Gönguför í Gálgakletta

Hér birtist frásögn eftir Guðrúnu Sveinsdóttur sem prentuð var í blaðinu Melkorku 10. árgangi, 2. tölublaði árið 1954:

Gálgaflöt og GálgaklettarÁ Álftanesi við Arnarnesvog er Gálgahraun. Fram við sjóinn, beint á móti Bessastöðum gnæfa Gálgaklettar. Við klettaræturnar þekur grasið gömul tóftarbrot. Í klettaskorum vex ljónslöpp, tófugras, burkni, þursaskegg o.fl. Efst uppi situr svartbakur, einn síns liðs, en annars er hér urmull fugla. Í sandbleytunni og smá tjörnunum, sem útfirið hefur skilið eftir, á milli grasigróinna sandbala, vaða stelkar og sendlingar, en í þangbendunni, sem öldurnar hafa skolað langt upp á land, gösla úfnar og óhreinar rolluskjátur með lömbin sín. Smáfuglar þjóta milli klettanna, sem endur fyrir löngu báru uppi líkama ógæfusamra vesalinga, sem mannanna réttlæti dæmdi til lífláts á þessum stað.

Við erum þrjár á ferð, frú Unnur Skúladóttir, Signý bróðurdóttir hennar, 11 ára gömul, og sú sem þetta ritar. Við nemum staðar og fáum okkur sæti í brekkunni, að vestanverðu við stóra klettinn. Landslagið er sérkennilegt og víður sjóndeildarhringurinn. Hér er friðsælt, við njótum veðurblíðunnar og finnum hve staðurinn er laus við ömurleg áhrif þess sem hér hefur áður gerzt. Hinzta hvíla hinna ógæfusömu, sem fengu ekki að bera beinin í kristinna manna reit, hefur áreiðanlega hlotið sína vígslu, sem hrakið hefur á brott allt óhreint og helgað staðinn.

Gömul frásögn hermir, að einu sinni sat lítil stúlka undir Gálgaklettum. Var hún þá, sem í leiðslu, hrifin upp í ljóshvolf vítt og undurfagurt. Að eyrum hennar bárust tónar, fegurri en mannlegt eyra má heyra og var sem bylgjur himna fögru tóna bæru með sér blikandi litskrúð. Loftið var þrungið angan blóma og hreinleika óspilltrar náttúru. Svo sterk voru áhrifin af þessari óviðjafnanlegu fegurð, að hún minntist þess ekki, hvort hún hefði séð fólk á þessum stað, en samt fannst henni sem þarna hefði farið fram einhver helgiathöfn. Þegar hún kom aftur til sjálfrar sín, þar sem hún sat í brekkunni, flutti hún með sér þessa vísu:

       „Æðra ljós, sem lyftir sál

        lífið að mér rétti.

        Mig vermir eilíft andans bál

        undir Gálgakletti.“

Þarna sátum við og virtum fyrir okkur umhverfið fjær og nær. Regnskúrirnar í Esjunni færðust lengra í vesturátt, en Snæfellsnesið og jökullinn voru enn umvafin skærri birtu og bláma, og andstætt okkur litum við höfuðbólið Bessastaði.

„Sjáðu nú Signý mín, þarna á Bessastöðum fæddist hann pabbi þinn,“ sagði Unnur, „og þar var hún Unnur frænka þín heimasæta,“ bætti ég við. „Finnst þér ekki einkennilegt að horfa héðan heim að þeim stað, sem geymir svo margar minningar æskuáranna, þar sem þú þekkir hvern krók og kima inni og hverja þúfu úti fyrir?“ spurði ég Unni. „Jú víst er það einkennilegt, ég átti þar heima í 9 ár. Ég man það eins og það hefði skeð í gær, þegar ég kom að Bessastöðum.“

Náttúran og sólskinið var hið sama og á sólskinsdögum æskuáranna. Þegar Unnur var heimasæta á Bessastöðum. Það hlaut að vera hið ákjósanlegasta tækifæri til að fá að skoða í myndabók minninganna hjá henni.

Það bar margt á góma þennan dag, atburðir alda og ára, og eilífðarinnar, sem geymir allt í fórum sínum. Svo fáum við kannske einhverntíma seinna að skoða og skilja allt, sem okkur langar til. Þegar ég kom heim, fannst mér samt, að það mundi ekki skaða að rissa á blað til minnis frásögn Unnar þennan dag, og nú vill Melkorka skrá þessar minningar.

 

One comment

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *