Selja- og beitarhúsatóftir í lögsögu Garðabæjar

Selin voru stór þáttur í bændasamfélaginu á Íslandi frá fyrstu tíð og virðist sem selvenjur hafi að mestu flust hingað til lands frá Noregi. Selstöður voru einnig þekktar víðsvegar í mið og suður Evrópu, þannig að seljabúskapur var greinilega viðtekin venja um aldir. Hér á landi þróaðist seljabúskapurinn með álíka hætti og á norðurlöndum og átti drjúgan þátt í að beitarstýring var með allgóðu móti lengi vel, þó svo að það hafi ekki verið einhlítt. Á nokkrum stöðum voru byggð beitarhús þar sem áður voru sel en sum beitarhúsanna voru reist þar sem haglendi var gott, stundum í námunda við gamla fjárhella eða sauðaskjól. Á meðan Álftaneshreppur var og hét var búskapur og útvegur það sem hélt lífinu eigu bænda. Flestar voru þær í konungseign eða tilheyrðu Garðakirkju. Þannig var málum háttað fram yfir fyrsta áratug 19. aldar þegar nokkrar konungsjarðanna voru seldar. Konungsjarðirnar komu m.a. þannig til að Noregskonungur sló eign sinni á allar jarðeignir Snorra Sturlusonar eftir víg hans þ.m.t. Bessastaði. Viðeyjarklaustur átti fjölda jarða í hreppnum og gengu þær til konungs við siðaskiptin. Setberg er eina jörðin sem hefur alla tíð verið í bændaeign og svo er enn þó hlutar hennar hafi verið seldir. Bjarni Sívertsen eignaðist nokkrar jarðir í Hafnarfirði rétt eftir 1800 og gengu þær kaupum og sölum eftir hans dag . Á fyrstu tveimur áratugum 19. aldar voru Hraunajarðirnar sunnar Straumsvíkur, Hofsstaðir í Garðabæ og fleiri bújarðir í hreppnum seldar úr konungssjóði aðallega til ábúenda eða efnamanna.   í ábúendum hreppsins. Sumir höfðu það betra en aðrir eins og gengur, en ekki voru margar jarðir í Þegar farið er í gönguferð í bæjarlandi Garðabæjar, einkum í útmörkinni, er ágætur siður að skima eftir minjum frá fornu fari. Seljatóftir eru að vísu ekki á mörgum stöðum en þær eru nokkuð heillegar sem eftir eru. Holt er að hugleiða um stund hvernig aðstæður fólks voru fyrir rúmlega 100 árum í þessu harðbýla landi sem gat líka verið gjöfult þegar vel gaf. Landslag í kringum selin er keimlíkt og hægt að gera sér nokkra grein fyrir því hvernig landið var umhorfs á meðan það var nýtt fyrir seljabúskap. Talið er að selfarir hafi að mestu lagst af í hreppnum um eða eftir 1865, sem er ekki alveg öruggt því sagnir hafa verið á kreiki um að fært hafi verið frá fram undir 1910-20 á bæjum í Hraunum og haft í seli á sumrin þó svo að það hafi verið í mun smærri stíl en áður tíðkaðist.

Með því að skoða aðstæður í landi Garðabæjar frá Kópavogslæk að landamörkum Hafnarfjarðar má glöggva sig betur á hvernig málum var háttað í eina tíð.  Ágætt er að hefja eftirgrennslan á Arnarnesi, en bærinn stóð í Arnarnestúni sunnan við Arnarnesháls, nærri Arnarneslæk. Þar er lítið sem ekkert sem minnir á búskapartíðina, annað en hluti túnsins sem notað er sem sparkvöllur. Jörðin var í eigu Garðakirkju og óljóst hvort henni tilheyrði selstaða eða ekki. Hugsanlega var haft í seli þar sem hét Akur, en það á að hafa verið akuryrkjuland til forna og nafnið þaðan komið. Skammt frá Kópavogslæk þar sem gamli vagnvegurinn er enn sjáanlegur á kafla eru tóftir á hól við sjávarbakkann sem minna um margt á seljatóftir. Samkvæmt öllu virðist Arnarnesbóndi hafa mátt nytja kirkjulandið sem bithaga fyrir búsmala sinn og óvíst hvort hann þurfti á selstöðu að halda eða ekki. Á hólnum eru húsatóftir Litla-Arnarness, eða Arnarneskots sem hét þar áður Gamla-Arnarnes. Landsvæðið umhverfis er ámóta því sem tíðkast við sel eða beitarhús og vera má að þarna hafi verið fjárhús eða beitarhús sem byggðusst upp úr seli en breyttust seinna í hjáleigu. Um þetta er ekkert vitað, en ágætt að skoða aðstæður á þessum stað til að glöggva sig á hólnum og sinumyndun því aðstæður eru keimlíkar þeim sem eru til staðar í þeim seljum sem enn eru til staðar í sveitarfélaginu.

Hofstaðir við Hofstaðahól heyrðu undir Garðakirkjustað og nutu ábúendur ókeypis hagabeitar í kirkjulandinu líkt og ábuendur Arnarness. Hofstaðajörðin var seld úr konungseign 1827 og þar hafa fundist merkar minjar frá landnamstíð. Þær vísa til þess að einhverntíma hefur staðurinn talist merkilegur og hver veit nema þar hafi í rauninni verið hof til forna. Væntanlega hefur staður í slíkri virðingarstöðu átt selstöðu, hugsanlega í Vífilsstaðahrauni. Líklegra er samt sem áður að Hofstaðafólkið hafi samnýtt Vífilsstaðasel með ábúendum á þeirri nafnfrægu landnámsjörð. Sigrún Sigurðardóttir á Hofstöðum skýrði Gísla Sigurðssyni örnefnasafnara og lögregluþjóni frá því að gott hefði verið til beitar á sauðum niður um Grunnuvötn og suður á

Hraunsholts nátthaginn

Hjallana. Hvort sú frásögn var vísbending um að Hofstaðir hafi átt þar sel er annað mál.

Hagakot var um margt líkt og Arnarnes og Hofstaðir, en kotið stóð nokkurnvegin á miðjum Flötunum norðaustan við Hvassahraunslæk, þar sem nú er húsið Tjarnarflöt 10. Lækurinn var nefndur Hagakotslækur þar sem hann rann neðan bæjarhólsins. Handan lækjarins var fjárhellir í hraunbrúninni sem var nefndur Hagakotshellir. Þar var seinna reist fjárhús til að hýsa féð eftir fjárskiptin á seinni hluta 19. aldar. 

Finnsstaðir nefnast rústir tvískiptra beitarhúsa í hraunbrúninni undir Hlíðarhorni Vífisstaðahlíðar skammt suður af Vífilsstöðum. Björn Konráðsson ráðsmaður á Vífilsstöðum taldi að þarna hefði verið býli og peningshús, sem var seinna breytt í beitarhús. Húsatóftin stendur skammt frá mýrlendinu suðvestan Vífilsstaðalækjar eins og Hraunsholtslækur nefnist þar sem hann rennur úr Vífilsstaðavatni í gegnum land Vífilsstaða. Göngustígur liggur þétt við Finnsstaðatóftina og þar er bekkur til að hvíla lúin bein.

Vífilsstaðir sem nefndir eru eftir Vífli leysingja Ingólfs Arnarsonar komust í eigu Viðeyjarklausturs, og komust undir Garðakirkju eftir skiðaskiptin nánar tiltekið 1558. Ofan við miðja Vífilsstaðahlíð skammt sunnan við Grunnuvötn er Selás og sunnan ássins eru eru tóftir Vífilsstaðasels í skjólsælum hvammi. Upp af honum er Selhamarinn einnig nefndur Selholt. Selið virðist hafa verið nokkuð stórt, með álíka húsaskipan og víðast hvar tíðkaðist í seljum hér um slóðir. Skammt austan þrískiptra selhússanna eru tóftir sem gætu verið af stekk og stöðli, en gætu allt eins verið minjar sem tilheyrðu Hofstöðum. Uppi á ásnum er vallgróin grjóthleðsla lítillar kvíar.

Hraunsholt átti stutta leið í selið um selstíginn sem lá suður hraunið. Selið stóð sunnan undir Hádegishól skammt frá bænum sem var fremur óvanalegt en allsekki óþekkt. Staðurinn var allt eins kallaður Hraunsholtshellar, en hellarnir komu að góðum notum sem fjárskjól.  Hádegishóll er enn á sínum stað með steyptri vörðu, en selminjunum var eytt þegar hrauninu var skóflað burtu af starfsmönnum Hagvirkis, en það fyrirtæki var með höfuðstöðvar sínar á þessum slóðum. Vottaði fyrir selinu að þeim tíma þó það léti ekki mikið yfir sér. Nær bænum var á sléttu hrauninu var Hraunsholts nátthaginn sem rúmaði um 100 fjár og þar var einnig lítið fjárhús og standa veggjarbrot þess ennþá.

Átta kóngsjarðir á Álftanesi höfðu í seli í Selgjá eða Norðurhellragjá eins og hún var einnig nefnd. Þar eru nokkuð margar vallgrónar seljarústir, flestar við gjárbarmana, en selin eiga það sameiginlegt að hafa verið frekar lítil. Með því að leggja sig fram er hægt að finna minjar um 11 sel auk 20 byrgja og tíu lítilla kvía í Selgjánni. Sum selin nýttu hella og skúta í gjánni, en önnur var byggð þannig að slútandi hraunbrúnir gjárbarmsins mynduðu einn vegginn. Selleiðin frá Álftanesi í Selgjána var nokkuð löng en þar sem beitilandið var gjöfult voru menn ekkert að fást um það þó langt þyrfti að fara. Samkvæmt því sem stendur í Jarðabókinni voru mörg seljanna í eyði árið 1703, en hafa sennilega flest byggst upp aftur. 

Skammt norðvestur af Selgjá er Sauðahellirinn syðri milli Vífilsstaðahlíðar og Mið-Tjarnholts. Falleg dyrahleðsla er við hellisopið og þar yfir voru stórar hraunhellur sem hafa fallið niður. Örlítið sunnar í hrauninu, aðeins nær Mið-Tjarnarholt, er beitarhúsatóft frá við hraunkletta. Hlaðið er á milli þeirra og framan við þá er grjót- og torfveggir sem virðast vera nokkuð fornir. Spölkorn norðar er önnur nýlegri beitarhúsatóft sem eingöngu hlaðin úr hraungrjóti. 

Garðaflatir austan við Gjáarrétt í Búrfellsgjá minna um margt á sel eða jafnvel hjáleigu. Austarlega í hlíðarslakka eru húsatóftir sem líkjast meira skálatóft en seljarústum. Engar rannsóknir hafa verið gerðar á staðnum þannig að ómögulegt er að fullyrða nokkuð um það hverskonar hús voru á Garðaflötum. Sagnir greina frá því að þarna hafi fólk komið saman um réttartíðina og þetta gæti hafa verið íveruhús fjármanna sem þarna dvöldu, leitarmannaskýli eða jafnvel sæluhús.

Hleðslan í miðjum Kethelli í Setbergsseli.

Setberg var stórbýli á sínum tíma og eru þrennar fjárhúsa- og beitarhúsatóftir uppistandandi sem áhugavert er að líta á. Sú sem er næst Setbergshverfinu er Svínholtsmegin á Norðlingahálsi í jaðri Oddsmýrardalstúnsins  rétt handan við Vífilsstaðaveginn. Oddsmýrarfjárhús var notað vel fram yfir miðja 20. öldina.

Gráhellubeitarhús stóð vestan við hraundranginn Gráhellu í Gráhelluhrauni. Þetta var ekki mjög stórt beitarhús og sennilega verið notað sem sauðakofi þegar þeim var haldið á vetrarbeit í hrauninu. Veggirnir standa enn og hægt að ganga inn í tóftina sem er án þekju.

Beitarhúsið er stærst að ummáli en það lét Jóhannes Reykdal reisa í hæðarslakka Setbergshlíðinni mitt á milli Sandahlíðar og Þverhlíðar. Þar má enn sjá vegghleðslur úr holtagrjóti og hefur húsið átt að hýsa vel yfir 100 fjár. Umhverfis húsatóftina var Húsatún sem sker sig rækilega úr umhverfinu.

Að síðustu er Setbergsselið sem var í helli þeim sem nefndur var Kethellir í Jarðabókinni. Hann er norðan undir Sléttuhlíðarhorni og suðvestan Þverhlíðar á mörkum Gráhelluhrauns og Smyrlabúðarhrauns. Setbergssel var norðaustan við annað hellisopið, en hellirinn er í rauninni hraunrás sem er opin í gegn. Hellirinn virðist hafa verið notaður sem hluti af selinu enda gott geymslurými í honum. Honum var skipt í tvennt með hleðslu í miðjunni og tilheyrði annar hlutinn Setbergi en hinn Hamarskoti sem var ein af hjáleigum Garðakirkju. Landamerkjavarða er yfir miðjum hellinum sem skipti löndum milli Setbergs og Garðakirkju og þar af leiðandi milli Garðabæjar og Hafnarfjarðar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *