Hraunavinir funda með bæjarráðum Garðabæjar og Álftaness um Álftanesveg

Þann 18. desember voru fulltrúar Hraunavina boðaðir á fund með bæjarráðum Garðabæjar og Álftaness um nýjan Álftanesveg og verndun Gálgahrauns. Á fundinn mættu þeir: Eiður S. Guðnason, Gunnsteinn Ólafsson, Ingvar Arnarsson og Reynir Ingibjartsson úr stjórn Hraunavina, auk þeirra Lovísu Ásbjörnsdóttur og Sigmundar Einarssonar sem starfa hjá Náttúrufræðistofnun Íslands í Garðabæ.

Hraunavinir kynntu ályktun sem samþykkt var á borgarafundinum 29. nóvember sl., þar sem eindregið var hvatt til þess að fyrirhuguðum framkvæmdum við nýjan Álftanesveg yrði frestað og leitað nýrra lausna. Þá var í tillögunni lögð áhersla á gerð nýs heildarskipulags fyrir hið sameinaða sveitarfélag, þar sem nútímaleg náttúruverndarsjónarmið væru höfð að leiðarljósi.

Þá var kynnt hugmynd Hraunavina og Náttúrufræðistofnunnar um sérstakt málþing um Búrfellshraun og sem tileinkað væri minningu Guðmundar Kjartanssonar jarðfræðings, sem lést fyrir 40 árum. Hans síðasta verkefni var að aldursgreina Búrfellshraun og fjalla um hraunið í heild sinni í merkri grein í Náttúrufræðingnum árið 1972. Guðmundur varaði þar mjög við byggingu mannvirkja í hrauninu.

Ekki var að heyra annað en bæjarráðsmenn úr Garðabæ og af Álfltanesi hlustuðu með athygli á málflutning Hraunavina og vonandi hyllir fljótlega undir farsæla lausn í þessu átakamáli, þar sem komið er að þolmörkum þess hversu langt á að ganga í eyðingu hrauna undir hin ýmsu mannvirki.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *