það talið vera frá um 1500, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar. Yfir Gjásel á að leggja háspennulínur samkvæmt valkosti 2 í aðalskipulagsbreytingunum, en þar nærri eru ýmsar fleiri fornminjar. Síðan koma Straumssel, Óttarsstaðasel og Lónakotssel. Litlu vestar er Hvassahraunssel. Svona má halda áfram. Að öllum þessum seljum liggja fornar leiðir og sumar þeirra liggja áfram suður yfir Reykjanesskagann t.d. Rauðamelsstígur sem var fjölfarin þjóðleið. Segja má að hér sé sagan við hvert fótmál. Lengst af hefur Íslendingum samt ekki þótt mikið koma til seljabúskapar, þrátt fyrir mikilvægi hans í viðveru þjóðarinnar í gegnum aldirnar. Nú er það vonandi að breytast. Þessi þáttur í búskapnum skipti sköpum á býlunum í Hraununum og á Vatnsleysuströndinni, sem og í Hafnarfirði, Garðahverfi og Álftanesi þar sem landlítið var með sjónum. Þetta var stór þáttur í því að mannlíf og búskapur gat þrifist á þessum slóðum um aldir.

Samkvæmt umhverfisskýrslunni hafa fundist 94 fornleifaminjar á 53 stöðum á hinu kannaða svæði innan Hafnarfjarðarlands. Sú skáning er örugglega ekki tæmandi, eins og reynslan hefur því miður sannað þegar slíkar rannsóknir hafa verið framkvæmdar án aðkomu heimamanna eins og hér virðist hafa verið raunin. Eina fornleifarannsóknin á svæðinu var gerð við Fornasel fyrir nokkrum árum og reyndist þá eitt húsanna vera frá um árið 1500. Ekki má svo gleyma fjárborginni í jaðri Almennings og Hrauntungna og hlaðin var ekki síðar en á 19. öld, þó heimildir séu þar mjög á reiki. Fjárborgin gæti verið mun eldri en talið hefur verið enda engin rannsókn verið gerð á aldri hennar.

Það verður að teljast sanngjörn og eðlileg krafa, að sérstök fornleifarannsókn fari fram þar sem selin eru og á svæðinu í kring, ekki síst við fornu leiðirnar. Hér er einstakt tækifæri til að rannsaka búskaparhætti sem spönnuðu í allt, 1000 ár og það við bæjardyr Hafnfirðinga. Slíkar rannsóknir þarf að sjálfsögðu að gera áður en ákvörðun er tekin um umfangsmiklar framkvæmdir á svæðinu.

Vatnsverndarsvæði:

Hafnarfjörður býr að einstakri auðlind þar sem kalda vatnið er. Hún kann að reynast meiri auðlind en jarðhitinn. Hér verður ekki fjallað um svæðið austan og sunnan Helgafells en sérfræðingar hafa bent á, að þar þurfi að fara sérstaklega varlega vegna mengunarhættu. Um svæðið kringum Kaldársel og suðvestur eftir öllum Reykjanesskaganum liggja misgengissprungur, sem flytja mikið vatnsmagn alla leið ofan af hálendi Íslands. Þá fellur mikið úrkomumagn niður í hraunin öll umhverfis Hafnarfjörð. Ekki verður séð að mengunarhættan hverfi við það, að framkvæma ekkert við línulagnir frá nóvember til marsloka. Hún er til staðar í hvaða mánuði sem er. Mikið vatn streymir til sjávar við Straumsvík og út með norðurströnd Reykjanesskagans. Ekkert kemur fram í umhverfisskýrslunni um rannsóknir og vatnsvernd á þessu svæði.

Útivist og ferðamennska:

Mjög er nú horft til aukinna möguleika í útivist og ferðamennsku á Reykjanesskaganum. Nálægð við Keflavíkurflugvöll, þéttbýlið á höfuðborgarsvæðinu, Bláa lónið og væntanlegur Suðurstrandarvegur, skapa mikil tækifæri.  Ósnortin náttúra eru mikil gæði í huga stórs hluta ferðamanna sem koma til Íslands. Þá skiptir líka máli að umhverfið eigi sér sögu. Selin í Almenningi eru slíkur staður. Margir landsmenn eru einnig áhugasamir um sögu lands og þjóðar og vilja fá að vita meira um fyrri tíð og þetta landsvæði er eins og opin bók. Þar er hægt að rekja spor sögunnar á einfaldan og auðveldan hátt.

Jafnljóst er að háspennulínur og áberandi möstur, laða ekki að ferðafólk og útivistarunnendur. Slóðar og ruðningar í gegnum ósnortið land, stinga í augun og særa umhverfisvitundina. Gamlar götur með fótsporum dýra og manna geyma hins vegar andartökin, allt frá landnámi Íslands. Reykjanesskaginn er ekki aðeins einstakur vegna jarðfræði og landsköpunar. Hann geymir líka búskapar – og atvinnusöguna, bæði til lands og sjávar. Allt vekur þetta forvitni ferðamannsins, eins og bent hefur verið á.

Hafnfirðingar njóta þeirra lífsgæða að umhverfis byggðina er mjög fjölbreytt land til útivistar. Allt vanhugsað rask spillir þessum lífsgæðum.

Náttúruminjar:

Hverfisvernd er nú á ósnortnu hrauni, bæði í Kapelluhrauni og Óbrinnishólabruna að frádregnu skipulögðu byggingarlandi. Eins er hverfisvernd á Almenningi til verndar búsetuminjum, seljum og öðrum fornum minjum og leiðum. Með þessu móti á að halda ásýnd landsins óbreyttri hvað varðar náttúru- og mannvistarminjar. Ljóst er að tilkoma háspennulína og mastra, passar ekki inn í þessa ásýnd. Sama á við staðsetningu spennuvirkis í Hrauntungum.

Heilsa og öryggi:

Í umhverfisskýrslunni er bent á, að háspennulínum fylgja hljóð og hávaði af tvennum toga; annars vegar vindgnauð og hins vegar hljóð af rafrænum uppruna. Hin rafrænu hljóð hækka við vaxandi spennu. Engar reglur eru um viðmiðunarmörk fyrir hávaða á óbyggðum svæðum. Búast má við talsverðri hljóðmengun umhverfis áformaðar háspennulínur sunnan Hafnarfjarðarbyggðar, sem mun spilla verulega allri útivist og draga úr þeirri óbyggðar upplifun sem þar er hægt að skynja í dag og verður sífellt meira virði í návist þéttbýlis.

Annar þáttur er raf- og segulsvið í umhverfi háspennulína og spennuvirkja. Margt er óljóst um áhrifin af rafsviði og segulsviði og margir telja sig hafa orðið fyrir heilsuskaða af þeim sökum. Þess vegna vilja flestir að háspennulínur og spennuvirki séu sem lengst í burtu. En þá sitja þeir sem vilja njóta útvistar uppi með vandann og áhyggjurnar. Hér er tvímælalaust skásta lausnin, að fylgja núverandi línustæðum eins og kostur er. Þá er vert að minna á að núverandi og væntanlegar háspennulínur vegna álversins í Straumsvík, liggja á núverandi aðalskipulagssvæði Hafnarfjarðar og tæpast verður álverið flutt burtu þess vegna.

Niðurstöður umhverfisskýrslu:

Í niðurstöðum umhverfismats á bls. 27 kemur fram, að aðalskipulagsbreytingarnar ofan byggðar muni hafa talsverð neikvæð áhrif á landslag og sjónræn áhrif, jarðfræði og jarðmyndanir, gróður, útivist og ferðamennsku og náttúruminjar. Minni áhrif verði  á fuglalíf, fornleifar og vatnsverndarsvæði m.t.t. valkostar 1. Valkostur 2 er svo enn síðri kostur.

Hér vekur sérstaka athygli að telja staðsetningu háspennulínanna og tengivirkis ekki hafa nein eða takmörkuð áhrif á fornleifar. Þó er gert ráð fyrir því í valkosti 2 að fara yfir eitt af seljunum og samkvæmt kosti 1 munar aðeins nokkur hundruð metrum. Þá verður fjárborgin við Hrauntungur örstutt frá þessum línum og sömuleiðis stutt frá henni í tengivirkið sem byggja á í Hrauntungum.

Þá kemur fram í niðurstöðum skýrslunnar, að óbreytt aðalskipulag muni hafa talsverð jákvæð áhrif á alla fyrrgreinda umhverfisþætti ofan byggðar. Sem jákvæð mótvægisaðgerð er nefnt, að niðurrif á Hamraneslínum 1 og 2, vegi upp á móti neikvæðum áhrifum þessara breytinga á aðalskipulagi Hafnarfjarðar. Línur þessar liggja nú um upplönd Hafnarfjarðar og Garðabæjar, auk Heiðmerkur.

Væri sá kostur valinn að byggja nýtt tengivirki á óbyggðu en röskuðu landi  og staðsetja nýjar Suðurnesjalínur við hlið þeirrar gömlu, ætti samt sem áður að vera hægt að leggja niður Hamraneslínurnar. Það eru því léttvæg rök að láta þær vega á móti þeirri röskun sem verður við það að fara inn á áður óraskað land.

Niðurstöður:

Í ljósi þessa alls, leggjum við undirritaðir það til, að ítarlegar rannsóknir fari fram á fornleifum á því svæði, þar sem sem valkostir 1 og 2 gera ráð fyrir nýjum háspennulínum og byggja á nýtt tengivirki. Einkum á þetta við um Almenning, þar sem selin eru. Skráning nægir ekki.

Jafnframt hefjist nú þegar athugun á nýjum valkosti, þar sem í fyrsta lagi verði fundin ný staðsetning fyrir tengivirki. Í öðru lagi verði nýjum háspennulínum til Suðurnesja og Álversins í Straumsvík fundinn staður sem næst núverandi línu, eins og gert er ofan við Helgafell. Í þriðja lagi verði reynt að ná samkomulagi um að leggja þær í jörð eins og reyndar er gert ráð fyrir í núverandi aðalskipulagi Hafnarfjarðarbæjar frá 2005 til 2025. Jarðstrengur er sá kostur sem menn verða að setja í forgang þegar um svo viðamikla framkvæmd er að ræða í óröskuðu landi í næsta nágrenni byggðar.

Miðað við núverandi ástand á byggingarmarkaði í landinu, fjölda óbyggðra lóða í Hafnarfirði og stór skipulögð svæði með engri byggð, verður ekki séð að skortur á byggingarlandi verði vandamál næstu ára og jafnvel áratuga í Hafnarfirði.  Þá er uppbygging stóriðju á Suðurnesjum í fullkominni óvissu vegna skorts á orku til sölu. Í ljósi þessa ber að nota tímann framundan til að skoða nýja valkosti og framkvæma nauðsynlegar rannsóknir s.s. á fornminjum og náttúrugæðum. Það er komið nóg af fjárfestingar- og umhverfisslysum.

Hafnarfirði 28. febrúar 2010.

Jónatan Garðarsson (sign)

Reynir Ingibjartsson (sign)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *