Fundargerð nr. 48

Fundur stjórnar nr. 48, haldinn á Súfistanum, Strandgötu 9, Hafnarfirði, 4. september kl. 15.00

Þorsteinn Þorsteinsson tók að sér ritun fundargerðar í forföllum ritara.

 1. Fundargerð.

Fundargerð 47. fundar, 8.8.2012, er enn hjá ritara.

2. Álftanesvegur.

Rætt var um stöðu mála varðandi fyrirhugaðan Álftanesveg (415). Vegagerðin hefur auglýst eftir tilboðum í gerð vegarins milli Hafnarfjarðarvegar og Bessastaðavegar. Um er að ræða nýjan 4 km langan veg frá Engidal að Fógetatorgi við Bessastaðaveg. Í verkinu er gert ráð fyrir mislægum gatnamótum ásamt að- og fráreinum við Hraunsholt í Engidal og einnig tveimur göngum undir veginn fyrir gangandi vegfarendur. Tilboð verða opnuð 18. september nk.

Samþykkt að stjórnarmenn ræði við fulltrúa íbúa í norðurhluta Prýðishverfis.

3. Dagur náttúrunnar 16. september 2012.

Samþykkt var að skipuleggja hreinsun í hrauninu vestan við Rauðamelsnámuna í Hafnarfirði. Hreinsunar­átakið verður með svipuðu sniði og á degi náttúrunnar 2011. Þó er gert ráð fyrir að nemendur Áslandsskóla, Hvaleyrarskóla og Hraunvallaskóla taki þátt í hreinsuninni föstudaginn 14. september. Sama dag taki fyrirtæki og samtökin SEED þátt í hreinsuninni. Fyrirtæki taki einnig þátt í hreinsuninni laugardaginn 15. september og á degi náttúrunnar, sunnudaginn 16. september, er gert ráð fyrir að almenningur taki þátt í hreinsunarátakinu. Stjórnarmenn fóru yfir verkefnalista fyrir átakið og skiptu með sér verkum.

Þorsteinn greindi frá því að í Garðabæ sé fyrihuguð ganga frá Vífilsstöðum sunnudaginn 16. september kl. 13.00 undir leiðsögn Ragnheiðar Traustadóttur, fornleifafræðings. 

4. Ársfundur (aðalfundur) Hraunavina.

Ákveðið að Þorsteinn fjölfaldi tillögu að nýjum lögum félagsins og hafi þau tiltæk fyrir fundinn. Einnig var ákveðið að hann gangi frá reikningum félagsins fyrir skoðunarmenn reikninga. Dagsetning fundar verður ákveðin á næsta stjórnarfundi. 

5. Önnur mál.

  • Þorsteinn greindi frá því að fjárhagsstaða félagsins sé góð. Félagið eigi rúmlega kr. 200.000 á bankareikningum. Útgjöld hafa verið lág, helst er um að ræða fundakostnað, ritföng, prenthylki og sendingakostnað.
  • Ákveðið að halda næsta stjórnarfund fljótlega.

Fundi slitið kl. 16:40.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *