Kjarvalsreitur

KjarvalsklettarnirHvenær á að vernda hraun og hvenær er réttlætanlegt að leggja það undir mannvirki? Þessi spurning leitaði á hugann fyrir tíu árum þegar fram komu hugmyndir um færslu Álftanesvegar út á Garðahraunið. Spurningin vaknaði aftur þegar framkvæmdir hófust við verslunarsvæðið í Urriðakotshrauni með ótrúlegu raski og vegaframkvæmdum, þrátt fyrir ákvæði um hverfisvernd hraunsins. Og nú blasir enn eitt málið við í Garðahrauni við Álftanesveg. Þar er nýtt hverfi að verða að veruleika steinsnar frá þeim stað sem Kjarval sat löngum stundum með trönur og olíuliti og töfraði fram listarverk sín. Nú eru uppi hugmyndir um að stækka byggingarreitinn enn frekar og raska þar með því svæði sem Kjarval hellaðist af.Kjarval1Þessi hluti Garðahrauns er fallega gróin hraunbreiða sem var áður nefnd Flatahraun og er hluti af Búrfellshrauni sem rann fyrir 7000 árum. Skammt undan er Klettahraun eða Klettar eins svæðið var nefnt, og fjær er Gálgahraun með merkilega sögu. Klettarnir standa á víð og dreif innan um djúpar gjótur og fagurgrónar hraunsléttur. Skýringin á gróðurfarinu fellst að hluta til í hversu gamalt hraunið er. Hraunið ber líka einkenni beitilands þar sem sérstakur fjárstofn, svonefnt Klettafé var á útigangi allt árið. Núna er hvergi sauðkind að sjá á þessum slóðum enda er hraunið nærri helstu þéttbýliskjörnum höfðuborgarsvæðisins þar sem lausaganga búfjár er bönnuð.

Gróðurríki hraunsins er merkilega fjölbreytt. Þar má finna grös og jurtir, lyng og mosabreiður í samspili við trjágróður sem hefur náð sér á strik í seinni tíð. Ágúst H. Bjarnason hjá Vistfræðistofunni fann 121 tegund háplantna, 80 tegundir mosa (blaðmosa og lifrarmosa) og 26 tegundir af fléttum þegar hann rannsakaði fyrirhugað vegstæði nýs Álftanesvegar árið 2000. Í skýrslu hans kemur fram að svæðið teljist vera allfjölskrúðugt, sem stafar meðal annars af sérlegum skilyrðum í hrauninu. Það er leitun að eins fjölbreyttu og aðgengilegu hraunsvæði svo nærri byggð og þetta er kjörið útivistarsvæði fyrir alla fjölskylduna.

Kjarval 2Benedikt Gröndal rómaði gróðurfar Garðahrauns í bókinni Dægradvöl og undarlega vaxna hraundranga sem mæna upp úr mosabyngjunum. Þetta landslag hefur líka heillað myndlistarmenn og verið þeim innblástur til listsköpunar. Nærtækast er að nefna Jóhannes Sveinsson Kjarval sem átti stóran þátt í að breyta sýn landsmanna á hraunlandslag. Hann brá upp skarpri mynd af margbreytileika hrauna þegar hann sýndi afrakstur sumardvalar sinnar á Þingvöllum 1930. Kjarval uppgötvaði hraunmótífin í Garðahrauni á mótum Engidalshrauns, Klettahrauns og Gálgahrauns um 1945 að því er fræðimenn telja. Þá var hann um sextugt og fór margar ferðir eftir það á þessar slóðir til að mála, aðallega eftir 1955. Kristín G. Guðnadóttir litstfræðingur ritaði um listferil Kjarvals í samnefndri bók sem kom út 2005 og fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka. Í kaflanum ,,Steinar brosa í landslagi“ segir: ,,Í Kjarvalsklettur fyrirmyndGálgahraunsmyndunum leggur Kjarval áherslu á nekt hraunsins og þau fjölbreytilegu, hvössu form sem þar er að finna, skreytt lággróðri. Einstaka sérkennilegir hraundrangar urðu honum að yrkisefni. Hann átti sér að því er virðist eitt uppáhalds ,,stæði“ og málaði fjöldann allan af myndum.“

Hægt er að rekja spor Kjarvals með því að bera myndefnið í hrauninu saman við málverkin. Uppáhalds ,,stæði“ Kjarvals er enn óraskað og auðvelt að finna það því hann geymdi gjarnan flöskur með terpentínu og fernisolíu og fleira í hraunslakka og þar sjást ummerki eftir listamanninn. Umhverfis ,,stæðið“ eru hraundrangarnir, lággróðurinn og mosaþemburnar sem heilluðu þennan jöfur íslenskrar myndlistar og kölluðu hann til starfa úti í náttúrunni.

Það er full ástæða til að vernda þennan hraunfláka og friða hann í stað þess að leggja vegi og byggja hús sem koma til með að spilla heildarmynd svæðisins. Það má auðveldlega auka aðgengið með stígum sem falla að landslaginu svo almenningur geti notið þess sem svæðið býður upp á. Það væri heillaráð að koma fyrir leiðbeiningaskiltum með tilvísunum í málverk Kjarvals og leiða fólk þannig inn í myndheim hans. Þetta er einstakt tækifæri til að sýna menningarbrag í verki, til heilla fyrir komandi kynslóðir. Verndum þennan hluta Garðahrauns og gerum Kjarvalsreit að spennandi áningarstað.

Jónatan Garðarsson

2 Comments

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *