Hrútagjá og samnefnd dyngja

Hraunflæmið frá Straumsvík að Vatnsleysuvík að norðan og suður að Sveifluhálsi er að mestu komið frá dyngju sem er í um það bil tveggja kílómetra fjarlægð vestur af Vatnsskarði. Dyngjan er nefnd eftir mikilli gjá sem liggur umhverfis hana en norðvestasti hluti hennar heitir Hrútagjá og dyngjan þar af leiðandi Hrútagjárdyngja. Nafnið er frá þeim tíma þegar bændur á Hraunabæjunum héldu hrúta sína í gjánni allt fram undir jólaföstuna og smalar gættu þeirra sem og sauða sem voru í nærliggjandi Sauðahelli í Sveifluhálsi. Annar hluti gjárinnar sem er suðaustan við dyngjuna heitir Grænklofi og þar skammt frá er bílastæði við Djúpavatnsveg þar sem kjörið er að leggja áður en gígsvæðið er skoðað.

Sennilega hefur Hrútagjárdyngjuhraunið náð alveg norður undir Hvaleyrarholt þegar það rann á sínum tíma og vestur fyrir Afstapahraun, sem er töluvert yngra hraun. Reyndar er það svo að fjöldi yngri hrauna þekja jaðra Hrútagjárdyngjuhraunsins og hafa einnig komið upp hér, t.d. Draughólshraun og hraunfláka nærri Sauðabrekkum þar sem finna má merkilega gígaröð á gossprungurein.

Meginhluti þessa mikla hraunmassa nefnist Almenningur og tilheyrði í eina tíð Hraunabæjunum sem voru meðfram strandlengjunni milli Straumsvíkur og Vatnsleysuvíkur. Almenningu var beitiland þessara jarða og þar áttu þær skógarítak og sóttu sér eldivið um margra alda skeið. Samkvæmt því sem næst verður komist máttu flestir íbúar Álftaneshrepps hins forna sækja sér hrís í Almenningsskóga á meðan jarðirnar tilheyrðu kaþólsku kirkjunni og seinna Danakonungi. Þessar jarðir voru seldar um og eftir 1830 og þar með féll almannarétturinn til þeirra sem eignuðust jarðirnar, eða svo töldu þeir sem keyptu jarðirnar af ríkisvaldinu. Almenningsnafnið hélst samt sem áður áfram og vísar til þess tíma þegar svo til hver sem var gat nýtt hlunnindin. Bændur og búalið sótti sér skógarvið til húsbygginga á meðan skógurinn gaf eitthvað af sér en eftir að kólna fór verulega á landinu um og eftir 1600 gekk hratt á stærstu trén. Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín unnu Jarðabókartal sitt árið 1703 var mjög farið að sneiðast um skógarvið og hrísrif orðið býsna erfitt í Almenningi enda kvörtuð bændur mjög undan kröfum hirðstjóra konungs á Bessastöðum um skil á stórviði og hrísknippum til yfirvaldsins.

Skammt sunnan við Reykjanesbraut voru allmyndarlegir gervigígar og rauðamelshólar sem hafa myndast þegar hraunið rann yfir sjávarset. Þeir eru flestir horfnir enda voru þeir notaðir í vegagerð, holstein og steypu um og eftir miðja 20. öld. Mestu ummerkin eftir þessa efnistöku eru í Rauðamelsnámunni sem er ristastórt gímald þar sem safnast hefur fyrir allrahanda drasl undanfarin ár, en Hraunavinir unnu að hreinsun svæðisins í september síðastliðnum.

Jarðfræðingar hafa samkvæmt gjóskurannsóknum reiknað það út að Hrútagjárdyngjan sjálf sé um 6000 til 6500 ára gömul og hraunflákinn sem kom frá dyngjunni er víðáttumikill. Landið er víða fallega vaxið víði og birkikjarri, talsvert er um lágvaxnar einiplöntur, lynggróður og annar blómgróður er gróskumikill í elstu hlutum hraunsins. Inn á milli eru miklar breiður af þykkum grámosa sem gefa til kynna að þar hafa yngri hraunlög runnið og hulið Hrútagjárdyngjuhraun á stórum köflum.  Næst Hrútagjárdyngjunni eru sprungubelti og hellakerfi í hraunrásum sem áhugvert er að kanna, en mikilvægt er að fara með gát, sérstaklega að vetrarlagi þegar snjór liggur yfir sprungum og niðurföllum sem leynast víða í hrauninu.

Gígur Hrútagjárdyngju er skammt frá Djúpavatnsvegi undir Sveifluhálsi og full ástæða til að gera sér ferð til að líta á hann. Gígurinn er óreglulegur að lögum og gígbarmarnir allt að 10 til 14 metra háir. Hann er opinn til suðurs og þar hefur hraunið fyrst og fremst runnið fram og síðan leitað til norðurs og vesturs undan hallanum í átt til sjávar. Sprungan umhverfis gígsvæðið er á köflum ágætlega greiðfær en annarsstaðar er hún þröng og erfiðara að fara um hana. Opið á sjálfri Hrútagjánni blasir við frá Hafnarfirði og virkar í fjarska eins og stórt hlið í hraunbrúninni. 

Þar sem Djúpavatnsleið er yfirleitt lokuð yfir vetrartímann er skynsamlegt að leggja bílnum við vörðuna við Krýsuvíkurveg á móts við Vatnskarðsnámuna. Mælt er með að ganga síðan meðfram veginum stuttan spöl til baka þangað til komið er að gömlum námuslóða en þar eru gular tréstikur með blámerktum topp en þær vísa ferðalöngum sem ganga Reykjaveginn leiðina. Hægt er að fylgja þessum stikum þar sem þær liggja á milli Sandfells og Fjallsins eina allt þar til komið er að Hrútagjánni, en þær liggja framhjá gjáropinu um það bil þar sem fer að sjá til Keilis og Trölladyngju. Þar er sveigt út af Reykjavegi og haldið inn eftir Hrútagjánni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *