Sóðaskapur fyrir sjötíu árum

Sóðaskapur og ruslaragangur í umgengni við hraunin í nágrenni Hafnarfjarðar virðist eiga sér býsna langa sögu og ekki sér fyrir endann á þessari ónáttúru sem virðist hrjá suma landsmenn að nota hraunin sem ruslakistu. Fyrir sjötíu árum, nánar tiltekið haustið 1943 kom upp mál þar sem starfsmenn Sambands íslenskra samvinnufélaga voru sakaðir um að fyrirkoma kjötvörum í hraununum í nágrenni Hafnarfjarðar. Sem betur fer hefur ekki borið á þessháttar úrgangi í seinni tíð þó svo að upp hafi komið slæmt mál fyrir um tveimur árum þegar sauðfjárbændur í Lónakoti voru staðnir að því að koma sláturúrgangi frá heimaslátrun sinni fyrir í fallegri hraungjótu í nágrenni fjárhúsanna í Lónakotslandi. Því miður brugðust heilbrigðisyfirvöld við með því að leyfa viðkomandi aðilum að fylla gjótuna með ofaníburði í stað þess að láta hreinsa gjótuna og stöðva ófögnuðinn í eitt skipti fyrir öll. Hraunavinir hafa tekið að sér ásamt sjálfboðaliðum úr röðum félagsmanna og nemenda og starfsfólks grunnskóla bæjarins að hreinsa allskonar rusl sem leynist í hraungjótum sunnan og vestan Straumsvíkur. Þetta sjötíu ára gamla mál er ágætis áminning og vonandi verður svona lagað ekki jafn algengt og raun ber vitni í framtíðinni.

Eftirfarandi blaðagrein birtist í Þjóðviljanum 6. nóvember 1943 og tóku fleiri blöð þetta mál upp og birtu fréttir af því.

KJÖTNÁMUNUM Í HAFNARFJARÐARHRAUNI FJÖLGAR STÖÐUGT

Hafnfirðingar skipa S.Í.S. burt með kjöt sitt.

Hangikjöt, kindakjöt, hrossakjöt, bjúgu og saltaðar garnir í tunnum, pokum og umbúðalaust hefur nú fundizt í nágrenni Hafnarfjarðar.

Kjötnámunum í Hafnarfjarðarhrauni fjölgar stöðugt. Upphaflega fannst saltkjöt í dysjum við Krýsuvíkurveginn, síðan hafa fundist birgðir á 3-4 stöðum, bæði sunnan og norðan bæjarins. Hefur þar fundist saltkjöt af kindum, hrossum og nautgripum, söltuð bjúgu, garnir og hangikjöt. Virðist nú ekki vanta annað en að einhver finni ostanámuna fyrir austan fjall. Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar hefur skipað S.Í.S. að hverfa á brott með kjöt sitt.

DYSJARNAR VIÐ KRÝSUVÍKURVEGINN

Það sem fyrst fannst og frá var skýrt var í dysjum meðfram Krýsuvíkurveginum, eigi alllangt frá Vantsskarði, ca um 9 km frá Hafnarfirði. Var það saltað kindakjöt í pokum.

NÝ NÁMA

Síðan hefur fundist meira af kjöti á svipuðum slóðum og hefur því verið fleygt lausu.  Segja Hafnfirðingar, sem séð hafa þessa námu, að þar sé bæði hrossakjöt og nautakjöt.

TUNNUGEYMSLA VIÐ HRAUNHÓL

Þá hefur ennfremur fundist tunnunáma við Rauðhól (Hvaleyrar Rauðhóll), sem er í hrauninu skammt fyrir sunnan Hafnarfjörð. Í tunnum þessum segja Hafnfirðingar vera saltað kindakjöt og hangikjöt, söltuð bjúgu og garnir.

HANGIKJÖT Í GÁLGAHRAUNI

Allt þetta kjöt sem hér hefur verið skýrt frá er í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar. En einnig hefur fundist hangikjötsnáma í Gálgahrauni, sem er norðan Hafnarfjaðar.

ÁLÍTUR S.Í.S. AÐ HAFNARFJÖRÐUR SÉ EINHVER RUSLAKISTA FYRIR ÓÆTT KJÖT?

Hafnfirðingar hafa ekki átt því að venjast að S.Í.S. veiti þeim nein vildarkjör í kjötkaupum, fram yfir aðra menn, en nú hefur erið hrúgað niður kjöti í nágrenni Hafnarfjarðar. S.Í.S. segir í „játningum“ sínum að það hafi verið óætt kjöt og heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar hefur skipað S.Í.S. að hverfa á brott með kjöt sitt.

Ýmsir Hafnfirðingar, sem hafa reynt kjöt þetta halda því aftur á móti fram, að það sé hinn sæmilegasti matur og sumt af því dilkakjöt, en ekki ærkjöt eins og S.Í.S. lét í veðri vaka og hljóti ástæður til þess að að því var fleygt, að vera einhvejar aðrar en að það hafi verið óætt.

HVAR ER OSTANÁMAN FYRIR AUSTAN FJALL?

Nú hefur fundist saltað kindakjöt, hrossakjöt, bjúgu og garnir. Vill ekki einhver heita verðlaunum til þess, sem finnur ostanámuna fyrir austan fjall?

One comment

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *