Hraunstífluð vötn og tjarnir

HrauntjörnHraunstífluð vötn og tjarnir eru merkileg náttúrufyrirbæri sem finnast ekki á mörgum stöðum á Íslandi. Stærsta hraunstíflaða vatnið á Reykjanesskaga er Kleifarvatn en þrjú hraunstífluð vötn er að finna innan þess svæðis sem félagsskapurinn Hraunavinir leggur mesta rækt við; Ástjörn, Urriðakotsvatn og Hvaleyrarvatn. Þessi þrjú vötn hafa myndast í dalkvosum þegar hraunstraumar runnu þvert fyrir eða yfir dali og girtu fyrir læki og aðrar vatnsuppsprettur.

Hrauntjarnir

Fjöldi smátjarna má finna nærri strandlengjunni í hraununum í hinum forna Álftaneshreppi. Þær eru flestar í lægðum og hraungjótum nærri sjó þar sem ferskt grunnvatn myndar tjarnirnar, sem eru sumar hverjar nokkuð stórar. Flestar eru þeirrar náttúru að vatnsyfirborðið fylgir sjávarföllum og rís vatnið eða hnígur u.þ.b. tveimur stundum eftir að flóð nær hámarki eða fjarað hefur út að fullu. Jarðsjór sem er undir gljúpum strandhraununum veldur því að áhrifa sjávarfalla gætir og eiga tjarnirnar til að verða ísaltar þegar vatnsstaðan er einna hæst. Á meðan vatnsyfirborðið er að rísa er vatnið ágætlega ferskt og þótti áður fyrr vel nothæft sem drykkjarvatn. Þeir sem bjuggu í kotum, þurrabúðum og smábýlum víðsvegar með ströndinni þurftu að treysta á vatnið í fjörutjörnum og hrauntjörnum til drykkjar og brynningar fyrir skepnurnar. Þessar tjarnir voru því gjarnan nefndar brunntjarnir eða báru nöfn kotanna sem stóðu næst þeim t.d. Gerðistjörn, Þorbjarnastaðatjörn, Balatjörn o.s.frv. Þegar vatnsveitu urðu algengar á fyrstu áratugum 20. aldar hætti fólk að sækja vatn í tjarnir og brunna og smám saman gleymdust nöfn margra þeirra.  

Hraunstífluð vötn

Urriðakotsvatn hefur myndast snemma því hraunraninn sem lokaði dalkvosinni tilheyrir Búrfellshrauni sem rann fyrir u.þ.b. 7.000 árum. Það er í kvos sem myndast af Fjárhúsholti eða Setbergsholti að vestanverðu, Hádegisholti eða Fjóðahjalla að sunnan og Urriðaholti að austan. UrriðakotsvatnAð norðan hefur tunga úr Svínahrauni (Búrfellshrauni) stíflað vatnið þegar hraunið rann inn í dalinn. Þar nefnist stærsti hlutinn Hrauntangi en hraunið er einnig nefnt Urriðakotshraun. Vatnsforða sinn fær Urriðakotsvatn að úr mýrarvatni úr Vesturmýri, Dýjamýri og Þurramýri ásamt grunnvatni. Það er mjög lífríkt enda ágætis viðkomustaður farfugla. Þar hafa verið taldar rúmlega 20 fuglategundir, mestmegnis andfulgar. Frá Urriðakotsvatni rennur Stórakrókslækur sem nefnist einnig Kaplakrikalækur og sameinast Lækjarbotnalæk. Saman mynda þeir Hamarskotslæk sem rennur í sjó fram í Hafnarfirði. Stórakrókslækur er fiskgengur að hluta en stokkur skammt frá útfallinu úr vatninu gerir það að verkum að seiðin þurfa að ná að minnsta kosti 15 sm stærð til að ganga upp í vatnið, þó hann sé með þrepum. Urriðastofninn er nokkuð stór miðað við stærð vatnsins og nær háum aldri enda veiði lítið stunduð þar. Urriðinn var mikil búbót á meðan búið var í Urriðakoti.

HvaleyrarvatnHvaleyrarvatn er í dalkvos sem er umvafin grágrýtishryggjum á þrjá vegu. Vatnshlíð er við norðvestanvert vatnið, Beitarhúsaháls og Húshöfði að norðaustanverðu, en Kjóadalsháls og Selhöfði að austan og sunnan. Fyrir vestan vatnið er Selhraun, sem er hluti Hellnahrauns eldra. Það rann fyrir um 2000 árum og kom líkast til frá gígum við Stóra Bolla. Þegar hraunið lokaði dalnum myndaðist Hvaleyrarvatn í þessari kvos þegar grunn- og regnvatn safnaðist þar fyrir. Vorlækir eiga það til að myndast í Vatnshlíð en annars er ekkert aðrennsli fyrir utan vatnsleiðsluna sem þangað var lögð til að að viðhalda vatnshæðinni. Hvaleyrarvatn er fremur snautt þó þar hefur silungi verið sleppt öðru hvoru sem fólki gefst kostur á að veiða, aðallega börnum og unglingum sem og öldruðum og öryrkjum, þó veiðimenn í fullum skrúða sjáist stundum við æfingar þarna, einkum á vorin.

DSC04003Ástjörn er vogskorin uppistöðutjörn sem myndaðist í kvosinni vestan undir Ásfjalli þegar Hellnahraun yngra rann fyrir um 1000 árum. Hún er umlukin ásum og fellum m.a. Ásleiti að norðan, Ásfjalli að austan og Grísanesi að sunnan. Vestan tjarnarinnar er tunga úr Hellnahrauni og milli hrauns og Ósaness eru gömul flæðiengi sem nefndust Ósar en voru líka nefnd Krókar og Vellir. Mýrarvatn úr Ásmýri, smálækir sem koma úr uppsprettulindum ásamt grunn- og regnvatni mynda vatnsforða Ástjarnar, sem er mjög háð veðurfari og hitastigi sérstaklega á sumrin þegar hún þornar upp á köflum og skreppur saman. Lífríkið er fjölbreytilegt og er Ástjörn viðkomustaður margra fuglategunda því fæðuframboðið er ágætt. Sést hafa 44 tegundir fugla við tjörnina og ber talsvert á andfuglum en mesta athygli hefur flórgoðinn jafnan vakið. Ástjörn er að líkindum síðasti varpstaður flórgoðans á suðvestanverðu landinu. Ástjörn og nánasta umhverfi njóta friðlýsingar vegna fjölskrúðugs fuglalífs og lífríkis. Fólkvangurinn Ásfjall og umhverfi Ástjarnar var opnaður 10. maí 1997 og um svipað leyti kom út fróðlegur bæklingur um Ástjörn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *