Category Archives: Málefni

Hraun Málefni Vötn

Kynningarfundur vegna Lyklafellslínu í Kópavogi

Bæjaryfirvöld í Kópavogi stóðu fyrir kynningarfundi vegna Lyklafellslínu miðvikudaginn 14. desember 2017.   Fulltrúi Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands og Hraunavina var meðal frummælanda og kynnti sjónarmið samtakanna.

Upptöku af fundinum má sjá hér:

https://www.kopavogur.is/is/frettir-tilkynningar/kynningarfundur-vegna-lyklafellslinu

Hraun Málefni Vötn

Kynning á Lyklafellslínu 1

Á íbúafundi um framkvæmdir við Lyklafellslínu 1 sem haldinn var í Sjálandsskóla í Garðabæ, 21. nóvember 2017, stóðu fulltrúar Hraunavina og Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands kynningu undir undirskriftinni „Gríðarleg áhætta á mengun vatnsbóla fyrir óþarfa framkvæmd“.

Kynninguna má lesa hér:

Kynning á Lyklafellslínu f. Sveitarfélögin 21. nóv. 2017 (pdf)

 

Félagsstarf Hraun Málefni Vötn

Stöndum vörð um vatnsbólin

Hraunavinir hafa undanfarið ásamt Náttúrverndarsamtökum Suðvesturlands reynt að vekja athygli á þeirri ógn sem að vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins steðjar vegna fyrirhugaðrar háspennulínulagnar á viðkvæmum grunnvatnssvæðum.  Félögin hafa staðið að kynningum og kært framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðar og Mosfellsbæjar.

Nokkrar athugasemdir vegna fyrirhugaðrar byggingar Sandskeiðslínu 1 (Lyklafellslínu 1)

  1. Vatnsból höfuðborgarsvæðisins eru meðal mikilvægustu auðlinda þjóðarinnar. Gera verður ráð fyrir áframhaldandi byggð í landinu um langa framtíð og því þarf að tryggja örugga varðveislu þessarar auðlindar fyrir komandi kynslóðir. Fyrirhugaðar stórframkvæmdir og rekstur háspennulína innan grannsvæða vatnsverndar bera vott um fádæma skammsýni.

  1. Bygging Sandskeiðslínu 1 (Lyklafellslínu 1) yfir grannsvæði vatnsverndar alls höfuðborgarsvæðisins er í andstöðu við ákvæði reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Þar segir í 13. gr. Um grannsvæði: “Á þessu svæði skal banna notkun á hættulegum efnum og birgðageymslu slíkra efna. Hér er m.a. Átt við olíu, bensín og skyld efni, salt, eiturefni til útrýmingar á skordýrum eða gróðri og önnur efni sem mengað geta grunnvatn, auk efna sem sérstaklega eru tilgreind í reglugerð um neysluvatn.”
  1. Forsendur fyrir byggingu Sandskeiðslínu 1 (Lyklafellslínu 1) eru nú sagðar vera niðurrif Hamraneslína en ekki styrking raforkukerfisins eins og áður var. (Hamraneslínur með 400 MVA flutningsgetu hvor eru að flytja um 105 MW (eins og Búrfellslína 3B) – Sandskeiðslína 1 er áætluð um 800MVA).

Engin skynsamleg rök hafa verið færð fyrir því að rífa Hamraneslínur í heild þó svo að þær hamli byggð á um 3 km kafla í Hafnarfirði. Engir kostir hafa verið kannaðir eða kynntir aðrir en bygging nýrrar línu yfir vatnsverndarsvæðin.

  1. Skv. dómi Hæstaréttar (mál nr. 575/2016), úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis – og auðlindamála og áliti Skipulagsstofnunar um þýðingu dóms Hæstaréttar (í bréfi til NSVE og Hraunavina) eru matsskýrslan um Suðvesturlínur og tilsvarandi álit Skipulagsstofnunar haldin slíkum ágöllum að á þeim gögnum er ekki hægt að byggja útgáfu framkvæmaleyfis

  1. Með nýjum lögum um náttúruvernd nr. 60/2013, sem tóku gildi 15. nóvember 2015, hefur orðið veruleg áherslubreyting varðandi verndun hrauna sem runnið hafa á síðjökultíma og síðar, en allur þorri þeirra raflína sem kynntar eru í matsskýrslu Suðvesturlína liggja um slík hraun. Fyrirhuguð Sandskeiðslína 1 liggur nær eingöngu um hraunasvæði og á um 10 km kafla um hraun frá síðari hluta 10. aldar (Kristnieldar).

  1. Áhættumat virðist einungis miða að því að koma framkvæmdinni í kring. M.a. liggur ekki fyrir nein viðbragðsáætlun komi til mengunarslyss þannig að loka þurfi vatnsbólum.

Sjá nánar gögn í meðfylgjandi pdf-viðhengjum.

Sjá mynd af grunnvatnsstraumum.  Rauða línan er Hamraneslína sem Hafnarfjörður vill burt vegna nýs hverfis á Völlunum. (vel hægt að leggja í jörð meðfram núverandi vegum. Svarta brotna línan sýnir hvar Lyklafellslína á að liggja meðfram Búrfellslínu 3 sem þar er (var sett upp rétt áður en ný lög um umhverfismat voru sett í gildi. hefði aldrei átt að vera sett upp á þessum stað) bláu örvarnar sýna hvar vatnið rennur í átt að vatnsbólunum, .. undir línustæðin og línuveg.

Mynd af grunnvatnsstraumum (pdf)

Kærur vegna framkvæmdaleyfis Hafnarfjarðar og Mosfellsbæjar í ágúst 2017.

Kæra vegna framkvæmdarleyfis Hafnarfjarðar til Úua – LOKA (pdf)

Kæra vegna framkvæmdarleyfis Mosfellsbæjar til Úua – LOKA (pdf)

Nánari upplýsingar fást hjá formanni Hraunavina, Ragnhildi Jónsdóttur í síma 694-3153.

Dómsmál Félagsstarf Málefni

Gálgahúmor í Gaflaraleikhúsinu

Skemmtun til styrktar Hraunavinum

Uppistand og tónleikar til styrktar Hraunavinum verður haldið í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði, mánudaginn 30. janúar kl 20.00. Á skemmtuninni koma fram Ari Eldjárn, Edda Björgvinsdóttir, Svavar Knútur, Björgvin Franz Gíslason, Ómar Ragnarsson, Gunnsteinn Ólafsson og hljómsveitin One Bad Day. Kynnir er Björk Jakobsdóttir. Aðgangseyrir er kr. 3.000 og má bæði kaupa miða á midi.is og í miðasölu Gaflaraleikhússins.

Hraunavinir, með Ómar Ragnarsson í broddi fylkingar, kærðu ríkið fyrir ólöglegar handtökur 21. október 2013. Þá gróf stærsta jarðýta landsins sig í gegn um Gálgahraun undir lögregluvernd svo leggja mætti nýjan Álftanesveg. Þá var tveimur dómsmálum ólokið um lögmæti framkvæmdarinnar og framkvæmdaleyfi löngu útrunnið. Hraunavinir höfðu uppi friðsamleg mótmæli en voru handteknir og færðir í fangaklefa. Hæstiréttur dæmdi nýlega handtökurnar löglegar og að Hraunavinum bæri að greiða kr. 900.000 í málskostnað. Hraunavinir íhuga að fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.


Hraunavinir hvetja unnendur náttúru og mannréttinda um allt land að leggja málinu lið. Þeir sem ekki komast á þessa frábæru skemmtun geta lagt inn á söfnunarreikning Hraunavina, 140 05 71017, kt. 480207-1490.

Skrá má sig á Facebook viðburðinn hér:

Gálgahúmor í Gaflaraleikhúsinu

Félagsstarf Hraun Málefni Vötn

Vatnsból höfuðborgarsvæðisins í hættu

Hraunavinir ásamt Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands hafa sent kjörnum fulltrúum bæjarstjórna á höfuðborgarsvæðinu og skipulagsstjórum eftirfarandi bréf þar sem vakin er athygli á þeirri hættu sem steðjar að vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins vegna fyrirhugaðar lagningar háspennulína um vatnsverndarsvæði.


3. janúar 2017

Ágæti fulltrúi almennings á höfuðborgarsvæðinu

Vatnsból höfuðborgarsvæðisins í hættu

Hraunavinir og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands vilja benda þér á þá alvarlegu ógn sem nú steðjar að vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins þar sem fyrirhuguð er bygging tveggja nýrra háspennulína af stærstu gerð, yfir viðkvæmasta hluta vatnsverndarsvæðanna suður af Heiðmörk,
skammt sunnan við sjálf vatnstökusvæðin. Nýverið samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar línulögnina ogþað vekur hjá okkur spurningar um það hvort kjörnir fulltrúar almennings og embættismenn í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki áttað sig á hættunni. Við hvetjum þig til að ígrunda vel afstöðu þína til þessa máls og skoða með opnum huga aðra möguleika til að tryggja annars vegar öryggi vatnsbólanna og hins vegar nauðsynlega raforkuflutninga.
Áformaðar háspennulínur eru í, um og innan við, 2 km fjarlægð frá vatnsbólunum í Vatnsendakrikum og Kaldárbotnum og um 4 km frá Gvendarbrunnum. Auk þess munu línurnar liggja fast við framtíðarbrunnsvæði Hafnfirðinga í Mygludölum. Þorri grunnvatnsins berst úr suðri frá Bláfjallasvæðinu til brunnsvæðanna (Sjá meðfylgjandi kort) sem eru í sprungurein Krýsuvíkureldstöðvarinnar þar sem hún liggur um Heiðmörk. Nyrðri hluti sprungureinarinnar er sýnilegur þar sem sprungurnar eru opnar til yfirborðs en syðri hlutinn er hulinn ungum hriplekum hraunum. Heiðmerkursvæðið er af þessum sökum einstaklega viðkvæmt fyrir hverskyns mengun sem auðveldlega getur borist niður í grunnvatnið og það ekkert síður á hraunasvæðunum þó svo að sprungur sjáist þar ekki á yfirborði. Reyndar má furðu sæta að strangari hömlur hafi ekki verið settar á umferð farartækja um svæðið í ljósi hugsanlegrar olíumengunar. Ljóst er að öll olía og önnur mengandi efni sem berast til grunnvatns sunnan við brunnsvæðin munu berast í vatnsbólin fyrr eða síðar.

Bygging tveggja 400 kV háspennulína 16 km leið um grannsvæði vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins, þar af 10 km yfir viðkvæmasta hluta grannsvæðanna er stóralvarlegt mál. Ljóst er að mengunarslys meðan á framkvæmdum stendur gæti spillt vatnsvernd og vatnstöku á stóru svæði um langan tíma. Auk þess ríkir algjör óvissa um áhrif á vatnsbólin vegna sinkmengunar frá háspennumöstrum.
Bygging háspennulínanna er stórframkvæmd. Þar er m.a. notaður fjöldi vinnutækja á borð við liðtrukka, vörubíla, beltagröfur, steypubíla og krana þar sem hvert tæki um sig er með nokkur hundruð lítra olíutank og því má lítið út af bregða ef slys ber að höndum.  Sérstök ástæða er til að benda á að í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns m.s. br. Segir m.a. um grannsvæði:

„Ekki skal leyfa nýjar byggingar, sumarbústaði eða þess háttar á svæðinu. Vegalagnir, áburðarnotkun og önnur starfsemi innan svæðisins skal vera undir ströngu eftirliti.“

Það má öllum vera ljóst að háspennumastur af stærstu gerð er bygging.
Þá skal bent á að skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd njóta eldhraun sérstakrar verndar og ekki má raska þeim nema brýna nauðsyn beri til.

Línulagning yfir hraun í Húsfellsbruna og bygging tengivirkis í hrauninu í Almenningum vestan Krýsuvíkurvegar munu jafnframt hafa í för með sér afar neikvæð áhrif á náttúru og ásýnd þessara svæða. Á síðustu áratugum hafa verið framin alvarleg landspjöll á hraunum og hraunamyndunum í
upplandi höfuðborgarsvæðisins, m.a. vegna efnistöku, vegagerðar og nýrra byggingasvæða. Iðulega hefur verið gengið fram af meira kappi en forsjá í þessum efnum. Þetta svæði er nú að verða eitt vinsælasta útivistarsvæði íbúa höfuðborgarsvæðisins og gesta þeirra og er því mál að linni hvað varðar óþarfa eyðileggingu hrauna.

Hraunavinir og Náttúruverndasamtök Suðvesturlands setja fram ákveðnar efasemdir um nauðsyn lagningar Sandskeiðslína. Þær línur eru hluti af stærri framkvæmd Landsnets sem ber nafnið Suðvesturlínur og má benda á að Héraðsdómur Reykjaness kvað nýverið upp dóm um að unhverfismat Suðvesturlína sé haldið slíkum annmörkum að óheimilt hafi verið að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 á grundvelli þess. Hæstiréttur hefur einnig fellt bæði eignarnám og leyfisveitingu Orkustofnunar úr gildi vegna þess að aðrir valkostir en háspennulína hafa ekki verið skoðaðir með raunhæfum hætti. Þá verður ekki annað séð en að bygging tveggja 400 kV lína sem mun tvöfalda núverandi flutningsgetu, sé langt fram yfir það sem fyrirsjáanleg þörf krefur. Þegar framkvæmdin var kynnt í upphafi var gert ráð fyrir stórum álverum á Keilisnesi og í Helguvík auk stækkunar álversins í Straumsvík. Ekki hefur orðið af þessum áformum en þau voru forsenda
þarfagreiningar um úrbætur á dreifikerfi raforku til Suðurnesja og því er engin sýnileg þörf á Sandskeiðslínum.

Einnig er ljóst að virkjunarkostir í nýtingaflokki rammaáætlunar gefa ekki tilefni til byggingar þessara lína. Styrking og stækkun núverandi Suðurnesjalínu og nýting raforkuframleiðslu heima í héraði á Suðurnesjum uppfyllir bæði orkuþörf almennings og venjulegrar atvinnustarfsemi á svæðinu um fyrirsjáanlega framtíð. Eins er flutningseta núverandi lína, Hamraneslínu 1 og 2 ásamt Búrfellslínu 3B, nægjanleg fyrir íbúa Hafnarfjarðar, núverandi starfsemi álvers í Straumsvík og aðra atvinnustarfsemi.  Framkvæmdir við Suðvesturlínur yrðu sóun á almannafé og líklegt að almennir neytendur þyrftu að bera kostnaðinn með hækkun á rafmagnsverði.

Við ítrekum loks hvatningu okkar til þín ágæti fulltrúi okkar almennings, og biðjum þig að kynna þér allar forsendur, áhættuþætti og rök varðandi þetta mál. Það er ekki ásættanlegt að kjörnir fulltrúar íbúa, samþykki framkvæmdir sem geta hæglega leitt til þess að neysluvatni almennings verði spillt.

Fylgiskjöl:
Meðfylgjandi kort eru fengin af heimasíðu Orkuveitu Reykjavíkur og úr skýrslu Verkfræðistofunnar Vatnaskila frá árinu 2015: Vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu. Greinargerð um heildarendurskoðun.

Vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu (Vatnsvernd.pdf): Nýtt vatnsverndarkort frá 2015.

Vatnsvernd (pdf)

Líkan af grunnvatnsstraumum (Vatn_straumar_línur.jpg): Inn á kortið hefur verið bætt legu fyrirhugaðra Sandskeiðslína (svört brotin lína) og legu Hamraneslína (rauð lína). Neysluvatnsborholur eru sýndar með rauðum lit. Glöggt má sjá hvernig allt grunnvatn streymir úr suðri undir fyrirhugað línustæði áður en það berst í vatnsbólin.

Kort af Vatnsendakrikum (Vatnsendakrikar.jpg): Lega Sandskeiðslína hefur verið merkt með svartri brotinni línu. Aðstreymi grunnvatns til Vatnsendakrika liggur undir línustæði Sandskeiðslína og
samkvæmt líkani er vatnið aðeins um 4 sólarhringa (100 klst) að berast þaðan í vatnsbólin.

Öllum framkvæmdum þarf að velja stað þar sem grunnvatnsstramar liggja frá vatnsbólunum.

Með bestu kveðjum
fyrir hönd Hraunavina og Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands

Ragnhildur Jónsdóttir, Hraunavinir og Helena Mjöll Jóhannsdóttir, NSVE

Vatnsból höfuðborgarsvæðisins í hættu (pdf)

Hraun Málefni

Athugasemdir Hraunavina vegna aðalskipulags Garðabæjar

Um þessar mundir vinna skipulagsyfirvöld í Garðabæ að endurnýjun aðalskipulags fyrir tímabilið 2016-2030.  Ekki er komið enn að lögbundnu formlegu athugasemdaferli, en bæjaryfirvöld hafa þó hvatt til þess að skilað sé inn tillögum eða athugasemdum við þær hugmyndir sem kynntar eru á vef bæjarins.  Sjórn Hraunavina hefur gert athugasemdir með eftirfarandi erindi:

Stjórn Hraunavina hvetur skipulagsyfirvöld Garðabæjar til að hlífa óspilltri náttúru á skipulagssvæðinu eins og best verður á kosið og leggur því til eftirfarandi ábendingar.

Félagið Hraunavinir leggur áherslu á að standa vörð um hraun og við viljum undirstrika að skemmdir á hrauni eru óafturkræfar aðgerðir. Því miður hafa hraun lengst af verið talin lítils virði á Íslandi og nú er svo komið að þau hafa að mestu verið skemmd innan þéttbýlismarka á höfuðborgarsvæðinu. Okkur er hinsvegar ánægjuefni að greina viðhorfsbreytingar. Í stað þess að líta á hraun sem lítt gróna farartálma hafa margir áttað sig á að hraun veita gott skjól fyrir næðingi meðan gönguferða er notið um óslétt og spennandi landslag. Auk þess má benda á að fjölbreytt lífríki, bæði plöntur og dýr, þrífst best í hrauni.

Skipulagsyfirvöld í Garðabæ eru eindregið hvött til að taka tillit til eftirfarandi sjónarmiða við endurskoðun aðalskipulags 2016 – 2030:

1) Að hverfa alfarið frá hugmyndum um vegalagningu þvert yfir Gálga-/Garðahraun frá enda Vífilstaðavegar og yfir að gamla Álftanesvegi milli vegamóta Herjólfsbrautar og Garðaholtsvegar. Okkur þykir ekki fullnægjandi að aðeins sé metinn sá valkostur að hverfa frá áform um lengingu Vífilstaðavegar við nýja veginn í miðju hrauninu, þ.e. helming leiðarinnar yfir hraunið. Vegtengingin sem er undanskilin í því mati sem hefur verið kynnt [sbr. http://www.gardabaer.is/library/Files/Skipulagsmal/Adalskipulag-2015/Kynningarfundir-nov-2015/Vifilsstadavegur.pdf] skemmir hraunfláka sem Jóhannes Kjarval notaði ítrekað sem vettvang fyrir sína listsköpun. Þar má enn sjá vegsummerki eftir listamanninn og finna nokkra klettadranga sem prýða mörg af hans þekktu málverkum. Við stingum upp á að bætt verði við ofangreint umhverfismat sá valkostur að flytja umrædda vegtengingu vestur fyrir jaðar hraunsins og varðveita hraunflákann sem hefur bæði mikið náttúru- og menningarlegt gildi.

2) Að draga úr umfangi fyrirhugaðrar íbúðabyggðar næst vesturjaðri hraunsins og gera ráð fyrir gönguleið (og akbraut sbr. lið 1) meðfram hraunjaðrinum, auk hæfilegrar fjarlægðar. Við teljum tilhlíðilegt að svæði meðfram hraunjaðri sé helgað og þess gætt að hindra ekki gönguleiðir þar, á sama hátt og gert er meðfram öllum ám og lækjum samkvæmt skipulagslögum. Þannig má bæði nálgast og skoða hraunfláka eins og þeir storknuðu og auðvelda fólki að ganga/hjóla meðfram óröskuðum hraunum, t.d. á útivistarstígum.

3) Að leggja ekki göngu-/hjólastíga yfir hraun, nema í undantekningartilvikum. Hugmyndin um bláu línuna meðfram strandlengju á höfuðborgarsvæðinu er góðra gjalda verð, en ekki er þörf á að festast alveg í þeirri hugmynd og þræða strandlínuna ófrávíkjanlega. Sama á við lagningu göngu-/hjólastíga og annað að framkvæmdir í hrauni eru óafturkræfar og upplifun fólks af sérstöku umhverfi hraunbreiða verður sterkari ef þess er gætt að raska umhverfinu sem minnst. Við leggjum til að frekar en að leggja stíg meðfram allri ströndinni verði valdir staðir gerðir aðgengilegir með því að leggja botnlanga frá ‘bláu línunni’ og skapa þar aðstöðu til áninga í næði frá megin umferðinni á langri leið milli Hvaleyrarholts og Leirvogsár. Í þessu sambandi er líka rétt að benda á mikilvægi þess að tryggja aðgengi andfugla sem koma af sjó, t.d. æðarfugla. Mikil umferð meðfram strandlengjunni getur hæglega fælt fuglinn frá svo hann setjist ekki upp á varpstöðvar sínar og hverfi frá svæðinu. Það samrýmist markmiðum um verndun Skerjafjarðar að tekið sé tillit til þessa og samþykkt verndar fyrir Skerjafjörð í Garðabæ á við um Gálgahraun og fuglavarp þar.

f.h. stjórnar Hraunavina

  • Kristinn Guðmundsson gjaldkeri
  • Ragnhildur Jónsdóttur formaður
  • Viktoría Áskelsdóttir ritari
  • Gunnar Örvarsson meðstjórnandi
  • Ragnar Unnarsson meðstjórnandi
  • Gunnsteinn Ólafsson varamaður í stjórn
  • Ragna Dagbjört Davíðsdóttir varamaður í stjórn
Málefni

Athugasemdir Hraunavina vegna Suðurnesjalínu 2

Hraunavinir mótmæla harðlega fyrirætlunum Landsnets um lagningu Suðurnesjalínu 2 í loftlínum í gegnum Vallahverfið í Hafnarfirði og í gegnum ósnortin hraunsvæði í Almenningi. Einnig er mótmælt byggingu tengivirkis í Hrauntungum. Hraunavinir fara því fram á að Hafnarfjörður veiti Landsneti ekki framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 að óbreyttu.

Sjá bréf stjórnar Hraunavina til skipulags- og byggingarsviðs Hafnarfjarðar 4. apríl 2015 í pdf viðhengi.

Athugasemdir Hraunavina vegna Suðurnesjalínu 2

Greinar Hraun Málefni

Íslensk ónáttúra

Ákveðið hefur verið að falla frá öllum málarekstri vegna vegalagningar í Gálgahrauni. Vegagerðin hóf með lögregluvaldi óafturkræf spjöll á hrauninu eftir að dómsmál þar sem tekist var á um lögmæti framkvæmdanna var höfðað og hefur haldið þeim áfram síðan.  Óbætanlegt tjón er orðið staðreynd. read more »

Greinar Hraun Málefni

Áramótahugleiðingar

Mótmæli í Gálgahrauni
Mótmæli í Gálgahrauni

Í haust þegar baráttan um Gálga-Garðahraunið (vegargerð) stóð sem hæst og þörf var á fjölmenni þá reif ég mig upp úr eldhússtólnum og ákvað að hella mér út í náttúruverndarbaráttuna. Nú var lag. Gálgahraunið var nærtækt og einsýnt að ég myndi aldrei verða staðarmótmælandi hvorki í Þjórsárverum, við Langasjó né Hólmsá austur. Nú var tækifærið fyrir mig, 66 ára og búsetta í Mosfellsbæ. Ég taldi einsýnt að fjöldi manns af Reykjavíkursvæðinu myndi taka þátt í mótmælunum því varðstaðan í Hrauninu var nærtæk og brýn, mótmælin þar yrði vendipunktur um varnir Íslands á þessum vettvangi. read more »

Málefni

Sorgardagur í Gálgahrauni

http://visir.is/eidur-og-omar-segjast-hafa-verid-beittir-ofbeldi—tokum-hann,-tokum-hann-/article/2013131029803

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/10/21/llum_verid_sleppt_ur_haldi/

http://www.dv.is/frettir/2013/10/21/eldri-borgarar-handteknir-af-logreglu-TWU4C8/