Sprungur í hraunum

Þriðjudaginn 2. mars 2010 féll kona í hraunsprungu á milli Húsfells og Valahnúka. Hún slapp óvenju vel og var heppin að vera ekki ein á ferð. Konan féll í gegnum u.þ.b. meters þykka snjóþekju og fékk síðan yfir sig töluvert magn af snjó sem hrundi á eftir henni ofan í sprunguna. Vinkona hennar slapp með því að kasta sér til hliðar og gat hringt eftir björgun. Fallið var um 4-5 metrar ofan í sprunguna og urðu björgunarsveitarmenn að síga eftir henni. Komst konan upp úr sprungunni lemstruð, marin og skelkuð, en óbrotin, sem betur fer.

Þarna er fjöldinn allur af sprungum sem eru sumar þekktar en aðrar leyna verulega á sér, sérstaklega á veturna. Þekktasta sprungan, og sú sem menn hafa lengst varast á þessum slóðum, nefnist Húsfellsgjá og liggur frá Húsfelli um sunnanverða Valahnúka að Helgafelli og suðvestur fyrir Helgafell þar sem þessi sama sprunga nefnist Gullkistugjá.

Víða leynast nafnlausar sprungur og varhugaverðar gjár í hrauninu sem láta lítið yfir sér þegar snjó hefur skafið yfir þær. Sumar sprungurnar tengjast hellum sem eru fjölmargir á þessum slóðum og áhugavert að skoða þá, en ætíð þarf að fara með gát. Þetta sprungukerfi gefur einfaldlega til kynna að þarna hafa verið miklar hamfarir og skálftahrinur sem gengu yfir landið frá þaí að ísöld leið, af svo miklu afli að jörð hefur víða sigið og landið rifnað í sundur. Þegar krafmiklar skjálftahrinur eiga sér stað opnast gamlar sprungur og nýjar myndast og er þetta svæði dæmigert fyrir sprungið hraunlandslag. Samt er engin ástæða til að hræðast gönguferðir á þessum slóðum en rétt að ítreka að ætíð skal fara um svona landsvæði með fyllstu varúð.

Svæðið umhverfis Helgafell, Húsfell og Búfell er þakið hraunum sem eru á þekktri gosrein og þar er misgengislægð sem nefnist Hjallamisgengi. Það er greinilegast í Heiðmörk milli Elliðavatns og Vífilsstaðahlíðar, en nær töluvert lengra til suðvesturs allt að Kaldá. Helgadalur er hluti af misgengislægðinni. Skammt norður af Helgadal eru misgengissprungur á sömu sprungurein og Hjallamisgengi sem sjást mjög vel við Hamraenda og Smyrlabúð. Þar á milli liggur gamla Selvogsgatan þar sem hún þræðir sig frá Hafnarfirði og liggur í slakkanum milli Smyrlabúðahrauns og Klifsholta. Þegar komið er suðaustur að Smyrlabúð taka Mosar og Sléttahraun við og enn lengra er Helgadalur. Alveg við Smyrlabúð eru ljótar sprungur í misgengisberginu. Tvær þeirra bera nafn þar sem þjóðleiðin liggur yfir þær. Önnur þeirra nefnist Stjánagjá eftir Kristjáni, manni sem þar var á ferð og féll í gjána, og hin heitir Folaldagjá vegna þess að þar féll niður folald fyrir margt löngu og festist í sprungunni.

Samskonar sprungukerfi er í misgenginu rétt norðan við Helgadal, og er vatn í  gjánum, enda er þetta á vatnasviði Kaldárbotna og tengist væntanlega Vatnsgjánni sem er í Búrfellsgjá. Þegar komið er austar í námunda við Hundraðmetra hellinn eru fleiri sprungur sem eru margar býsna djúpar og hættulegar þegar ekki sést almennilega hvernig hagar til undir snjónum. Svona heldur þetta áfram allt austur og suður fyrir Húsfell en þó er sjálf Selvogsgatan nokkuð örugg ef henni er fylgt á milli stika.

Fjöldi fólks gengur Búrfellsgjána allt árið um kring og þar eru margar mismunandi áberandi sprungur. Skemmst er að minnast hunds sem féll í eina þeirra fyrir fáeinum misserum. Sprungurnar í Búrfellsgjánni eru margar hverjar alldjúpar og ekki heiglum hent að komast upp úr þeim ef fólk fellur niður á annað borð. Farsímasamband getur verið gloppótt á þessum slóðum og þar af leiðandi er nauðsynlegt að láta einhvern vita af ferðum sínum áður en haldið er í gönguferð um hraunlandslag að vetri til.

Mælt er með því að þeir sem eru á ferð í snjó og vetrafærð séu vel búnir, noti stafi til að kanna undirlagið og fylgi helst merktum slóðum sem hafa verið stikaðir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *