Monthly Archives: janúar 2017

Dómsmál Félagsstarf Málefni

Gálgahúmor í Gaflaraleikhúsinu

Skemmtun til styrktar Hraunavinum

Uppistand og tónleikar til styrktar Hraunavinum verður haldið í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði, mánudaginn 30. janúar kl 20.00. Á skemmtuninni koma fram Ari Eldjárn, Edda Björgvinsdóttir, Svavar Knútur, Björgvin Franz Gíslason, Ómar Ragnarsson, Gunnsteinn Ólafsson og hljómsveitin One Bad Day. Kynnir er Björk Jakobsdóttir. Aðgangseyrir er kr. 3.000 og má bæði kaupa miða á midi.is og í miðasölu Gaflaraleikhússins.

Hraunavinir, með Ómar Ragnarsson í broddi fylkingar, kærðu ríkið fyrir ólöglegar handtökur 21. október 2013. Þá gróf stærsta jarðýta landsins sig í gegn um Gálgahraun undir lögregluvernd svo leggja mætti nýjan Álftanesveg. Þá var tveimur dómsmálum ólokið um lögmæti framkvæmdarinnar og framkvæmdaleyfi löngu útrunnið. Hraunavinir höfðu uppi friðsamleg mótmæli en voru handteknir og færðir í fangaklefa. Hæstiréttur dæmdi nýlega handtökurnar löglegar og að Hraunavinum bæri að greiða kr. 900.000 í málskostnað. Hraunavinir íhuga að fara með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.


Hraunavinir hvetja unnendur náttúru og mannréttinda um allt land að leggja málinu lið. Þeir sem ekki komast á þessa frábæru skemmtun geta lagt inn á söfnunarreikning Hraunavina, 140 05 71017, kt. 480207-1490.

Skrá má sig á Facebook viðburðinn hér:

Gálgahúmor í Gaflaraleikhúsinu

Félagsstarf

Framhaldsaðalfundur Hraunavina 30. janúar 2017

Kæru félagar í Hraunavinum

Framhaldsaðalfundur Hraunavina verður haldinn mánudaginn 30. janúar 2017, kl. 18.00 í Gaflaraleikhúsinu við Víkingastræti í Hafnarfirði (fyrir innan Víkingahótelið/Fjörukrána).

Á aðalfundi félagsins þann 22. október 2016 og voru flest lögbundin aðalfundarstörf afgreidd, en ekki tókst að skipa nýja stjórn. Því var ákveðið að efna til framhaldsaðalfundar í janúar, sem er boðaður hérmeð. Í ljósi þessa hvetur núverandi starfsstjórn félagsmenn til að mæta og ráða framtíð félagsins.

Dagskrá:

  1. Kjör fundarstjóra og fundarritara
  2. Fundargerð síðasta aðalfundar. Umræður og afgreiðsla
  3. Skýrsla stjórnar frá s.l. aðalfundi og umræður
  4. Reikningar, staða og hreifing frá s.l. aðalfundi, umræður og afgreiðsla
  5. Breytingar á lögum félagsins hafi lagabreytingatillögur borist
  6. Kjör stjórnar og skoðunarmanns reikninga
  7. Önnur mál
  8. Fundarslit.

Nokkrir í stjórn félagsins ætla ekki að gefa lengur kost á sér í stjórn og aðrir félagar því eindregið hvattir til að mæta og bjóða sig fram.

Heitt verður á könnum og léttar veitingar á fundinum

Félagsstarf Hraun Málefni Vötn

Vatnsból höfuðborgarsvæðisins í hættu

Hraunavinir ásamt Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands hafa sent kjörnum fulltrúum bæjarstjórna á höfuðborgarsvæðinu og skipulagsstjórum eftirfarandi bréf þar sem vakin er athygli á þeirri hættu sem steðjar að vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins vegna fyrirhugaðar lagningar háspennulína um vatnsverndarsvæði.


3. janúar 2017

Ágæti fulltrúi almennings á höfuðborgarsvæðinu

Vatnsból höfuðborgarsvæðisins í hættu

Hraunavinir og Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands vilja benda þér á þá alvarlegu ógn sem nú steðjar að vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins þar sem fyrirhuguð er bygging tveggja nýrra háspennulína af stærstu gerð, yfir viðkvæmasta hluta vatnsverndarsvæðanna suður af Heiðmörk,
skammt sunnan við sjálf vatnstökusvæðin. Nýverið samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar línulögnina ogþað vekur hjá okkur spurningar um það hvort kjörnir fulltrúar almennings og embættismenn í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki áttað sig á hættunni. Við hvetjum þig til að ígrunda vel afstöðu þína til þessa máls og skoða með opnum huga aðra möguleika til að tryggja annars vegar öryggi vatnsbólanna og hins vegar nauðsynlega raforkuflutninga.
Áformaðar háspennulínur eru í, um og innan við, 2 km fjarlægð frá vatnsbólunum í Vatnsendakrikum og Kaldárbotnum og um 4 km frá Gvendarbrunnum. Auk þess munu línurnar liggja fast við framtíðarbrunnsvæði Hafnfirðinga í Mygludölum. Þorri grunnvatnsins berst úr suðri frá Bláfjallasvæðinu til brunnsvæðanna (Sjá meðfylgjandi kort) sem eru í sprungurein Krýsuvíkureldstöðvarinnar þar sem hún liggur um Heiðmörk. Nyrðri hluti sprungureinarinnar er sýnilegur þar sem sprungurnar eru opnar til yfirborðs en syðri hlutinn er hulinn ungum hriplekum hraunum. Heiðmerkursvæðið er af þessum sökum einstaklega viðkvæmt fyrir hverskyns mengun sem auðveldlega getur borist niður í grunnvatnið og það ekkert síður á hraunasvæðunum þó svo að sprungur sjáist þar ekki á yfirborði. Reyndar má furðu sæta að strangari hömlur hafi ekki verið settar á umferð farartækja um svæðið í ljósi hugsanlegrar olíumengunar. Ljóst er að öll olía og önnur mengandi efni sem berast til grunnvatns sunnan við brunnsvæðin munu berast í vatnsbólin fyrr eða síðar.

Bygging tveggja 400 kV háspennulína 16 km leið um grannsvæði vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins, þar af 10 km yfir viðkvæmasta hluta grannsvæðanna er stóralvarlegt mál. Ljóst er að mengunarslys meðan á framkvæmdum stendur gæti spillt vatnsvernd og vatnstöku á stóru svæði um langan tíma. Auk þess ríkir algjör óvissa um áhrif á vatnsbólin vegna sinkmengunar frá háspennumöstrum.
Bygging háspennulínanna er stórframkvæmd. Þar er m.a. notaður fjöldi vinnutækja á borð við liðtrukka, vörubíla, beltagröfur, steypubíla og krana þar sem hvert tæki um sig er með nokkur hundruð lítra olíutank og því má lítið út af bregða ef slys ber að höndum.  Sérstök ástæða er til að benda á að í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns m.s. br. Segir m.a. um grannsvæði:

„Ekki skal leyfa nýjar byggingar, sumarbústaði eða þess háttar á svæðinu. Vegalagnir, áburðarnotkun og önnur starfsemi innan svæðisins skal vera undir ströngu eftirliti.“

Það má öllum vera ljóst að háspennumastur af stærstu gerð er bygging.
Þá skal bent á að skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd njóta eldhraun sérstakrar verndar og ekki má raska þeim nema brýna nauðsyn beri til.

Línulagning yfir hraun í Húsfellsbruna og bygging tengivirkis í hrauninu í Almenningum vestan Krýsuvíkurvegar munu jafnframt hafa í för með sér afar neikvæð áhrif á náttúru og ásýnd þessara svæða. Á síðustu áratugum hafa verið framin alvarleg landspjöll á hraunum og hraunamyndunum í
upplandi höfuðborgarsvæðisins, m.a. vegna efnistöku, vegagerðar og nýrra byggingasvæða. Iðulega hefur verið gengið fram af meira kappi en forsjá í þessum efnum. Þetta svæði er nú að verða eitt vinsælasta útivistarsvæði íbúa höfuðborgarsvæðisins og gesta þeirra og er því mál að linni hvað varðar óþarfa eyðileggingu hrauna.

Hraunavinir og Náttúruverndasamtök Suðvesturlands setja fram ákveðnar efasemdir um nauðsyn lagningar Sandskeiðslína. Þær línur eru hluti af stærri framkvæmd Landsnets sem ber nafnið Suðvesturlínur og má benda á að Héraðsdómur Reykjaness kvað nýverið upp dóm um að unhverfismat Suðvesturlína sé haldið slíkum annmörkum að óheimilt hafi verið að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 á grundvelli þess. Hæstiréttur hefur einnig fellt bæði eignarnám og leyfisveitingu Orkustofnunar úr gildi vegna þess að aðrir valkostir en háspennulína hafa ekki verið skoðaðir með raunhæfum hætti. Þá verður ekki annað séð en að bygging tveggja 400 kV lína sem mun tvöfalda núverandi flutningsgetu, sé langt fram yfir það sem fyrirsjáanleg þörf krefur. Þegar framkvæmdin var kynnt í upphafi var gert ráð fyrir stórum álverum á Keilisnesi og í Helguvík auk stækkunar álversins í Straumsvík. Ekki hefur orðið af þessum áformum en þau voru forsenda
þarfagreiningar um úrbætur á dreifikerfi raforku til Suðurnesja og því er engin sýnileg þörf á Sandskeiðslínum.

Einnig er ljóst að virkjunarkostir í nýtingaflokki rammaáætlunar gefa ekki tilefni til byggingar þessara lína. Styrking og stækkun núverandi Suðurnesjalínu og nýting raforkuframleiðslu heima í héraði á Suðurnesjum uppfyllir bæði orkuþörf almennings og venjulegrar atvinnustarfsemi á svæðinu um fyrirsjáanlega framtíð. Eins er flutningseta núverandi lína, Hamraneslínu 1 og 2 ásamt Búrfellslínu 3B, nægjanleg fyrir íbúa Hafnarfjarðar, núverandi starfsemi álvers í Straumsvík og aðra atvinnustarfsemi.  Framkvæmdir við Suðvesturlínur yrðu sóun á almannafé og líklegt að almennir neytendur þyrftu að bera kostnaðinn með hækkun á rafmagnsverði.

Við ítrekum loks hvatningu okkar til þín ágæti fulltrúi okkar almennings, og biðjum þig að kynna þér allar forsendur, áhættuþætti og rök varðandi þetta mál. Það er ekki ásættanlegt að kjörnir fulltrúar íbúa, samþykki framkvæmdir sem geta hæglega leitt til þess að neysluvatni almennings verði spillt.

Fylgiskjöl:
Meðfylgjandi kort eru fengin af heimasíðu Orkuveitu Reykjavíkur og úr skýrslu Verkfræðistofunnar Vatnaskila frá árinu 2015: Vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu. Greinargerð um heildarendurskoðun.

Vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu (Vatnsvernd.pdf): Nýtt vatnsverndarkort frá 2015.

Vatnsvernd (pdf)

Líkan af grunnvatnsstraumum (Vatn_straumar_línur.jpg): Inn á kortið hefur verið bætt legu fyrirhugaðra Sandskeiðslína (svört brotin lína) og legu Hamraneslína (rauð lína). Neysluvatnsborholur eru sýndar með rauðum lit. Glöggt má sjá hvernig allt grunnvatn streymir úr suðri undir fyrirhugað línustæði áður en það berst í vatnsbólin.

Kort af Vatnsendakrikum (Vatnsendakrikar.jpg): Lega Sandskeiðslína hefur verið merkt með svartri brotinni línu. Aðstreymi grunnvatns til Vatnsendakrika liggur undir línustæði Sandskeiðslína og
samkvæmt líkani er vatnið aðeins um 4 sólarhringa (100 klst) að berast þaðan í vatnsbólin.

Öllum framkvæmdum þarf að velja stað þar sem grunnvatnsstramar liggja frá vatnsbólunum.

Með bestu kveðjum
fyrir hönd Hraunavina og Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands

Ragnhildur Jónsdóttir, Hraunavinir og Helena Mjöll Jóhannsdóttir, NSVE

Vatnsból höfuðborgarsvæðisins í hættu (pdf)