Rauðamelsstígur – stutt lýsing

129. Hraunin sel Óttarsstaða að voriEin af gömlu þjóðleiðunum milli Hrauna og Krýsuvíkur nefnist Rauðamelsstígur en leiðin gekk líka undir fleiri nöfnum s.s. Óttarstaðaselsstígur og Skógargata. Rauðamelsnafnið var þekktast og var það dregið af tveimur myndarlegum rauðmalarhólum sem stóðu norðvestarlega í Gvendarbrunnshæð í Óttarstaðalandi. Hólarnir risu hátt yfir hraunhæðirnar í kring og voru áberandi kennileiti. Nyrsti hluti götunnar lá á milli Stóra-Rauðamels og Litla Rauðamels. Þar sem þessir myndarlegu rauðmalarhólar stóðu fyrrum er nú djúp náma með lítilli grunnvatnstjörn sem kölluð hefur verið Rauðamelstjörn.

Ólafur Þorvaldsson sem fæddur var í Ási rétt ofan Hafnarfjarðar lýsti Rauðamelsstíg án þess að geta nafnsins á stígnum. Lýsingin birtist sem hluti af grein sem hann ritaði og birtist í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1943-48, sem kom út 1949:

133. Hraunin Rauðamelsstígur varða„Að lokum er svo að geta að nokkru fjórðu leiðarinnar, sem kom fyrir að Krýsvíkingar fóru, ef með hesta voru fyrir neðan, þ.e. í Hafnarfirði, og dreif niður svo miklum snjó, að hinum leiðunum var engri treyst. Þá gat þessi leið verið fær. Leið þessi lá frá byggð í Hraunum sunnan Hafnarfjarðar. Þegar menn fóru þessa leið var venjulega farið út af Suðurnesjaveginum, norðan Rauðamels, skammt sunnan Óttarstaða, um Óttarstaðasel, vestan undir Skógarnefjum, sunnan Einihlíða, en norðan Lambafells, fram hjá afar stórum klettum, sem eru einstæðir á sléttum mosaflákum og Bögguklettar heita, þaðan yfir brunatagl sem liggur upp að norðurhálsi Trölladyngju, upp slóða yfir hálsinn, síðan yfir helluhraun slétt norðan Hörðuvalla sem er nokkur undirlendi mót norðri, milli Trölladyngju og Grænudyngju. Þá er komið að fjalli sem Fíflavallafjall heitir og farið nokkuð suður með því að austan þar til komið er undir Stórusteinabrekku, þaðan liggur stígurinn yfir slétt helluhraun norðan Hrútafells uns komið er á stíginn upp úr Hrúthólma sem er á Hrauntungustígsleið.”

Við þetta má bæta að Hrauntungustígnum var fylgt eftir þetta að Katlinum og þar tók við Ketilsstígur sem liggur upp á Sveifluháls, framhjá Arnarvanti norðanverðu og niður að Seltúni í Krýsuvíkurlandi handan við hálsinn.

Þessi einfalda og greinargóða lýsing Ólafs Þorvaldssonar á Rauðamelsstíg ætti að duga flestum sem vanir eru að rekja gamlar götur. Það er að vísu nokkuð langt á milli kennileita og auk þess hefur stígurinn gróið upp í seinni tíð. Hann er þar af leiðandi ekki jafn augljós í landinu og áður var, sem ætti ekki að koma að sök þar sem hann hefur verið merktur með rauðgulum stikum á vegum Ferðamálasamtaka Reykjaness og Hafnarfjarðarbæjar. Rauðamelsstígur var fjölfarin leið í eina tíð, en ferðir um hann lögðust að mestu niður með tilkomu bílvegarins frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur um miðja 20. öldina.

Þeir sem hyggjast fylgja Rauðamelsstíg frá Hafnarfirði er bent á að hefja gönguna við Þorbjarnarstaði og stefna á Gvendarbrunn. Þegar þangað er komið blasir við varða nokkru sunnar og er síðan hægt að fylgja leiðinni ágætlega í Óttarsstaðasel. Farið er rétt norðvestan við selið þegar komið er framhjá Meitlum. Leiðin nokkuð glögg og sést á köflum ágætlega enda vörður á stöku stað og hraunhellan nokkuð slétt á köflum og sumsstaðar markar fyrir rás í hana eftir hestaferðir fyrri alda.

Heimild: Ólafur Þorvaldsson: Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1943-48.

Why Is Premarin Less Expensive In Canada

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *