Hlöðnu húsin í Hraunum

Rétt vestan við Straumsvík var nokkuð þéttbýlt um aldir enda var búið á einum 12 smábýlum þegar mest var. Jarðirnar báru ekki mannmörg heimili en þar var engu að síður gott að búa á meðan fólk gat sinnt búskap og sjósókn jöfnum höndum. Fram undir þriðja áratug 20. aldar var byggðin í Hraunum nokkuð blómleg en þá fór fólki að fækka um leið og búskaparhættir breyttust og sjávarbyggðirnar á suðvestuhorni landsins sóttu í sig veðrið. Þeir sem settust að í Hraunum lögðu megin áherslu á sauðfjárbúskap og sjósókn enda var stutt á gjöful mið skammt undan landi. Sauðfé gekk úti árið um kring sem var nauðsynlegt þar sem túnskikar voru ekki margir eða umfangsmiklir. Helst var heyjað fyrir kýrnar á heimatúnum og grastóm í næsta nágrenni bæjarhúsana, en kúabúskapur byggði á því að hægt væri að mæta mjólkurþörf heimilismanna.  Hraunajarðirnar voru lengst af í eigu kirkju og síðan konungs eftir siðaskiptin. Ábúðaskipti voru ríð vegna þess að þegar illa áraði til sjósóknar þótti ekki vænlegt að búa á þessum vindasama stað og eyðilega stað við sjávarsíðuna. Leiguliðar stöldruðu þar af leiðand ekki við nema í nokkra áratugi þegar best lét. Þeir sem settust að á þessum slóðum gátu með dugnaði og útsjónarsemi komið undir sig fótunum, einkum þeir sem voru dugmiklir sjómenn. Þarna efnuðust bændur á því að gera út árabáta og leggja inn aflann í kaupstað og taka út varning í staðinn eða gera skipti við vel stæða bændur annarsstaðar á landinu.

Á þriðja áratug 19. aldar voru konungsjarðirnar í Hraunum og aðrar jarðir vítt og breitt um landið boðnar til sölu til að afla tekna fyrir ríkissjóð Dana. Þannig atvikaðist það að efnaðir bændur, kaupmenn og aðrir sem höfðu einhver fjárráð eignuðust Hraunajarðirnar. Sumir fluttu á staðinn en flestar jarðirnar voru áfram hjáleigur sem gengu kaupum og sölum um árabil. Meðal þeirra sem festu kaup á jörðum í Hraunum var Guðmundur Guðmundsson sem efnaðist er hann kvæntist vel stæðri ekkju í Hafnarfirði. Hann bjó um tíma á jörði sinni Lambhaga, en keypti einnig Þorbjarnarstaði og hálfa Óttarstaði. Guðmundur breytti Straumsseli í lögbýlisjörð en lést um miðjan aldur. Ekkja hans kvæntist aftur og Guðmundur Tjörvi sonur hans tók við búskap í Straumi þegar fram liðu stundir, af stjúpföður sínum. Sú saga verður ef til vill rakin nánar síðar.

Jón Hjörtsson átti alla Óttarstaða jörðina áður en hann seldi hálflenduna til Guðmundar Guðmundssonar. Jón efnaðist vel á útgerðar umsvifum sínum á meðan hann bjó á Óttarstöðum enda dugmikill sjósóknari. Rannveig dóttir hans tók við búinu þegar móðir hennar andaðist árið 1855, en faðir hennar lifði í nokkur ár til viðbótar. Steindór Sveinsson sonur Rannveigar varð eigandi hálfra Óttarstaða að afa sínum látnum og hafði þá um skeið verið einskonar bústjóri afa síns. Steindór var ókvæntur þegar Kristrún Sveinsdóttir frá Miðfelli í Þingvallasveit réðst sem vinnukona að Óttarstöðum. Kristrún var 7 árum yngri en Steindór og felldu þau hugi saman. Gengu þau í hjónaband 9. október 1860 og eignuðust soninn Svein Steindórsson sem varð seinna bóndi í Hvassahrauni. Sveinn var dugandi skipstjóri eins og faðir hans og afskaplega vel látinn. Steindór Sveinsson bóndi á Óttarstöðum fékk holdsveiki og var illa haldinn síðustu æviár sín. Hann lést af völdum holdsveikinnar 1870 en þá hafði Kristrún fyrir nokkru tekið við búskapnum og útgerð eiginmanns síns. Sá hún um að versla til heimilisins og annaðist alla aðdrætti. Hún var auk þess dugandi formaður og sótti sjóinn af atorku og heppni og var órög að leggja á djúpmið. Stjórnaði hún hásetum sínum af myndugleik og aflaði vel. Kristrún var óhrædd við að takast á við þau verkefni sem biðu hennar og hlóð Óttarstaða fjárborgina með bróður sínum Guðjóni Sveinssyni sem var vinnumaður hjá henni, á meðan Steindór eiginmaður hennar lá veikur heima. Það leið ekki nema ár eftir að Steindór andaðist að Kristrún giftist Kristjáni Jónssyni frá Skógarkoti í Þingvallasveit. Hann var 12 árum yngri en hún en það fór afskaplega vel á með þeim. Bjuggu þau saman á Óttarstöðum til ársins 1883 en fluttu þá að Hliðsnesi á Álftanesi og eignuðust þrjú börn.

Kristrún lést 13. desember 1903 og fékk þau eftirmæli að hún hefði verið gædd mikilli atgervi til sálar og líkama, verið kona tígurleg yfirlitum og mjög einarðleg, hreinlunduð, trygg og staðföst.  Hún var ráðdeildarsöm, ástrík og umhyggjusöm móðir og eiginkona. Síðustu æviárin var heilsu hennar farið að hnigna og fékk hún slag að kvöldi 4. desember 1903 og lá síðan í dái þar til hún lést. Var hún jarðsett að Görðum 22. desember við hlið fyrri eiginmanns síns og nokkurra barnabarna. Kristján gat ekki á heilum sér tekið eftir að Kristrún andaðist. Hann flutti nokkru eftir andlát hennar frá Hliðsnesi til Hafnarfjarðar og fór að versla þar. Heppnaðist það miðlungi vel gengu efni hans til þurrðar. Seldi hann verslun sína sumarið 1906 og bakaði féþurðurinn honum þungum áhyggjum. Var hann ekki með sjálfu sér eftir það og gekk í sjóinn 2. september 1906 milli Hafnarfjarðar og Garðahverfis og réð sér bana. Var hann tæpra 62 ára þegar þessi atburður átti sér stað. Svo aðgrunnt var á þessum slóðum að líkið var ekki alveg á kafi er það fannst. Var þessi atburður afar sorglegur og orti Friðrik Friðriksson eftirfarandi: Ljúfur með líkn og dáð; lengi var sveitarstoð, grandvar með góðri lund, gætinn í orði’ og hug.

Guðmundur Jónsson og Ragnheiður Hannesdóttir keyptu jörðina af Kristrúnu og Kristjáni árið 1883 og tóku synir hennar, Guðjón og Sigurður Kristinn Sigurðsson, við búskapnum eftir þeirra dag. Guðmundur hafði ekki búið lengi á Óttarstöðum þegar hann seldi hálfa jörðina árið 1885. Kaupandinn var Friðfinnur Friðriksson skipstjóri sem átti þilskipið Lilju á móti Þorsteini Egilsen kaupmanni í Hafnarfirði. Friðfinnur hafði ekki neinn áhuga á að búa í gamla bænum, heldur keypti tvílyft timburhús sem stóð í landi Austurkots á Vatnsleysuströnd, tók það niður og flutti sjóleiðina að Óttarstöðum. Þetta hús byggði Ari Egilsson árið 1883 úr gæðatimbri sem rak á land í Höfnum eftir að barkurinn Jamestown strandaði þar. Ari og eiginkona hans fluttu til Vesturheims og þar með var húsið falt til kaups. Þetta merkilega hús stendur ennþá á eystri Óttarstöðum en er því miður afskaplega illa farið enda ekkert verið hirt um það áratugum saman.      

Guðjón Sveinsson bróðir Kristrúnar á Óttarstöðum var listagóður hleðslumaður og má sjá handbragð hans víða í Hraunabyggðinni. Óttarstaða fjárborgin er jafnan nefnd eftir Kristrúnu Sveinsdóttur sem lagði drjúga hönd á gerð hennar, en Guðjóns er sjaldnar getið. Hann bar ábyrgð á því að hlaðin vorum myndarlegir eldaskálar úr hraungrjóti í Litla-Lambhaga sem og á Óttarstöðum vestri og eystri. Standa veggir þessara skála ennþá og sýna svo ekki verður um villst hversu góður verkmaður Guðjón var.  Hann hlóð aukheldur upp gömlu bæjarveggina á báðum bæjunum, en eystri bænum var breytt í hesthús eftir að timburhúsið var flutt þangað árið 1885. Óttarstaðahúsið er eitt það merkilegasta á landinu og það sama gildir um steinhlöðnu tóftirnar sem enn standa þrátt fyrir að þekjurnar hafi fyrir löngu fúnað og orðið veðrinu að bráð. Minjarnar bíða þess sem koma skal og ef hugmyndir um að breyta Óttarstaðalandi í geymslusvæði fyrir hafskip verða að veruleika tapast að eilífu stórmerkilegar minjar sem sýna hvernig umhorfs var á suðvesturhorni landsins áður en svokallaður nútími hóf innreið sína.  

Jónatan Garðarsson

2 Comments

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *