Íslensk ónáttúra

Ákveðið hefur verið að falla frá öllum málarekstri vegna vegalagningar í Gálgahrauni. Vegagerðin hóf með lögregluvaldi óafturkræf spjöll á hrauninu eftir að dómsmál þar sem tekist var á um lögmæti framkvæmdanna var höfðað og hefur haldið þeim áfram síðan.  Óbætanlegt tjón er orðið staðreynd.

Íslensk ónáttúraSB14   Hæstiréttur hefur tvívegis hafnað því að aflað verði ráðgefandi álits hjá EFTA-dómstólnum um innleiðingu og túlkun á EES-skuldbindingum. Samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar eru lög um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála  frá  2011 fullnægjandi innleiðing á þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Ísland hefur undirgengist í umhverfismálum, en þær byggja m.a. á   Árósasáttmálanum svokallaða.  Rétturinn hefur áður af smæstu tilefnum óskað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins ef talið hefur verið að það kunni að hafa einhverja þýðingu fyrir niðurstöðu viðkomandi dómsmáls.

Aðgangur náttúruverndarsamtaka á Íslandi að dómstólum er léttvægur fundinn.  Af dómum Hæstaréttar í málum Hraunavina verður ráðið að umhverfisverndarsamtök hafi ekki lögvarða hagsmuni í réttarágreiningi fyrir dómstólum þegar atvik eru þannig að farið er í framkvæmdir þrátt fyrir að öll leyfi og möt séu útrunnin.  Engu virðist skipta þó öll helstu náttúruverndarsamtök landsins standi að baki málarekstrinum. Engin ástæða þótti til að spyrja EFTA-dómstólinn hvort það fái staðist að hægt sé að bera ágreining um útgáfu umhverfismats og framkvæmdaleyfa undir úrskurðaraðila en lögvörðu hagsmunirnir séu engir þegar sömu leyfi eru útrunnin.

Samtökin telja slíka niðurstöðu algerlega fráleita, enda er hún í fullkominni andstöðu við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og Evrópuréttinn að öðru leyti.  Í  tilvitnuðum réttarheimildum er það aðgerðarleysi stjórnvalda sem birtist í því  að afla ekki nýrra mata og leyfa þegar þau eru útrunnin, lagt að jöfnu við beinar aðgerðir. Samtökin harma þessa niðurstöðu Hæstaréttar sem þýðir að ekki er gerlegt að fá um það dómsúrlausn hér á landi hvort hin umdeilda og ónauðsynlega vegaframkvæmd þvert yfir hraun á náttúruminjaskrá sé lögmæt.

Þessi niðurstaða hlýtur á hinn bóginn að kæta stórhuga vegagerðarmenn  þar sem nú er búið að opna fyrir það að hægt sé að hefja umdeildar framkvæmdir þrátt fyrir útrunnin umhverfismöt og framkvæmdaleyfi og án nokkurrar aðkomu hvimleiðs náttúruverndarskríls. Slík niðurstaða felur náttúrulega bara í sér fáránleikann og verður ekki við það unað.  Athyglisvert er að þessi rótgróna andúð opinberra aðila á náttúruverndarsinnum virðist ekkert hafa gefið eftir þó þjóðin lifi nú meira á því að selja ímynd óspilltrar náttúru heldur en á sjávarfangi.

Náttúruverndarsamtökin hafa sent Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), formlega kvörtun. Kvörtunin snýr að því að Ísland hafi gerst brotlegt við EES-samninginn með því að taka ekki upp í íslensk lög ákvæði í tilskipunum sem snúa að möguleikum umhverfisverndarsamtaka til að leita réttar síns. Fyrir vikið er þeim meinaður aðgangur að íslenskum dómstólum. Sú réttarbót sem átti að verða með lögunum um úrskurðarnefndina frá árinu 2011 snérist því upp í andhverfu sína. Það verður ekki  við það unað að umhverfisverndarsamtökum á Íslandi verði áfram haldið fyrir utan dómstóla. Það er löngu kominn tími á að viðhorfi stjórnvalda og dómstóla verði breytt í átt að því sem gildir hjá siðuðum þjóðum.  Dómstólar landsins verða að fá aðstoð við að skilja það að náttúruverndarsamtök á Íslandi eiga ekki að vera í nálgunarbanni á Lækjartorgi og Arnarhól.

Skúli Bjarnason, hrl., áður birt í Mbl. 4. apríl 2014

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *