Jónsmessuferðin í Gálgahrauni

Það voru 23 gönguglaðir einstaklingar sem nýttu sér boð Hraunavina um að ganga um Gálgahraun að kvöldi 23. júní, að lokinni Jónsmessuhátíð sem fram fór við Strandstíginn í Garðabæ. Meðal þeirra sem tóku þátt í göngunni voru Ögmundur Jónasson samgönguráðherra og eiginkona hans. Göngumenn voru jafnmargir og dagarnir 23 sem liðnir voru af júnímánuði þegar gangan var farin, sem var hrein tilviljun en mjög vel við hæfi.

Gengið var frá bílastæðinu við Hraunvik, sem er á mótum Sjálands- og Ásahverfa, en þar hefst eystri hluti Fógetagötu. Gengið var með ströndinni og fyrst farið út á Eskins, en síðan farið um Vatnagarða að Gálgaklettum. Þar sem um hringleið var að ræða var síðan haldið eftir Gálgaklettaleið að Stóra-Skyggni og þar var Fógetagötu fylgt til baka að Hraunviki.

Stundin við Gálgakletta var einstök þegar sólin var að setjast í hafflötinn í vestri og skuggar göngufólksins spegluðust í klettunum á kyngimagnaðan hátt líkt og þar væru á ferð verur úr öðrum heimi. Þessir mögnuðu og dularfullu hraunklettar og skuggamyndirnar sem léku um þá brugðu ljósi á fyrri tíma þar sem göngufólkið stóð saman á Gálgaflötinni og hlustaði á Reyni Ingibjartsson rifja upp sitthvað frá liðinni tíð og ræða um gildi Gálgahrauns og ósnortinnar strandlengjunnar. Stundin var notuð til myndatöku enda tækifærið einstakt svo ekki sé meira sagt.

Eftir dágóða áningu við Gálgakletta var gengið í suður eftir troðningum sem liggja í áttina að miðri Fógetagötu og henni fylgt í áttina að upphafsreit. Þegar göngu lauk rétt fyrir miðnætti við Hraunvik, var allur himininn sem eitt roðahaf og var stundin ógleymamleg fyrir þá sem upplifðu þetta birtuspil þegar sólargangur var einna lengstur.

Gunnsteinn  Ólafsson ármaður Hraunavina á Álftanesi fór síðan með þá göngubröttustu að Kjarvalsklettum á eftir til að líta á staðinn þar sem meistari Jóhannes Sveinsson Kjarval dvaldi margsinnis og málaði óvenju fjölbreytt málverk af sömu klettaþyrpingunni á seinni hluta listamannsferils síns. 

Meðfylgjandi ljósmyndir tók Hraunavinurinn Auður Hallgrímsdóttir og sendi umsjónarmanni síðunnar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *