Fundargerð nr. 45

Fundur stjórnar nr. 45

Haldinn 18. apríl 2012 í Súfistanum kl. 15.00

1. Fundargerð.

Fundargerð 44. fundar, 1.2.2012, var samþykkt.

2. Lög félagsins.

Þorsteinn kynnti hugmynd að endurskoðuðum lögum fyrir félagið, en á síðasta aðalfundi Hraunavina var ákveðið að yfirfara lög félagsins, en þau hafa verið óbreytt frá stofnun. Sérstaklega átti að huga að því hvort breyta þurfi lögunum svo að þau uppfylli kröfur Árósasamningsins. Þorsteinn hafði fengið Stefán Boga Sveinsson, lögfræðing hjá Umhverfisstofnun, til að fara yfir lögin og gera tilögur um lagfæringar. Mun Þorsteinn senda tillögurnar til stjórnarmanna til yfirlestrar.

3. Álftanesvegur.

Pétur og Ólafur gerðu grein fyrir fundi sem þeir áttu fyrir hönd félagsins 22. febrúar sl. með innanríkisráðherra, Ögmundi Jónassyni, um legu Álftanesvegar. Fylgdu þeir þar eftir bréfi félagsins um efnið. Staðfesti ráðherra að málið væri á forræði skipulagsyfirvalda í Garðabæ og að hann muni kynna sér málið nánar. Pétur og Þorsteinn munu hafa samband við skipulagsyfirvöld í Garðabæ til að fá teikningar og önnur gögn um vegaframkvæmdirnar. Ákveðið var að kanna hvað muni kosta að leggja veginn í göng í núverandi vegstæði fram hjá nýju íbúðarhverfi í hrauninu norðan við Engidal. Slík vegagerð myndi leysa þann vanda sem felst í þvi að brjóta land undir veginn í gegnum hraunið austan við umrætt íbúðarhverfi eins og nú er gert ráð fyrir.

4. Golfvöllur.

Ákveðið að taka upp viðræðu við stórvesír Oddfellow-reglunnar um vettvangsferð um Búrfellshraun „milli hrauns og hlíðar“ þar sem hugmyndir hafa verið settar fram um stækkun golfvallar reglunnar í Urriðakotslandi. Hraunavinir hafa ítrekað bent á slíkar framkvæmdir séu óásættanlegar frá sjónarmiði náttúruverndar og aðgengi almennings 

5. Dreifing á félagatali.

Rætt um hvort dreifa eigi félagatali Hraunavina til utanaðkomandi aðila. Ákveðið að slíkt verði ekki gert, en aðilum boðið að senda stjórn upplýsingar sem þeir vilja koma á framfæri og stjórn geti þá tekið afstöðu til þess hvort hún sendir slíkar upplýsingar áfram til félagsmanna.

6. Önnur mál.

  • Stjórn Hraunavina þakkar Hreini Friðfinnsyni myndlistamanni fyrir stuðnig hans við félagið.
  • Sunnudaginn 22. apríl standa Hraunavinir, Fugla- og náttúruverndarfélag Álftaness og Félag áhugamanna um sögu Bessastaðaskóla að gönguferð um Hraunin að Lónakoti undir leiðsögn Reynis Ingibjartssonar.
  • Rætt var um að kanna hvort Hraunavinir eigi að beita sér fyrir áframhaldandi merkingu göngustíga í Garða- og Gálgahruni eða jafnvel víðar á félagssvæðinu. Guðfinna lagði til að félagið geri áætlun um slíkar merkingar nokkur ár fram í tímann. Þannig megi hugsanlega auðvelda kostun.

 

Fundi slitið kl. 16:45.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *