Kershellir við Sléttuhlíðarhorn

Kershellir er rétt norðan við Sléttuhlíðarhorn í jarðfalli sem er stutt frá hinni fornu þjóðleið Selvogsgötu, eða Selvogsvegi eins og leiðin var kölluð í upphafi 20. aldar. Hellirinn er í hrauntröð frá þeim tíma er gaus í Búrfells eldstöðinni fyrir um 7000 árum. Þak hrauntraðarinnar hefur hrunið á nokkrum stöðum og opnað leið inn í hellakerfi sem auðvelt er að skoða. Austast er Kershellir og norður af honum er Hvatshellir, en það er ekki auðvelt að komast að honum. Nokkrum tugum metrum neðar, þar sem hraunrausin er fallin saman að hluta, er skjólsæll slakki og niður af honum er Selhellir. Hann er opinn í báða enda og nefnist syðri hlutinn Selhellir en nyrðri hlutinn var nefndur Kethellir í Jarðarbók Árna Magnússonar og Bjarna Vídalín. Hleðsla í miðjum hellinum náði áður fyrr upp í loft, en er núna fallin að stórum hluta. Neðstur og nyrstur er svonefndur Sauðahellir, sem var notaður um tíma fyrir sauðfé, en þótti ekki alveg nógu góður til slíkra nota. Skammt frá honum er vallgróinn stekkur og austan hans er nátthaginn í jarðfalli. Þessir hellar voru í eina tíð nefndir einu nafni Kershellar, en einnig sundurgreindir með mismunandi nöfnum eftir því hverskonar not voru höfð af þeim í gegnum tíðina.

Hellarnir voru hluti af búskaparsamfélaginu um aldir og m.a. nýttir sem fjárskjól og áningastaðir ferðalanga sem áttu leið um Selvogsgötuna. Selhellirinn, sem er á landamerkjum Setbergs og Garðakirkjulands, var eins og nafnið gefur til kynna hluti af seljum Setbergs og Hamarskots um aldir. Enginn veit nákvæmlega hvernig Kershellir var notaður en ekki er ólíklegt að hann hafi verið einhverskonar mannabústaður í skamman tíma þó líklegra sé að hann hafi nýst sem geymsluhellir. Í honum er hlaðinn garður sem myndar hálfboga en það er með öllu óljóst til hvers þessi grjótveggur var gerður á sínum tíma.

Hvatspiltar vekja athygli á hellunum

Sumarið 1906 komu fjórir ungir piltar úr Reykjavík suður að Sléttuhlíðarhorni eftir þriggja tíma göngu og glöddust mjög þegar þeir fundu helli í jarðfalli, sem reyndist ágætlega stór. Þetta voru Sigurjón Þorkelsson, seinna kaupmaður í versluninni Vísi, Helgi Jónasson frá Brennu og Matthías Þorsteinsson, en þeir unnu allir saman í Edinborgarverslun. Fjórði pilturinn var Skafti Davíðsson trésmiður. Þeir höfðu stofnað fótgöngufélagið Hvat, en nafnið gaf til kynna að þeir einsettu sér að ganga hvatlega og skoða sitt nánasta umhverfi um helgar þegar þeir áttu frí frá vinnu. Þeir höfðu áður skunað á Þingvöll og skoðað þar hella í hrauninu og töldu sig hafa fundið nýjan og áður óþekktan helli við Selvogsveginn og létu þá fregn berast um bæinn. Þann 1. júlí 1906 birtist stutt grein í Æskunni þar sem sagt var frá því að Hvatsfélagar hefðu fundið stóran helli suður af Hafnarfirði einn sunnudag er þeir voru þar á göngu fyrr um sumarið. Hvatspiltar fóru aftur suður í Sléttuhlíð sunnudaginn 2. september með ljós og mælivað til að mæla og rannsaka hellinn gaumgæfilega. Komust þeir að því að út frá honum voru afhellar mismunandi stórir. 

Þessi fundur hleypti mörgum kappi í kinn og héldu ýmsir áhugamenn um hella af stað til að rannsaka þetta fyrirbæri. Hvatsfélagareignuðu sér hellinn og  máluðu meira að segja nafn hellisins með bronsmálningu á einn hraunvegginn í stóra afhellinum. Meðal þeirra sem slógust í för með Hvatspiltum var séra Friðrik Friðriksson, upphafsmaður Kristilegs félags ungra manna í Reykjavík. Ritaði hann tvær greinar um hellinn og birtist önnur þeirra í Fjallkonunni  7. september 1906. Þar lýsti Friðrik hellinum og byggði á frásögn piltanna:

Skrif séra Friðriks Friðrikssonar

„Hann er 152 fet á lengd, 40 fet á breidd, þar sem hún er mest, og á að giska 6-7 álnir á hæð, þar sem hæst er, allsstaðar má ganga uppréttur. Grjótgarður er hlaðinn 59 fet inn af munnanum, sá garður liggur þvert yfir hellinn og á parti í boga fyrir munna á afhelli nokkru vinstra megin; er hann eins og bás, höggvinn út í bergið, og er 27 fet að lengd og 1 ½ alin á hæð, þar sem hann er hæstur. Ekki var unnt að sjá, að fé hefði verið geymt þar inni.

Hinir ungu menn könnuðu nú vandlega hellisveggina, og urðu þeir þá varir við smugu mjóa, er lá inn í vegginn hægramegin, nálægt hellismunnanum. Er þeir lýstu inn í hana, þótti þeim sem rúm mundi vera þar fyrir innan og skriðu því inn gegnum glufuna og komu þá inn í lítinn afhelli, vel mannhæðar háan, og var heldur stórgrýtt gólfið. Inn úr honum lá svo önnur glufa, er skríða þurfti í gegn á fjórum fótum. Fyrir innan hana varð fyrir þeim hellir, nær kringlóttur að lögun eða sporöskjulagaður. Hann er 10 fet á hæð þar sem mest er, og breiddin 20 fet, en lengdin nokkru meiri. Eftir gólfinu er hraunbálkur all mikill og lægðir báðu megin.

Hægra megin varð enn fyrir þeim lítil glufa niður við gólfið, og fóru tveir þar inn og fundu þá, að þeir voru komnir í stóran helli og langan, en eigi gátu þeir vel glöggvað sig á honum, því ljósfæri þeirra brást. Leituðu þeir nú síðan til útgöngu og þótti þeim skemmtiferð sín góð orðin.“

Séra Friðrik rannsakaði hellinn sjálfur

Séra Friðrik fór ásamt Hvatspiltum suður að Sléttuhlíðarhorni til að kanna innsta hellinn nokkru seinna . Höfðu þeir meðferðis ljósker ásamt stuttum og digrum 8 aura kertum frá Zimsen. Þeir voru ennfremur með mælivað og 60 faðma snæri. Mældu þeir innsta hellinn sem reyndist vera 61 fet á lengd  og allur nokkuð jafnbreiður 8-10 fet. Síðan kemur lýsing séra Friðriks:

„Hæðin var um 4 fet minnst og liðugt 5 fet mest. Innst inni er hann íhvolfur og er hvelfing yfir honum öllum, skreytt dropasteins útflúri. Hellirinn er ekki ósvipaður hvelfdum gangi í kjallarakirkju, gólfið er slétt og fast og lítð sem ekkert þar lausagrjót inni. Svo er hann fallegur, að erfiðleikarnir við inngönguna í gegnum 3 glufurnar og stórgrýtið í framhellunum gleymist þegar inn er komið. Lengd alls hellisins frá botni þess innsta og aftast í þann fremsta er rétt að segja 300 fet. Í innri hellunum eru engin merki þess að menn hafi þar fyrr inn komið.

Við vorum hálfan annan tíma að skoða hellana og var sá tími helst of stuttur til þess að geta séð allt til hlítar. Hellinn kallaði ég Hvatshelli eftir félaginu,  er fann hann, og þykir mér félagið eiga þá sæmd skilið fyrir göngudugnað sinn og eftirtekt.

Séra Friðrik nefndi innsta afhellinn Hvatshelli, þann sem honum fannst líkjast kjallarakirkju, enda segir munnmælasaga að hann hafi stundum haldið látlausa helgistund í hellinum næstu árin. Allavega fór það svo að ungu mennirnir sem töldu sig hafa fundið afhellana máluðu nafnið Hvatshellir í innstu hvelfingunni. Vel má vera að þeir hafi fyrstir manna komið inn í þessa afhella, en Kershellirinn sem er fremstur var fyrir löngu þekktur eins og hleðslurnar sem þeir fundu í honum gefa glögglega til kynna.

Þessi fundur þótti allmerkilegur í ljósi þess að erlendir menn höfðu farið um landið og leitað að hellum sem þeir töldu sig síðan finna, þó svo að heimamenn á hverjum stað hefði greinilega vísað þeim á þá. Séra Friðrik hvatti ungt fólk til að gera sér ferð til að skoða hellana og lýsti leiðinni suður í Sléttuhlíðina með eftirfarandi hætti:  Hvatshellir liggur nálægt Selvogsvegi, upp með Setbergshlíðinni skammt frá vörðu þeirri sem er mælingamenn Herforingjaráðsins hafa hlaðið og merkt er tölunni 27. Sú varða er á vinstri hönd, er upp eftir veginum dregur, og spölkorn þar fyrir ofan er til hægri handar fallegur grasgróinn hvammur. Í honum er hellismunninn.

Mjög falleg og greiðfær leið þangað er að ganga upp frá Kópavogi, og framhjá Vífilsstöðum, þar upp með hinni fögru hlíð, er meðfram hrauninu liggur, síðan yfir hraunið og Setbergsásinn, þar til er komið á Selvogsveg. Mundi það vera 3 tíma gangur frá Reykjavík.“

Aðrir fara af stað til að skoða fundinn

Leiðalýsing séra Friðriks kom Reykvíkingum sérkennilega fyrir sjónir eins og greint var frá í blaðinu Reykjavík. Göngumaður sem skrifaði undir leyninafninu Gangleri gerði sér ferð suðureftir til að skoða hellinn ásamt félögum sínum. Þeir villtust á leiðinni og fóru allmarga aukakróka áður en þeir  komust á Selvogsveginn. Seint og um síðir komu þeir að hellunum norðan Sléttuhlíðarhorns og hittu þar þrjá sveitamenn, eins og Gangleri kallaði þá í grein sinni. Þeir spurðu sveitamennina um nýja hellinn og sögðu þremenningarnir að þarna væri ekki nýr hellir heldur þrír hellar þétt við gömlu götuna og hver framundan öðrum. Þeir hefðu, áður en þessir landkönnunarmenn úr Reykjavík komu til sögunnar, verið kallaðir einu nafni Kershellar. Þeir hétu svo af því að það var engu líka en að ker eða skálar væru niður í jarðveginn, sem hellismunnarnir  lægju úr og það væri einna gleggst á þessum nýskírða helli. Því til sönnunar að þessir hellar væru fullkunnir áður, væri það að þeir væru taldir ráða landamerkjum milli Setbergslands og Garðakirkju.

Nafngiftin gagnrýnd, enda hellirinn löngu þekktur

Margir fundu sig knúna til að leggja orð í belg eftir að séra Friðrik gaf innhellinum nafnið Hvatshellir, en svo virðist sem fæstir þeirra sem gerðu sér ferð að hellunum hafi fundið afhellana. Nokkur brögð voru að því að fólk skoðaði einvörðungu Selhellinn og fannst lítið til hans koma enda hafði hann verið notaður sem fjárhellir eftir að hætt var að hafa þar í seli seint á 19. öld og fullur af sauðataði. Botn hellisins er núna þakinn leirkenndri mold sem verður leðjukennd þegar hún blotnar. Jón Þorkelsson var einn þeirra sem ritaði greinarkorn í Fjallkonuna um hellafundinn og taldi hann augljóslega að um Selhellinn væri að ræða.

„Hellir sá í Garðahrauni [hellirinn er í efsta hluta Gráhelluhrauns], er félagar úr göngumannafélagsins „Hvats“ komu í hér í sumar, hefur orðið að blaðamáli. Kölluðust félagar þessir hafa fundið hér nýjan helli og skírðu hann „Hvatshelli“. Síðan hefur „Reykjavíkin“ skýrt frá því eftir kunngum manni, að hellir þessi hafi verið kunnur nú í manna minni, hafi verið haldinn landamerki milli Garða og Setbergs og verið kallaður Kershellir. Þar við bætir og ritstjóri „Reykjavíkur“ því að hann hafi þekkt þennan helli fram undir mannsaldur. En hér mun vera óhætt að bæta því við að hellir þessi hefur verið þekktur um frá ómuna tíð og hefur að vísu um 350 árin síðustu verið haldinn landamerki milli Setbergs og Garða. Er til enn vitnisburður um landamerki þessi frá 2. janúar 1625, úgefinn af Þorvaldi Jónssyni og samþykktur og staðfestur af Magnúsi Þórarinssyni og Sveini Ögmundssyni. Segir Þorvaldur þar svo frá: „að minn faðir Jón Jónsson bjó 15 ár á þráttnefndri jörðu (Setbergi); byggði þá mínum föður jörðina Setberg þann sálugi mann Ormur bóndi Jónsson, hvar eð sat í Reykjavík og tilgreindi bóndinn Ormur þessi takmörk úr miðjum Flóðum, og upp miðjan Flóðhálsinn; sjóndeiling úr miðjum fyrirsögðum hálsi og í hvíta steininn, sá er stendur í Tjarnholtunum og þaðan sjóndeiling í miðjan Ketshellir. Úr Ketshellir og í mitt hraunið og þaðan úr miðju hrauni og ofan í Gráhellu og ofan í Lækjarbotna. Innan þessara takmarka bauð og bífalaði bóndinn Ormur mínum föður allt að yrkja og sér í nyt að færa og aldrei hefi ég þar nokkra efan á heyrt. Og var ég á fyrrsagðir jörðu minni ómagavist hjá mínum föður í áu 15 ár hann þar bjó; en ég hefi nú áttatíu vetur og einn, er þessi vitnisburður var útgefinn ‚, eftir hverjum ég má sverja með góðri samvisku.

Af þessu mætti það verða augljóst, að þessi nýfundni „Hvatshellir“ hefur verið mönnum kunnur í mörg hundruð ár, og heitir réttu nafni Ketshellir.2

Lýsing Ólafs Þorvaldssonar

Við þetta má síðan bæta því að Ólafur Þorvaldsson, sem fæddist á Ási við Hafnarfjörð og var bóndi í Herdísarvík um tíma þar til Einar Benediktsson tók við jörðinni, ritaði ágætar leiðalýsingar um þjóðleiðir í námunda Hafnarfjarðar, sem birtust í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1943-48, sem kom út 1949. Í leiðarlýsingu hans á Grindarskarðavegi (Selvogsleið) ritar hann: „Ofarlega í hraunbelti því sem áður getur og yfir er farið áður en upp á móts við Klifsholt kemur er hellir allstór, Kershellir, og var hann notaður sem fjárból frá Setbergi meðan fjárbúskapur var rekinn þar og útbeit mest stunduð. Langur gangur er til aðalhellisins og nokkuð niðurgegnt, og vildi gólfið blotna þegar fé kom brynjað inn. Laust eftir síðustu aldamót [1900] fundu menn úr félagi, sem nefndi sig „Hvat“ og í voru nokkrir ungir fjallgöngu- og landkönnunarmenn í Reykjavík, helli skammt ofar og norðar [hann er austar, en einnig máf inna lítinn hellir norðan við fjárhellinn]en Kershelli. Op þessa hellis er mjög lítið en drjúgur splölur, þröngur og krókóttur, þar til í aðalhellinn kemur og er ekki farandi ljóslaust. Aðalhellirinn er hvelfing, bogmynduð, nokkru meira en manngengt í miðju, en gólfið slétt hellugólf. Þeir, sem námu helli þennan, svo að sögur fari af, nefndu hann eftir félagi þeirra og kölluðu Hvatshelli. Nafnið máluðu þeir svomeð gullnum stöfum á innanverða hvelfingu eða gólf (ég man ekki hvort heldur).“

Hellaskoðun

Kershellir er augljóslega sá hinn sami og er nú merktur með myndarlegri vörðu sem stendur skammt vestan við jarðfall við gömlu Selvogsgötuna. Kerið er allmyndarlegt og virðist eingöngu um litla skúta að ræða til sitthvorrar handar. Annar skútin, sem er frekar lítill er í austurbarmi kersins, en í vesturbarminum er op sem er öllu áhugaverðara. Þegar komið er innfyrir hellismunnann opnast stór hellir og í honum er hleðslan sem fyrr er getið. Vinstra megin við hana er einskonar bás eða útskot. Hellirinn er nokkuð langur og flestir láta sér nægja að skoða þennan hluta og halda síðan út í birtuna. Um leið og komið er inn í hellinn er hægt að greina þrönga rás hægra megin niður við gólf hellisins og þarf að skríða á maganum inneftir henni til aðkomast í fyrsta afhellinn. Hann er frekar lítill og gólfið er frekar grýtt.  Úr þessum helli liggur önnur rás þar sem skríða þarf á fjórum fótum eða jafnvel á maganum. Opnast þá nokkuð stór hellishvelfing. Þar með er ekki allt upp talið því enn má finna þrönga rás og innan við hana er stærsti hellirinn, sá hinn sami og fékk nafnið Hvatshellir fyrir rúmlega 100 árum síðan.

Þeir sem hyggjast skoða Kershelli og afhellana þurfa að hafa mjög gott ljós meðferðis. Mælt er með höfuðljósi en einnig er hægt að notast við venlulegt vasaljós, þó birtan af slíkum ljósgjafa sé að jafnaði fremur takmörkuð. Áður en skriðið er inn um raufarnar sem tengja afhellana ber að hafa í huga að fatnaður getur rifnað þar sem þrengir mest að. Nauðsynlegt er að hafa hjálm á höfði eða mjög þykka húfu til að koma í veg fyrir slys. Skynsamlegt er að notast við höfuðljós á þessari leið og gott að hafa aukaljós meðferðis sem hefur mikinn birtugjafa þar sem niðamyrkur er inni í hellishvelfingunum. Svo er ætíð skynsamlegt að vera ekki ein(n) á ferð þegar skriðið er inn í þröngar hella rásir, því farsímasamband er ekki fyrir hendi ofan í jörðinni og það getur reynst dýrkeypt ef eitthvað fer úrskeiðis í neðra.

                                                        Jónatan Garðarsson

Heimildir:

Fjallkonan

Reykjavík

Æskan

Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48

Munnleg heimild: Þórður Reykdal

One comment

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *