Nytsemdarjurtin beitilyng

Beitilyngsmói í austanverðri Smalaskálahæð í september 2010.

Beitilyngið er áberandi í grónum hraunum og á heiðum landsins og all útbreidd nema á Vestfjörðum og miðhálendinu. Þetta er ein algengasta heiðaplantan á norðurlöndunum og á norðanverðu Bretlandi og víðast kölluð Heiðalyng (hedelyng/ heather).

Þegar búið var að eyða skógum á jósku og norðurþýsku heiðunum tók beitilyngið við. Með tímanum myndaðist sérstakt jarðvegslag, svonefndur lyngskjöldur og við það varð landið mjög ófrjótt. Með barrskógarækt og akuryrkju eyddu Danir heiðalynginu en skildu nokkur svæði eftir sem sýnishorn. Geldneyti var oft beitt á beitilyngið sem og hrossum og sauðfé. Kýr sem fengu beitilyng í bland við heytuggu mjólkuðu betur og Norðmenn tóku eftir því að riddarliðshross urðu fjörugri af beitilynginu, sem var ekki slæmt þegar til bardaga dró.Gamla íslenska heitið á beitilyngi er beitibuski og höfðu bændur mjög mikla trú á þessari plöntu. Beitilyngið er í eðli sínu sígræn plant en visnar og fölnar á berangri í miklum vetrarkuldum. Töldu margir bændur að það skipti ekki máli hvort ánum var sleppt í beitilyngsmóana á haustin og látið bíta fram á harðavetur eða gefin taða. Útkoman var ámóta, sauðféð spjaraði sig vel einkum þar sem útigangur var algengastur. Sauðfénu var beitt á beitilyngsbreiðurnar allan veturinn og fram á vor ef ekki voru jarðbönn. Þá var reynt að koma fénu í fjörubeit þar sem henni var til að dreifa. Sauðféð var sólgnast í yngstu og mýkstu beitilyngskvistina.

Beitilyngið blómgast og skartar bleikrauðum blómum seinni hluta sumars og þar sem beit er að mestu hætt víða um landið sjást bleikir móarnir víða ef vel er að gáð. Vera má að örnefni eins Bleikdalur sem víða má finna sé dregið af þessari jurt. Beitilyngið er mjög algeng í hraunum í Álftaneshreppi hinum forna en hér áður fyrr var hún stundum notuð til að kveikja elda, en mosinn til að fela eld.

Beitilyngið er fagurt þó svo að bílgarmurinn sé ekki til neinnar prýði.

Beitilyngið getur orðið 15 til 25 ára gamalt en á það til að grána ef snjór hylur það ekki yfir vetrartímann. Talsvert hunang er í blómunum og víða erlendis eru býflugur notaðar til að safna lynghunangi sem þykir ágætis afurð. Beitilyngið var líka notað til að lita gult því það er mikil sútunarsýra í því. Einnig mátti nota blóm yngstu greinanna til að útbúa seyði sem gagnaðist til þvagörvunar og til að lækna hverskonar gikt. Beitilyngið þótti jafnframt vera blóðstillandi og blómgað var það svæfandi. Stundum var skorið beitilyng sett í rúmstæði hjá þeim sem áttu erfitt með að festa svefn.

Erica, sem víða er hægt að kaupa í blómabúðum, er náskyld tegund, enda af  Ericaceane ættkvíslinni. Svo nefnist ætt tvíkímblöðunga sem fælast kalk og þrífast best í súrum jarðvegi. Sortulyng og bláberjalyng eru að sömu ættkvísl sem og stikilsber og trönuber.  Latneska heiti beitilyngs er Calluna vulgaris.

Heimildir:

Ingólfur Davíðsson

Steindór Steindórsson frá Hlöðum

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *