Monthly Archives: maí 2018

Félagsstarf Hraun

Flugvöllur í landi Hvassahrauns – ganga Hraunavina

Gangan verður 23. maí 2018 kl. 18:00 – 20:00.

Lagt af stað jólatrésborði (merkt með borði og jólatré) við mót Reykjanesbrautar og afleggjara að Hvassahrauni. Gengið verður um 2 km suður í hraunið, u.þ.b. að miðju hugsanlegs flugvallarstæðis. Gert er ráð fyrir að gangan taki um 2 klst.

Í skýrslu stýrihóps um flugvallarkosti á höfuðborgarsvæðinu sem birt var í júní 2015 segir m.a. að Hvassahraun sé sá flugvallarkostur sem hafi mesta þróunarmöguleika til framtíðar, borið saman við aðra flugvallarkosti og að rökrétt sé að kanna fýsileika þess að þróa þar nýjan flugvöll.

Athyglisvert er að í skýrslu stýrihópsins segir að flugvallarstæðið sé í Hvassahrauni. Svæðið heitir hins vegar Almenningur en ekki Hvassahraun. Flugvallarstæðið er aftur á móti í landi eyðibýlisins Hvassahrauns.

Í Landnámabók kemur fram að landnám Steinunnar gömlu hafi verið Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun og að Ásbjörn Özurarson hafi numið land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns. Ljóst er að á ritunartíma Landnámu var litið svo á að Hvassahraun mætti nota sem landamerki og næsta víst að þar er vísað til þess úfna apalhrauns sem nú heitir Afstapahraun. Áður en nútíma vegagerð hófst náði úfið hraunið í sjó fram.

Í riti Sesselju G. Guðmundsdóttur, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, kemur fram að svæðið austan við Afstapahraun, þ.e. milli þess og Kapelluhrauns, heitir Almenningur.

Fyrsta myndin er úr skýrslu stýrihópsins sem gekk undir nafninu Rögnunefnd. Fluvöllur með 2100 m aðalflugbraut er færður inn á loftmynd. Til viðbótar hefur verið settur inn mælikvarði og upphafspunktur göngunnar merktur með stjörnu við afleggjarann að Hvassahrauni.

Flugvallarstæði í Hvassahrauni

Gengið verður suður í hraunið með stefnu austanvert við Fíflavallafjall. Ætlunin er að ganga u.þ.b. inn á mitt flugvallarsvæðið og er leiðin rétt um tveir kílómetrar. Hraunið er fremur auðvelt yfirferðar, að mestu helluhraun með sprungnum hraunkollum og gróðri í lægðum. Á miðri leið er gengið undir Suðurnesjalínu og eftir það að mestu um svæði sem miðað er við að hverfi undir athafnasvæði flugvallarins.

Á leiðinni verður hugað að því hver áhrif slíks flugvallar yrðu á þetta hraunasvæði, umfangi flugvallarins, aðkomuleiðum, þörf fyrir byggingarefni, hugsanlegum námusvæðum o.s.frv.

Á næstu mynd hefur flugvöllurinn verið færður inn á jarðfræðikort Íslenskra orkurannsókna af Suðvesturlandi. Samkvæmt kortinu er flugvöllurinn að öllu leyti í hrauni sem merkt er hrú sem stendur fyrir Hrútagjárdyngja. Talið er að þetta hraun hafi runnið einhvern tíma á tímabilinu fyrir 4000 – 7000 árum frá stórum gíg vestan undir norðanverðum Sveifluhálsi. Þetta hraun myndar alla ströndina milli Straumsvíkur og Vatnsleysuvíkur. Síðar hafa yngri hraun runnið með jöðrum þess allt til sjávar sunnan úr fjallgarðinum. Vinstra megin á kortinu er Afstapahraun sem rann frá gígum vestan undir Núpshlíðarhálsi, líklega fáeinum árhundruðum fyrir landnám og efst í hægra horninu sér á Kapelluhraun sem rann um miðja tólftu öld frá gígum vestan við Undirhlíðar. Minni hraun (gel, tgh) hafa í fyrndinni runnið þvert yfir dyngjuhraunið en í Selhrauni stinga upp kollinum nokkur hraun (se1, se2, se3. se4) sem eru eldri en dyngjan.

Jarðfræðikort – hraun

 

Meðfylgjandi loftmynd sýnir gatnamótin við Hvassahraun. Skammt sunnan við gatnamótin eru einstaklega stórir og glæsilegir hraunkollar. Myndin er fengin af síðunni ja.is (Samsýn) en þar er að finna skýrustu aðgengilegar loftmyndir af svæðinu norðan við háspennulínuna. Bestu loftmyndir af svæðinu í heild eru líklega að vef bing maps: https://www.bing.com/maps

 

Gatnamót við Hvassahraun

Helstu heilmildir:

Jakob Benediktsson (ritstj.) 1986. Landnámabók. Íslensk fornrit, 1. bindi. Hið Íslenzka fornritafélag.

Kristján Sæmundsson, Magnús Á. Sigurgeirsson, Árni Hjartarson, Ingibjörg Kaldal, Sigurður Garðar Kristinsson & Skúli Víkingsson 2016. Jarðfræðikort af Suðvesturlandi, 1:100 000. Íslenskar orkurannsóknir.

Ragna Árnadóttir, Dagur B. Eggertsson, Matthías Sveinbjörnsson & Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir 2015. Flugvallarkostir á höfuðborgarsvæðinu. Sameiginleg athugun ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair group. Skýrsla stýrihóps. https://www.stjornarradid.is/media/innanrikisraduneyti-media/media/frettir-2015/flugvallarkostir.pdf

Samsýn – loftmyndir á ja.is

Sesselja G. Guðmundsdóttur 1995. Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Lionsklúbburinn Keilir.