Gott málþing um Búrfellshraun – Guðmundar Kjartanssonar jarðfræðings minnst.

Búrfell eins og það blasir við úr Selgjá, en handan þess sést Heiðin há, Stóri Bolli og Tvíbollar sem tilheyra Grindaskarðahnúkum.Það er ekki hægt að segja annað en málþingið um Búrfellshraun sem Hraunavinir stóðu fyrir ásamt Náttúrufræðistofnun Íslands og Hafnarfjarðarbæ og Garðabæ, hafi tekist mjög vel.

Það var haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunnar og gestir nálægt eitt hundrað.

Þingið var tileinkað minningu Guðmundar Kjartanssonar jarðfræðings en hann kortlagði og aldursgreindi Búrfellshraun á sínum tíma. Dóttir hans, Solveig minntist föður síns á málþinginu með sérlega hlýlegum hætti. Guðmundur bjó í Hafnarfirði og allan sinn starfstíma ferðaðist hann um á hjóli. Hann varaði mjög við röskun Búrfellshrauns, en Guðmundur lést árið 1972. Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur gerði svo grein fyrir starfsferli Guðmundar, sem kom víða við. Hann var m.a. frumkvöðull í gerð jarðfræðikorta af Íslandi. Síðan sagði Ragnheiður Traustadóttir frá fornminjum í Garðabæ, ekki síst í hraununum. Skráðar vörður eru næstum orðnar eitt hundrað talsins. Arinbjörn Vihjálmsson skipulagsstjóri gerði þessu næst grein fyrir friðunum lands á liðnum árum og næstu áformum í þeim efnum.

Búrfellshraun - málþing 003Reynir Ingibjartsson fór yfir samantekt Jónatans Garðarssonar um örnefni og þýðingu þeirra fyrir samhengið í sögunni. Þá las hann upp úr bók Stefáns Júlíussonar rithöfundar og skólamanns – Byggðin í hrauninu, en hann ólst upp á Mölunum í Hafnarfirði.

Loks fjallaði Sigmundur Einarsson jarðfræðingur um þær ógnir og rask sem hraun verða stöðugt fyrir. Þar er stundum um að ræða þá sem síst skyldi. Hann endaði á því að sýna mynd af nýja Suðurstrandarveginum, þar sem nýi vegurinn er lagður við hliðina á þeim gamla.

Málþinginu stjórnaði Ólafur G. Einarsson, fyrrverandi ráðherra og forseti Alþingis og naut hann sín vel í ræðustólnum.

Að málþingi loknu var haldið út á Bala, neðan og utan Hrafnistu þar sem bæjarstjórarnir; Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir í Hafnarfirði og Gunnar Einarsson í Garðabæ, innsigluðu samstarf bæjarfélagana um náttúruminjar  á mörkum bæjarfélaganna m.a. á Bala. Þar er að finna landamerkjavörðu sem er að hruni komin. Samstarfið var innsiglað með innilegu faðmlagi.

Hraunavinir geta verið stoltir af þessu málþingi.

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *