Vegurinn sem aldrei varð

Það litla sem eftir er af Járnbrauta- og vagnveginum frá 1918 sést á milli iðnaðarhverfisins í Molduhrauni og Flatahverfis.

Merkilegar hleðslur eru enn sjáanlegar í hrauninu suðuvestur af Flötunum, handan við Hraunsholtslækinn, sem heitir reyndar Vífilsstaðalækur örlítið ofar þar sem hann renndur úr Vífilsstaðavatni. Þessar hleðslur vitna um vegasögu 0kkar og hægt er að aldursgreina þær nákvæmlega því þarna voru vinnuflokkar að störfum fyrir hluta árs 1918 á sama tíma og mikil harðindi með frosthörkum gengu yfir landið og atvinnuleysi var í sögulegu hámarki.

Þegar leið á fyrri heimsstyrjöldina fór að gæta atvinnuleysis víða á landinu. Fiskveiðar og fiskverkun drógust saman þar sem erfiðleikum var bundið að koma aflanum í verð. Kuldar voru miklir en aldrei hafði annað eins frost komið og frostaveturinn mikla árið 1917-18. Nauðþurftir voru af skornum skammti og yfir vetrarmánuðina þegar kaldast var gengu fullhraustir karlmenn um göturnar í von um að geta snapað vinnu stund og stund.

Ríkisstjórnin ákvað haustið 1917 að veita sveitastjórnum dýrtíðarlán úr landsjóði til að ráðast í framkvæmdir svo að hægt væri að ráða atvinnulausa fjölskyldumenn í vinnu. Bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkti í lok nóvember 1917 að taka lán til að vinna grjót í námunum í Öskjuhlíð til margvíslegra nota. Fyrsta lánið var veitt í nóvemberlok en í ársbyrjun 1918 var lánum úthlutað til sveitastjórna víðar á landinu. Bæjarstjórnir Hafnarfjarðar og Reykjavíkur fengu sameiginlega 65.000 kr. til að leggja nýjan veg frá Suðurlandsbraut við Sogamýri í Reykjavík að Lækjargötu í Hafnarfirði. Að auki var 25.000 kr. lán veitt til kaupa á mulningsvélum og mótor til að brjóta niður stórgrýti.

Miðdegishóll til vinstri, vegurinn beint framundan.
Miðdegishóllinn er til vinstri og vegslóðinn beint framundan.

Nýskipaður landsverkfræðingur Geir G. Zoega sem tók við af Jóni Þorlákssyni í febrúar 1917 kynnti sér hvar best væri að leggja veginn og mældi út fyrir honum. Vegurinn átti að vera 7 metra breiður þannig að hægt væri að leggja járnbrautarteina á eystri hluta hans en vestari hlutinn var ætlaður almennri umferð ökutækja og reiðmanna. Vegurinn átti að sveigja út af Suðurlandsveginum í Sogamýri, skammt frá Elliðavogi og liggja líkt og Breiðholtsbrautin er nú, vestan Blesugrófar upp að austurenda Digraneshálsins, skammt austan við bæinn Digranes. Þar átti hann að fylgja gömlum götum að Kópavogslæk á móts við Fífuhvamm. Síðan átti hann að liggja um mýrina að Nónskarði syðst í Arnarneshálsi á milli Nónhæðar og Hnoðraholts nánast á milli núverandi Búða- og Byggðahverfa í Garðabæ, ekki langt frá Karlabraut. Vegurinn átti þessu næst að fara yfir Arnarsneslæk og um Dýjakróka sem Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði kallaði Kringlumýri. Þaðan var honum ætlað að fara um Bjarnarkrika í suðvesturhorni Vetrarmýrar undir Hofstaðaholti sunnanverðu að Vífilsstaðalæk. Handan hans var vegurinn lagður suðaustan við Miðaftanshól í stefnu á melinn norðan Setbergshamars. Þar átti hann að liggja yfir Kaplakrikalæk í áttina að Sjávarhrauni framhjá þeim stað þar sem Sólvangur er nú og þaðan niður á Hörðuvelli. Þar átti vegurinn að tengjast Lækjargötu en síðan var ætlunin að leggja veg um Almenning á milli Móhálsa og suður með ströndinni um Selvog í Árnessýslu.

Verkið hófst 1. febrúar 1918 og var skipt í tvennt. Hófust verkamenn handa í Sogamýri þennan dag en þeir áttu að leggja veginn suður að Nónhæð, en Hafnfirðingar sem byrjuðu saman dag áttu að leggja veginn frá landamerkjum Fífuhvamms og Arnarness við Nónskarð að Lækjargötu í Hafnarfirði.

Svona var vegurinn hlaðinn upp þar sem gjótur voru í hrauninu.

Vinna Hafnfirsku verkamannanna hófst við Miðaftanshól í Vífilsstaðahrauni, sem þá var aldrei kallað annað en Svínahraun. Sigurgeir Gíslason vegavinnuverkstjóri stjórnaði veglagningunni yfir hraunið í áttina til Hafnarfjarðar, en vinnuflokkur sem Jón Einarsson stjórnaði hélt í austurátt og hófst handa á þeim stað þar sem Reykvíkingarnir ætluðu að enda á mörkum Garðahrepps og Seltjarnarneshrepps.

Báðir verkstjórarnir sem komu að málum Hafnarfjarðarmegin voru vanir vegavinnu, hvort heldur var í nágrenni Hafnarfjarðar eða úti á landi. Sigurgeir hafði stjórnað vinnu við flesta vegi í Hafnarfirði og næsta nágrenni, þ.á.m. þegar Hafnarfjarðarvegurinn var gerður vagnfær sumrin 1887 og 1888 og þegar Suðurnesjavegurinn (Keflavíkurvegurinn) var lagður 1900-1905. Þeir menn sem hann valdi í vinnuflokk sinn kunnu flestir til verka og voru vanir að hlaða grjótbrýr yfir hraungjótur og brjóta niður hraunkletta. Hann réð einnig unga og hrausta pilta til að bera grjótið og mulning á handbörum svo að hleðslumennirnir hefðu ætíð nægan efnivið til að moða úr.

Grjótið í vörðunni á Miðdegishól er fest saman með steinsteypu. á henni stendur ártalið 1900.

Verkstjórarnir fengu 1 krónu á tímann í laun, en þeir sem voru næstir þeim fengu 90 aura á tímann. Venjulegir verkamenn voru með 75 aura á tímann. Kaupið var sæmilegt en vinnan var mjög slítandi og tók verulega á, sérstaklega í þessum mikla kulda. Það sem mestu máli skipti var að þetta var örugg vinna á meðan fjármagnið entist. Þar sem vinnustaðurinn var lengst uppi í hrauni langt frá allri mannabyggð varð mannskapurinn að vera vel mettur þegar lagt var af stað snemma að morgni. Vinnuflokkurinn hittist fyrir framan hús Jóns Einarssonar að Strandgötu 19 í bítið og síðan þræddi hópurinn sig eftir hraunstígum sem verkstjórarnir gjörþekktu upp eftir hrauninu að Miðdegishólnum.

Unnið var án áfláts til klukkan tólf en þá var gert hálftíma matarhlé. Vinnan hófst aftur að því loknu og stóð til klukkan fimm síðdegis. Þegar aðeins var liðið á verkefnið var Sveinn Sigurðsson járnsmiður ráðinn til að skerpa og herða áhöld eins og járnkarla og fleyga. Hann flutti með sér einfalda smiðju til að sinna þessum starfa og var hún fyrst í stað undir berum himni. Ekki leið á löngu áður en vinnuskúr var fluttur upp í hraunið svo að Sveinn gæti sinnt sínu starfi í sæmilegu skjóli, þar sem það gat gustað hressilega og slyddað eða jafnvel snjóað enda var allra veðra von svo snemma árs. Þar kom að annað skýli flutt upp í hraunið og þar gátu vinnuflokkarnir matast til skiptis, en skúrinn var ekki stærri en svo að aðeins annar hópurinn komst þar fyrir í senn.

Vinnuflokkur Jóns Einarssonar náði að Miðaftanshól áður en verkinu var lokið og tók þá til við að aðstoða Sigurgeir og hans menn við vinnuna í

Horft yfir hluta vegarins í áttina að Vífilsstaðahlíð.

hrauninu sem var erfiðari og seinfarnari en vinnan á holtunum og í mýrunum. Þegar fjármagnið var uppurið var þessari vinnu hætt og vegurinn var eins og sérkennileg lína fjarri allri mannabyggð og umferð, þar sem honum var aldrei lokið.

Er glæðast fór aftur um atvinnu gleymdist þetta verkefni og þegar í ljós kom að íslenska þjóðin hafði misst af járnbrautaröldinni féll þetta merka verkefni í gleymsku. Sáralítið er eftir af veginum, eingöngu sá hluti sem er sitthvoru megin við Miðaftanshól. Öðrum hlutum hans hefur því miður verið spillt svo gjörsamlega að það er engu líkara en þessi vegaframkvæmd hafi aldrei átt sér stað.

Þegar farið var að moka burt hrauninu þar sem nú er iðnaðarhverfið í Molduhrauni hafði enginn rænu á að vernda þennan vegaspotta, þrátt fyrir að Ómar Ragnarsson hefði farið þarna um í einum af Stiklu þáttum sínum. Nú eru aðeins fáein ár þar til það litla sem eftir er af veginum verður 100 ára og þá njóta minjarnar sjálfkrafa verndar samkvæmt fornminjalögum. Það breytir ekki því að þessi merki kafli í vegasögu okkar verður áfram í hættu þar sem sveitastjórnir hér á landi eru þekktar fyrir allt annað en fara eftir lögum um fornminjar, náttúrvernd, hvað þá um hverfisvernd sem þær setja sjálfar.   

Jónatan Garðarsson

Heimildir: Blaðagreinar frá 1898-1918

Frásögn Gísla Sigurðsson

One comment

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *