Samþykkt borgarafundar i Garðabæ 29.11.2012 um verndun Gálgahrauns og gerð Álftanesvegar

Borgarafundur  haldinn að frumkvæði Hraunavina í safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ 29. nóvember 2012 beinir þeim eindregnu tilmælum til bæjarstjórnar Garðabæjar að öllum  framkvæmdum við fyrirhugaða vegagerð í Gálgahrauni verði frestað meðan leitað verði annarra leiða til að finna endurbættum og öruggari Álftanesvegi stað í sátt við umhverfi og óspillta náttúru.

Sameining Garðabæjar og Álftaness  skapar nýjar forsendur  til  að  varðveita þau ómetanlegu lífsgæði sem felast í óspilltri náttúru í heimabyggð okkar. Fundurinn leggur áherslu á að nú verði gert  nýtt heildarskipulag fyrir þetta svæði þar sem  nútímaleg náttúruverndarsjónarmið verði höfð að leiðarljósi. Einnig þarf að gæta fornra þjóðleiða og þess að hraunið hefur verið uppspretta listsköpunar fjölda listamanna svo sem Jóhannesar S. Kjarvals.

Vel hefur tekist til um verndun  ýmissa svæða  í landi Garðabæjar. Fyrirhuguð vegargerð stingur hinsvegar  í stúf við það sem áður hefur verið vel gert. Gálgahraun er einstök náttúruperla og útivistarparadís við bæjardyr okkar. Þannig viljum við að hraunið verði um alla framtíð, afkomendum okkar til yndis og ánægju.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *