Kvöldganga í Gráhelluhrauni

Hraunavinir bjóða upp á ókeypis kvöldgöngu um Gálgahraun fimmtudagskvöldið 23. júní næstkomandi. Gangan hefst kl. 22.00 og verður gengið frá bílaplaninu við Hraunvik nærri Sjálands- og Ásahverfum þar sem eystri hluti Fógetagötu hefst. Bílastæðið er merkt með Friðlandsskilti.Sumarsólstöður verða þann 21. júní og ekki má gleyma því að Jónsmessunótt hefst aðfaranótt 24. júní. Jónsmessunótt er talin ein af fjórum mögnuðustu nóttum ársins samkvæmt þjóðtrúnni og það geta allskyns dularfullir hlutir átt sér stað þessa nótt. Þeir sem vilja staldra lengur við í Gálgahrauni að göngu lokinni til að upplifa kraft náttúrunnar á þessum merka stað geta að sjálfsögðu gert það.

Þess má geta að Hraunavinir og Umhverfisnefnd Garðabæjar vinna nú sameiginlega að því að útbúa upplýsingaskilti um Gálgahraun sem verða sett upp á tveimur stöðum, annarsvegar við bílastæðið við Hraunvik í Arnarnesvogi og hinsvegar við Garðastekk.

Þeir sem vilja kynna sér þetta svæði betur geta leitað nánari upplýsinga á þessari slóð: http://www.hraunavinir.net/2009/06/galgahraun-og-gar%C3%B0ahraun/

 

Reynir Ingibjartsson höfundur tveggja vinsælla gönguleiðabóka mun fara fyrir göngunni og fræða þátttakendur um það sem fyrir augu ber á leiðinni og ræðir m.a. um gildi Gálgahrauns, sem var friðlýst haustið 2009 ásamt Skerjafirði innan lögsögu Garðabæjar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *