Um Gálgahraun og sýn Kjarvals

Halldór Ásgeirsson myndlistarmaður skrifar:

Áður fyrr þótti Íslendingum fjöllin ljót en það var ekki fyrr en á 19.öld með þýsku rómantíkinni að sýn skáldanna fór að breytast og gerði okkur fjöllin kær. Þessi viðhorfsbreyting kenndi m.a. Jónasi Hallgrímssyni bæði að rannsaka þau sem fræðimaður og yrkja um þau ljóð sem leiddi okkur í nýtt landnám náttúrufegurðar.

Það sama má segja um meistara Kjarval sem breytti ásýnd okkar á landinu og þar með talið hrauninu sem hann í bókstaflegri merkingu leysti upp í ótal óséðar myndir og birti okkur tötfraheima.

Í meira en aldarfjórðung þrammaði Kjarval í mismunandi veðrum á öllum tímum ársins út á eitt afvikið svæði í Gálgahrauni og málaði þar þegar upp var staðið á milli 50 til 70 málverk sem eru ólík hvert frá öðru að gerð og eru í dag sum hver talin með helstu meistaraverkum hans á ferlinum.

Það má spyrja hvað hafi dregið Kjarval að sama staðnum út í hrauninu í svona langan tíma? Ég hygg að hann hafi séð í gegnum hraunið, sýnir, einhvern innri söpunarkraft sem við venjulega sjáum ekki en gat miðlað honum til okkar í málverkum sínum.

Í byjun júní s.l. opnaði sýning á Kjarvalsstöðum undir stjórn Ólafs Gíslasonar sem bar heitið “ Gálgaklettur og órar sjónskynsins “. Á sýningunni var telft saman annarsvegar málverkum Kjarvals úr Gálgahrauni og hinsvegar verkum fjögurra kynslóða íslenskra myndlistarmanna í einskonar samtali við myndir Kjarvals. Ég var einn af sýnendunum er varð til þess að ég fór í ótal vettvangskannanir á staðinn sem Kjarval málaði flestar af myndum sínum en þar má sjá enn í dag ummerki af veru hans.

Í nágrenni við Kjarvalsklett hefur nýlega verið skipulögð byggð og er þar mest áberandi eitt risa einbýlishús sem gín yfir öllu einsog ofvaxinn þurs og sækir hart að helgum stað. En ekki nóg með það heldur á nú að kóróna sköpunarverkið eða réttara sagt eyðilegginguna með lagningu hraðbrautar í gegnum hraunið. Hverjir eru þeir sem þurfa að komast hraðar heim til sín? Og ég spyr áfram hvað eru bæjaryfirvöld í Garðabæ yfir höfuð að gera út í Gálgahrauni?

Í aðsigi er atlaga að helgum reit, óafturkræf umhvefisspjöll og stórfellt skipulagsslys er varðar óspillt náttúrusvæði er hefur að geyma auk þess ótal sögulegar minjar allt frá landnámi.

Við skulum ekki gleyma því að höfuðborgarsvæðið ásamt strandlengjunni er smá saman að verða að einum fegursta garði landsins með dafnandi gróðri og sífellt betra aðgengi að útivistarsvæðum sem borgarbúar kunna í æ ríkara mæli að njóta. Það eru mikil lífsgæði.

Gálgahraun tel ég vera einstaka náttúruperlu sem minnir mig stundum á Ódáðahraun í smækkaðri mynd. Það eru forréttindi á heimsvísu að eiga aðgang að slíku svæði inni í miðri borg.

Víðast hvar þar sem ég hef búið og starfað í Evrópu og Japan er allt þéttbýli meira og minna manngert og í því sambandi vil ég benda á verðmætin sem felast í ósnortinni náttúru í byggð.

Skammsýni og hugsunarleysi yfirvalda í þessu sambandi finnst mér vera óskiljanleg og í raun ófyrirgefanleg því að með fyrirhuguðum framkvæmdum eru þau að rýra til framtíðar eignir íbúa svæðisins um leið að skerða lífsgæði okkar hinna.

Það virðist enginn spyrja um Kjarval þegar hraðbrautin verður lögð í gegnum hjarta hans. Yfirvöld geta minnst hans í ræðum, mært listina hans um leið og þau ryðjast yfir sköpunarverkið og fyrirmynd málverksins; ósnortið hraunið sem jarðeldurinn skóp í árdaga.

Bætum veginn sem fyrir liggur í staðinn og leyfum náttúrunni að njóta vafans en ekki manninum sem er að flýta sér eitthvert út í bláinn.

Halldór Ásgeirsson, myndlistarmaður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *