Sköpunarverkið, hraunið mitt hrjúfa

Stutt samantekt um Konráð Bjarnason tónlistar- og fræðimann sem unni Gálgahrauni og orti fallegt ljóð um hraunið.

Kofatoft vid EskinesKonráð Bjarnason frá Þorkelsgerði í Selvogi hafði sérstakt dálæti á Gálgahrauni en hann bjó síðustu ár ævi sinnar í Garðabæ og Hafnarfirði. Konráð ólst upp á mannmörgu heimili við sjávarsíðuna í Selvogi en hann átti 16 systkini, tvö dóu í æsku en hin komust til manns. Faðir Konráðs var Bjarni Jónsson sjálfseignarbóndi og útvegsmaður og móðir hans var Þórunn Friðriksdóttir sem var lærð ljósmóðir.

Konráð stundaði barnaskólanám í Hafnarfirði og fór síðan í Héraðsskólann á Laugarvatni. Hann lærði á orgel hjá Kristni Ingvarssyni og Þórður Kristleifsson kenndi honum söng. Konráð vann við búið heima í Selvogi þar til hann fór til Þorlákshafnar þar sem hann stundaði verslunarstörf. Nokkru seinna var hann kominn til Vestmannaeyja og starfaði þar fyrir Helga Ben og sá um deild sem annaðist netagerð og netabætur. Konráð fékk útrás fyrir tónlistaráhugann því hann söng í kirkjukórnum og Vestmannakórnum. Hann hélt til Kaupmannahafnar eftir að hafa verið í Eyjum um tíma. Þar stundaði hann söng- og orgelnám hjá góðum kennurum. Eftir heimkomuna kenndi hann söng, stjórnaði kórum og lék við kirkjuathafnir í Rangárvallasýslu. Þar kynntist hann eiginkonu sinni Guðrúnu Ingibjörgu Auðunsdóttur frá Dalseli. Valdimar bróðir hennar samdi nokkur vinsæl dægurlög, en Dalsels systkinin voru öll afar músíkölsk. Saman fluttu Konráð og Guðrún, eða Donna eins og hún var kölluð, til Reykjavíkur og þar eignuðust þau tvö börn. Listin nægði ekki til að framfleyta fjölskyldunni og varð Konráð að sinna ýmsum störfum meðfram tónlistinni.

Auður Hauksdóttir man vel eftir Konráði þegar hann starfaði á netagerðarverkstæði Jóns Gíslasonar útgerðarmanns í Hafnarfirði. Jón Gíslason rak útgerð, fiskverkun, verslun og netagerð uppi á hrauni eins og það var kallað og stendur frystihús hans ennþá við Reykjavíkurveg. Auður og systkini hennar ólust upp í næsta nágrenni við athafnasvæði Jóns Gíslasonar og höfðu nokkur kynni af Konráði. Hann var annálaður útivistarmaður sem þekkti umhverfi sitt betur en flestir aðrir. Konráð var örnefnaglöggur og unni náttúrunni og fór mjög oft gangandi um sitt nánasta umhverfi, einkum í Gálgahraun og víða annarsstaðar á Reykjanesi.

Konráð bjó seinni hluta ævinnar í Garðabæ og Hafnarfirði og eftir að hann lét af störfum sem netagerðarmaður sinnti hann fræðistörfum af mikilli alúð. Hann var manna fróðastur um ættfræði og tók saman hundruð ættartölur og ritaði kirkju- og ábúendasögu Strandar í Selvogi. Hann samdi margar fróðlegar greinar um mannlíf í Selvogi og fjöldi þeirra birtist í Lesbók Morgunblaðsins. Þar á meðal var grein um skáldið Einar Benediktsson og veru hans í Herdísarvík, en Konráð var vinnumaður hjá Einari fyrsta árið hans í Herdísarvík. Þá má geta þess að lýsing sem Konráð tók saman um leiðina milli Selvogs og Hafnarfjarðar er afskaplega vönduð enda þekkti hann leiðina manna best og fór hana síðast þegar hann var 78 ára gamall. Kunni hann skil á kennileitum og örnefnum á leiðinni og hafði mikla ánægju af því að miðla af fróðleik sínum.

Dagný Björk Þórgnýsdóttir tengdadóttir Konráðs lýsti þessum þætti í fari hans á eftirfarandi hátt í minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu 30. ágúst 2000:

„Konráð var mikill útivistarmaður, hafði unun af að skoða náttúruna á tíðum göngum sínum, vetur, sumar vor og haust. Hann fór hratt yfir, var ávallt beinn í baki og bar höfuðið hátt. Konráð þekkti hverja þúfu, klett og gjótu í Gálgahrauninu og kunni skil á öllum helstu gönguleiðum í nágrenni heimilis síns í Hafnarfirði og á Reykjanesskaga. Hann sagði mér oft og tíðum frá þessum ferðum sínum og kryddaði frásagnirnar með munnmælasögum frá fyrri tíð. Þessar sögur voru svo endurteknar síðar að hætti forfeðranna til að festa þær í munnlegri geymd.“

Árni Gunnlaugsson lögmaður og þáverandi bæjarfulltrúi í Hafnarfirði þekkti Konráð vel. Hann minnitst vinar síns á fallegan hátt í minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu 30. ágúst 2000. Þetta hafði Árni að segja um útvistaráhuga Konráðs og hagmælgi sem kom m.a. fram í kvæði sem hann orti um Gálgahraun:

„Heilbrigðar lífsnautnir voru Konráði hugstæðar. Þannig kunni hann vel þá list að rækta sál og líkama við hollustu útiverunnar og tign náttúrunnar. Allt frá því hann fluttist til Hafnarfjarðar 1972 fór hann nær daglega í gönguferðir, meðan heilsan leyfði. Fáir munu eiga að baki fleiri ferðir á Ásfjallið og eftir að hann fluttist á Miðvanginn var það Gálgahraunið, sem mest heillaði. – Á einni göngunni þar orti Konráð ljóð um Gálgahraunið. Lýsa eftirfarandi hendingar úr því ljóði hughrifum hans: „Sköpunarverkið, hraunið mitt hrjúfa, heillar mig jafnan á dagsins göngu.“ Og ennfremur: „Þar finn ég dulmögn og friðsæld ljúfa.“ – Sannindi þeirra orða viturs manns, að „náttúran er sá vinur vor, sem aldrei bregst“, kunni Konráð vel að meta og sýndi það í verki.“

Konráð Bjarnason fór eins oft og hann frekast gat í gönguferðir um Gálgahraunið sem honum fannst ómetanlegur staður í tilverunni. Hann var í hópi þeirra fjölmörgu sem skynja fegurð og dýrmæti landsins okkar og vissi að þessi perla var einstæð svo nærri þéttbýlinu.

Jónatan Garðarsson

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *