Fundargerð 12. desember 2011

Stjórnarfundur nr. 42. 12. desmber 2011

 1. Fundargerð.

Fundargerð 41. fundar, 9.11.2011, var samþykkt.

2. Verkaskipting stjórnar.

Ákveðið var að Pétur Stefánsson verði áfram formaður Hraunavina, Ólafur Proppé ritari, Þorsteinn Þorsteinsson gjaldkeri, Guðfinna Guðmundsdóttir og Reynir Ingibjartsson meðstjórnendur.

3. Endurskoðun á lögum félagsins.

Á aðalfundi Hraunavina var ákveðið að yfirfara lög félagsins, en þau hafa verið óbreytt frá stofnun. Sérstaklega á að huga að því hvort breyta þurfi lögunum svo að þau uppfylli kröfur Árósasamningsins. Pétur mun senda stjórnarmönnum gildandi lög Hraunavina. Þorsteinn mun kanna lög svipaðra félaga. Hann mun svo senda lög Hraunavina til yfirlestrar til Sigríðar Arnardóttur lögfræðings í umhverfisráðuneytinu.

4. Álftanesvegur.

Rætt var um nýjan Álftanesveg. Pétur og Þorsteinn munu ræða við Guðmund Guðmundsson verfræðing um veginn og vegstæðið og síðan við skipulagsyfirvöld í Garðabæ til að fá upplýsingar um stöðu málsins.

5. Verkefni ársins.

Rætt var um ýmis verkefni sem liggja fyrir og félagið getur haft frumkvæði að eða fylgt eftir, svo sem:

  • Í framhaldi af umræðu á síðasta stjórnarfundi Hraunavin um að hreinsa Rauðamelsnámuna sunnan við Straum og gera hana að náttúrulegu og manngerðu útivistarsvæði hefur Þorsteinn rætt við Ragnar Frank Kristjánsson sem kennir skipulags- og umhverfisfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri um að hugsanlega gætu nemendur í þeim fræðum unnið verkefni sem tengdust Rauðamelsnámunni. Með slíkum hugmyndum væri etv unnt að vekja betur athygli og áhuga á að gera eitthvað fyrir svæðið. Þorsteinn og Reynir munu fylgja málinu eftir.
  • Pétur ræddi hugmynd um að fá sveitarfélögin í “Álftaneshreppi hinum forna” til að sameinast um að meta verndargildi náttúru- og menningarminja á svæðinu. Vísað til frekari umræðu.
  • Rætt um að halda áfram merkingum á náttúru- og menningarminjum, t.d. á Móslóða í Garðahrauni/Gálgahrauni.

6. Önnur mál.

  • Reynir lagði til að Hraunavinir hvettu til að þess verði minnst á 100 ára afmælisdegi Sigurðar Þórarinssonar, 8. jan. n.k., með táknrænni athöfn við Grænavatn í Krýsuvúk að fyrstu lög um náttúruvernd  voru sett. Sigurður hafði á sínum tíma frumkvæði að slíkri löggjöf . Var þessu vel tekið og mun Reynir hafa samand við önnur samtök, svo sem félag jarðfræðinga, Ferðafélag Íslands og önnur náttúruverndarsamtök til að leita eftir hugsanlegu samstarfi um málið.
  • Þá var rætt um nauðsyn þess að gera einstaklingum mögulegt að gerast félagar í Hraunavinum á heimasíðu samtakanna. Pétur mun ræða málið við Jónatan Garðarsson fyrrverandi ritara stjórnar, en Jónatan hefur góðfúslega samþykkt að hafa áfram umsjón með heimasíðunni.
  • Pétur lagði fram tillögu að eftirfarandi ályktun: Stjórn Hraunavina fagnar gerð göngustígs meðfram Molduhrauni í Garðabæ. Stígurinn er að mati stjórnarinnar lagður af stakri smekkvísi og frágangur við atvinnubótarveginn frá 1918 til fyrimyndar. Var ályktunin samþykkt samhljóða.

 Fundi slitið kl. 17:45.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *