Fallegir ískristallar

 

Fyrstu dagana í desember hefur náttúran skartað sínu fegursta í froststillunum sem hafa verið dögum saman á suðvesturhorninu. Ískristallar og héla mynda skrautlegar frostrósir á hraunklettum, stráum og lyngi hvert sem litið er. Jarðvegurinn er gaddfreðinn og kristallarnir glitra og sindra dulúðugu geislaflóð þá stuttu stund yfir daginn þegar sólin er enn á lofti. Það er vel þess virði að klæða sig í skjólgóðan fatnað og góða gönguskó og halda í gönguferð eitthvað út í náttúruna til þess eins að njóta þessa sérstæða náttúrufyrirbæris á meðan svona er ástatt.

Slétt helluhraun þar sem Hrauntungustígur liggur um Hellnahraun.

Hraunin eru undraveröld og á meðan veður helst jafn stillt og verið hefur að undanförnu bítur frostið ekki eins harkalega og þegar vindurinn blæs. Samt sem áður er nauðsynlegt að klæða sig vel því kuldinn er lúmskur. Þetta skiptir ekki máli á meðan gengið en um leið og staldrað er við í stutta stund til að dást að dýrðinni lætur frostið finna fyrir sér. Það ætti samt ekki að stöðva nokkurn þann sem kann að búa sig rétt til vetrargöngferðar.

Varðan við Hrauntungustíg, skammt frá námusvæðinu í landi Skógræktar ríkisins, þar sem hrauni hefur verið eytt á undanförnum árum. Sveifluháls vinstra megin vörðunnar, Grænadyngja, Tölladyngja og Keilir til hægri.

Smellið á myndirnar til að stækka þær.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *