Vel heppnuð ganga um Garða- og Gálgahraun

Fjölmennin kom saman í blíðskapaveðri við innkeyrsluna í Prýðahverfi kl. 14.00 sunnudaginn 28. október 2012 þegar Hraunavinir efndu til gönguferðar um þær slóðir þar sem áætlað er að færa Álftanesveg til norðurs út í Garðahraun.

Jónatan Garðarsson leiddi gönguna og lýsti staðháttum á leiðinni sem gengin  var. Gunnsteinn Ólafsson tónlistarmaður ávarpaði hópinn í upphafi göngunnar og við Kjarvalskletta tók Ólafur Gíslason til máls, en hann var sýningarstjóri sýningarinnar Gálgaklettur og órar sjónskynsins sem sett var upp á Kjarvalsstöðum á liðnu sumri, en þar mátti líta fjölmörg málverk sem Jóhannes Sveinsson Kjarval málaði á þessum slóðum auk verka eftir 20 aðra myndlistarmenn. Háskólakórinn söng tvívegis í göngunni, við upphaf hennar og á Kjarvalsflöt við Kjarvalskletta. Þegar komið var út í mitt hraunið stillti fólk sér upp við sitthvorn jaðar væntanlegs vegar til að sýna hversu breiður vegurinn verður og hversu viðamikil framkvæmdin kemur til með að verða. Undir lok göngunnar þegar komið var að Garðastekk þar sem ætlunin er að vegurinn liggi niður af hrauninu og í áttina að núverandi Álftanesvegi lýsti Pétur Stefánsson formaður Hraunavina þeim hugmyndum sem stjórn Hraunavina lagði fyrir Vegagerðina og bæjaryfirvöld fyrir um það bil þremur árum, um það hvernig lagfæra mætti legu núverandi vegar og gera hann öruggari án þess að fara út í hraunið.     

 

 

One comment

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *