Hrafnslaupur í Vestri-Gálga

Hrafnar eru áhugaverðir fuglar. Þeir eru stærstir allra spörfugla og kunna þá list að útbúa hreiður sín, eða laupa eins og hreiðursmíð þeirra heitir, úr allskonar efnivið. Þeir eru oft snjallir í að staðsetja laupana á syllum, í skútum eða jafnvel í mannvirkjum þar sem ómögulegt er að ná til þeirra þó þeir séu oft býsna áberandi. Draslaragangurinn einkennir laupa hrafna og það er oftar en ekki áhugvavert að skoða hverskonar efnivið þeir nota í smíðina. Hrafnar eru glysgjarnir og þeir kunna að nota nánast hvað sem er til að setja saman nothæfa laupa. Meðal þess sem þeir safna saman má nefna spýtnarusl, greinar, víraflækjur, dýrabeinum, plast, gúmmí og hverskonar byggingaúrgang sem þeir komast yfir. Þegar búið er að koma laupnum saman þarf að fóðra hann og það gera þeir með ull, mosa eða fjöðrum svo að ekki væsir um ungana sem koma í heiminn á undan flestum öðrum fuglum. Varptíminn er gjarnan frá miðjum apríl fram í miðjan maí en þegar vor eru óvenjugóð eins og nú hefur verið verpa þeir nokkrum dögum eða jafnvel vikum fyrr. Þannig var því einmitt farið í ár og eru hrafnsungar víða komnir á kreik nú þegar og búnir að yfirgefa laupana eins og reyndir er í Gálgahrauni.

Nokkur undanfarin ár hefur hrafnapar orpið í Litla Gálga, sem er skammt vestan við Gálgakletta. Þetta árið ber svo við að parið hefur rutt laupnum í Litla-Gálga niður og útbúið nýjan í Vestur-Gálga, sem er hluti af sjálfum Gálgakelttum. Hrafnarnir urðu fyrir talsverðu ónæði á síðasta ári því það voru margir sem vissu af staðsetningunni í Litla-Gálga. Margsinnis kom fyrir að fólk gerði sér far um að reyna að komast í tæri við ungana í Litla-Gálga með því að klifra upp í klettinn og freista þess að sjá ofan í laupinn. Foreldrarnir voru afar ósáttir við þetta ónæði og létu jafnan ófriðlega þegar komið var of nærri laupnum. Hrafnarnir hafa greinilega ákveðið að nóg væri komið af þessari afskiptasemi mannfólksins og fundu sér nýjan stað fyrir laupinn sinn. Þeir fóru ekki mjög langt frá sínum fyrri stað því það eru ekki nema svona 100 metrar á milli Litla-Gálga og Vestri-Gálga.   

Laupurinn er mjög sýnilegar í margra metra fjarlægð enda hefur efniviður út laupnum svo sem sprek og annað hrunið úr honum. Það er því hægt að greina laupinn og draslið neðan hans langt að, sérstaklega þegar komið er úr vestri að Gálgaklettum. Þeir sem þekkja klettana í sjón verða þess strax áskynja að það er eitthvað óvenjulegt að sjá í Vestur-Gálga.

Meðfylgjandi myndir voru teknar 1. maí en þá voru hrafnsungarnir flognir úr hreiðrinu, nema það hafi verið steypt undan hrafninum sem er alveg hugsanlegt. Núna er Gálgahraun og nánasta umhverfi Gálgakletta griðarstaður máfa sem hafa yfirtekið hraunið. Þrátt fyrir máfagerið má líka sjá þarna Grágæsa- og Tjaldapör, ásamt spörfuglum sem láta lítið fyrir sér fara. Æðafuglinn er aðeins farinn að láta á sér kræla en mikið er af Margæs á Lambhúsatjörn og fleiri fuglategundum sem hafa skamma viðdvöl á leið sinni til fjarlægra staða.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *