Sunnudagsganga Hraunavina

Hraunavinir ætla að efna til göngu um Gálgahraun annan hvern sunnudag kl. 10.00 á næstunni og hér að neðan er hugleiðing Reynis Ingibjartssonar nýkjörins formanns Hraunavina, sem leiddi gönguna:

Ganga Hraunavina um Móslóða í dag, varð hin besta morgunganga enda veðrið eins og pantað. Ásamt hundum voru tíu í göngunni og gönguleiðin í heild reyndist 3,2 km.
 
Haldið var frá gönguleiðaskiltinu við Hraunvik og fyrst stefnt á Litla-Skyggni sem er þétt við Móslóðann. Þar hjá er Grenishóll, gott kennileiti við stíginn. Því miður eru engar stikur við Móslóða og oft erfitt að finna réttu leiðina.
 
Skammt sunnan við Grenishól liggur stígur þvert yfir hraunið frá Ásahverfinu og yfir á Fógetagötu. Við gengum þennan stíg á leiðinni til baka.
 
Syðst á Móslóða við hraunbrúnina norður af Álftanesveginum, er lítil varða og þar snéri hópurinn við. Horft var yfir Kjarvalsklettana á bakaleiðinni og þegar hópurinn gekk stíginn að Ásahverfinu, kom fram sú tillaga, að kalla hann Ásastíg. Hér gæti verið um gamlan stíg að ræða og því til sönnunnar, þá eru nokkrar hundaþúfur við stíginn.
 
Að lokum var gengið eftir Moldargötum, en það heitir malbikaði stígurinn vestan við Ásahverfið. Göngunni lauk svo á upphafsstað við hringtorgið hjá Hraunviki eftir um eins og hálftíma göngu.
 
Göngumenn voru sammála um að nú væri komið að tímamótum í baráttu fyrir verndun hrauna. Ekki ætti lengur að tala um ef og þegar, ef rætt væri um nýjan Álftanesvegi eða fyrirhugaðan Vífilsstaðaveg yfir Gálgahraunið. Nú væri kominn punktur og hér eftir verði Gálgahrauni eða öðrum hlutum Búrfellshrauns, ekki raskað.
 
Allir ætla að mæta í næstu göngu eftir hálfan mánuð og hugmynd kom fram um gönguleið: Ganga frá Prýðishverfinu eftir Álftanesstíg og niður að Garðastekk. Ganga síðan frá gönguleiðaskiltinu við stekkinn og til baka eftir Engidalsstíg og að upphafsstað í Prýðishverfi. Við erum rétt að byrja.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *