Gönguferð miðvikudagskvöldið 9. júní

Fjárborgin verður á vegi göngumanna

Hraunavinir efna til kvöldgöngu í Almenningi næstkomandi miðvikudag 9. júní kl. 20.00. Mæting er kl. 20.00 skammt sunnan við Rallýkrossbrautina við Krýsuvíkurveg. Safnast verður saman við vegslóða sem liggur að skógræktarsvæðinu í Almenningi, en við hann er nokkuð áberandi vatnsverndarskilti. Reikna má með að gangan taki um 2-3 tíma, en tekið verður mið af veðri, skyggni og aðstæðum.

Gengið verður á milli nokkurra selja í Almenningi og göngufólk frætt um söguna, örnefni og fornminjar sem tengjast seljabúskap og lífinu á Hraunabæjunum við Straumsvík sem nytjuðu þetta land um aldir. Einnig verður hugað að legu væntanlegrar Suðvesturlínu. 

Landsnet hefur kynnt sveitarstjórnum á suðvesturhorninu áætlaða legu nýrrar  Suðvesturlínu frá Hellisheiði að  Helguvík í Reykjanesbæ. Málið hefur verið rætt og samþykkt í flestum nefndum og ráðum, en ennþá á eftir að kynna þessa framkvæmd með formlegum hætti fyrir íbúum viðkomandi sveitarfélaga. Þegar það ferli hefst gefst fólki takmarkaður frestur til að senda inn skriflegar athugasemdir eins og lög gera ráð fyrir.

Núverandi Suðvesturlína liggur að stórum hluta í landi Hafnarfjarðar og nýja línan mun einnig gera það. Forráðamenn Hafnarfjarðarbæjar hafa óskað eftir því að spennivirkið við Hamranes verði lagt niður og háspennulínan færð langt til suðurs frá núverandi línustæði sem er skammt sunnan við Straumsvík. Með því móti munu línumannvirkin færast mjög nálægt seljunum, einhverjum merkustu fornminjunum í Almenningnum.

Línan mun eftir sem áður fara yfir vatnsverndarsvæðið ofan Helgafells og yfir Undirhlíðar í áttina að Stórhöfða við Krýsuvíkurveg. Á móts við Stórhöfða verður línan flutt til og sveigð til vesturs í áttina að nýju spennivirki sem ætlunin er að rísi á óröskuðum hraunfláka norðan við Hraungungur. Þaðan á línan að liggja skammt neðan við Gjásel, Straumssel og Óttarsstaðasel, en þar eru margvíslegar fornminjar. Leggja þarf nýjan línuveg vestur yfir gróið hraunið og mun þessi framkvæmd valda talsverðri landröskun ef af henni verður. Línumöstrin sem á að reisa verða talsvert hærri en þau möstur sem hafa verið notuð til þessa og þar af leiðandi meira áberandi í landinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *