Category Archives: Greinar

Greinar Hraun Málefni

Íslensk ónáttúra

Ákveðið hefur verið að falla frá öllum málarekstri vegna vegalagningar í Gálgahrauni. Vegagerðin hóf með lögregluvaldi óafturkræf spjöll á hrauninu eftir að dómsmál þar sem tekist var á um lögmæti framkvæmdanna var höfðað og hefur haldið þeim áfram síðan.  Óbætanlegt tjón er orðið staðreynd. read more »

Greinar Hraun Málefni

Áramótahugleiðingar

Mótmæli í Gálgahrauni
Mótmæli í Gálgahrauni

Í haust þegar baráttan um Gálga-Garðahraunið (vegargerð) stóð sem hæst og þörf var á fjölmenni þá reif ég mig upp úr eldhússtólnum og ákvað að hella mér út í náttúruverndarbaráttuna. Nú var lag. Gálgahraunið var nærtækt og einsýnt að ég myndi aldrei verða staðarmótmælandi hvorki í Þjórsárverum, við Langasjó né Hólmsá austur. Nú var tækifærið fyrir mig, 66 ára og búsetta í Mosfellsbæ. Ég taldi einsýnt að fjöldi manns af Reykjavíkursvæðinu myndi taka þátt í mótmælunum því varðstaðan í Hrauninu var nærtæk og brýn, mótmælin þar yrði vendipunktur um varnir Íslands á þessum vettvangi. read more »

Greinar

Grein um náttúruverndarmál úr Fréttablaðinu

Gálgahraun-grein´des.

Greinar

Löskuð ímynd og skertur trúverðugleiki – blaðagrein úr Morgunblaðinu

Hraunavinir-grein 2.. nóv.´13

Greinar

Almannagjá-Gálgahraun

AlmannagjaÁ síðustu vikum hefur dregið til tíðinda í umhverfismálum landsins.  Baráttan um Gálgahraun í Garðabæ kemur til með að marka  djúp spor í náttúruverndarsögu Íslands.  Undirrituð var í fremstu víglínu þegar lögreglan handsamaði og setti í einangrun,  þ. 21. okt. s.l.,  níu Hraunavini en fyrr um morgunin hafði hún  ekið með tugi Hraunavina á lögreglustöðina í Rvík., boðið þeim sektarsátt (10 þús., sem enginn þáði) og sleppt síðan.  Níumenningarnir, handteknir í  annað sinn, voru beittir ótrúlegu harðræði af lögreglumönnum. Myndir af þeim  misþyrmingum verða lagðar til grundvallar kærum sem lögmenn Hraunavina eru með vinnslu.

Fyrir stuttu fékk ég málverk í hendur  (Hreinn Guðm., acryl, 70×100 cm) sem hefur verið nokkra mánuði á trönum en það sýnir Almannagjá framtíðar, ef  fer sem horfir, og  við túlkun þess tek ég  mið af örlögum Gálgahrauns nú.  Málarinn vissi ekkert af Hraunabaráttunni  en hafði í huga grjóthrun úr gjánni sem og sprungur sem nú er búið að ‚yfirdekkja‘ með tréverki;  úr útlendum grenitrjám Skorradals. „Handrið er úr ryðlituðum pípum sem boltaðar eru í brúargólfið en á milli þeirra er strengt net, “.   Nú í nóv. féll grjót úr bergvegg Almannagjár niður á  göngustíginn  fyrir neðan brúargólfið og var lögreglunni tilkynnt um sem og sérfræðingum Ofanflóðaseturs Veðurstofunnar.

Lögreglunni var líka tilkynnt um spjöllin á Gálgahrauni þ. 21. okt. en þar voru Hraunavinir óðara  handteknir og settir í eingangrun.

Náttúrspjöll  stjórnar Garðabæjar verða  ólíkt meiri  en þau sem náttúruöflin  (og menn) hafa unnið á Almannagjá á árunum 2011-2013.  Öryggisráðstafanir Garðabæjar til verndar mannfólki með nýrri vegarlagningu um friðlýst Gálgahraunið vísar  beint til manngerðar framtíðar Almannagjár á Þingvöllum, eins og málverkið sýnir:   Veggir gjárinnar  steyptir upp (eða álgerðir), álrör lagt eftir endilangri gjánni   með rúnnuðum útgönguopum sem og plastgluggum.  Vegfarendur geta ýmist skroppið út úr rörinu  eða tölt um það í skjóli fyrir veðrum og litið  út um gluggana – svona í framhjágöngu.

Óafturkræfar náttúruskemmdir hafa verið unnar í friðuðu Gálgahrauni. Hvað um framtíð Almannagjár á Þingvöllum?

Höfundur greinar: Sesselja G. Guðmundsdóttir, félagsliði, Mosfellsbæ

Höfundur málverks: Hreinn Guðmundsson

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 25. nóv. 2013                                                                                                

Greinar

Bæjarstjóri á Gálgafresti?

Í þeirri baráttu sem staðið hefur yfir um lagningu nýs Álftanesvegar  yfir Gálgahraun, hefur Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, æ ofan í æ haldið því fram að félagið Hraunavinir hafi á sínum tíma samþykkt legu vegarins yfir hraunið. Er þá vísað til bréfs sem stjórn Hraunavina sendi þann 28. maí 2008 til skipulagsstjóra Garðabæjar. Síðast var þetta bréf lagt fram á fundi bæjarráðs 29. okt. sl.

Vegur á allt öðrum stað.

En hvað stendur þá í þessu bréfi og hvers vegna var það sent á sínum tíma? Tilefnið var að eigendur jarðarinnar Selskarðs kröfðust breyttrar legu vegarins í gegnum land jarðarinnar, augljóslega til að fá þar meira byggingarland fyrir sig. Þess vegna auglýsti skipulagsstjórinn tillögu að breyttri legu vegarins. Til upplýsingar þá liggur land Selskarðs utan við Gálgahraun.

Hraunavinum þótti ástæða til að skoða málið og í umræddu bréfi segir m.a.:

,,Hin nýja tillaga gerir ráð fyrir því að hinn nýi Álftanesvegur sveigi inn í væntanlega byggð á Garðaholti, kljúfi hana og liggi gegnum byggðina á alllöngum kafla”. Síðar segir: ,,Þegar og einkum af þessari ástæðu teljum við ríka ástæðu til að andmæla hinni framkomnu tillögu”.

Til upplýsingar þá er gert ráð fyrir því í aðalskipulagi Garðabæjar, að á Garðaholti rísi íbúabyggð með þúsundum íbúa. Eigendur Selskarðs vildu losna við veginn úr sínu landi og láta hann í þess stað liggja að hluta í gegnum fyrirhugað byggingarland Garðabæjar á Garðaholti, en það land er í eigu bæjarins.

Nú reynir hinn rökþrota bæjarstjóri að klína því á Hraunavini, að félagið hafi á sínum tíma samþykkt legu hins umdeilda vegar yfir Gálgahraun eða Garðahraun eins og bæjarstjórinn vill kalla það. Þvílík fjarstæða.

Skömmu eftir stofnun Hraunavina í apríl 2007, fór stjórn félagsins í gönguferð að hinum svokölluðu Kjarvalsklettum í Gálgahrauni ásamt bæjarfulltrúum og æðstu embættismönnum Garðabæjar. Þá stóð til að úthluta 10-12 lóðum til viðbótar í Prýðishverfinu norðan núverandi Álftanesvegar m.a. þar sem Kjarvalsklettar eru. Eftir þessa gönguferð hurfu þessar lóðir þegjandi og hljóðalaust út af skipulagi Garðabæjar. Svo leit út um tíma að ráðamenn bæjarins ætluðu að hlífa hrauninu við frekara raski.

read more »

Greinar

Sóðaskapur fyrir sjötíu árum

Sóðaskapur og ruslaragangur í umgengni við hraunin í nágrenni Hafnarfjarðar virðist eiga sér býsna langa sögu og ekki sér fyrir endann á þessari ónáttúru sem virðist hrjá suma landsmenn að nota hraunin sem ruslakistu. Fyrir sjötíu árum, nánar tiltekið haustið 1943 kom upp mál þar sem starfsmenn Sambands íslenskra samvinnufélaga voru sakaðir um að fyrirkoma kjötvörum í hraununum í nágrenni Hafnarfjarðar. read more »

Greinar

Gönguför í Gálgakletta

Hér birtist frásögn eftir Guðrúnu Sveinsdóttur sem prentuð var í blaðinu Melkorku 10. árgangi, 2. tölublaði árið 1954:

Gálgaflöt og GálgaklettarÁ Álftanesi við Arnarnesvog er Gálgahraun. Fram við sjóinn, beint á móti Bessastöðum gnæfa Gálgaklettar. Við klettaræturnar þekur grasið gömul tóftarbrot. Í klettaskorum vex ljónslöpp, tófugras, burkni, þursaskegg o.fl. Efst uppi situr svartbakur, einn síns liðs, en annars er hér urmull fugla. Í sandbleytunni og smá tjörnunum, sem útfirið hefur skilið eftir, á milli grasigróinna sandbala, vaða stelkar og sendlingar, en í þangbendunni, sem öldurnar hafa skolað langt upp á land, gösla úfnar og óhreinar rolluskjátur með lömbin sín. Smáfuglar þjóta milli klettanna, sem endur fyrir löngu báru uppi líkama ógæfusamra vesalinga, sem mannanna réttlæti dæmdi til lífláts á þessum stað. read more »

Greinar

Sköpunarverkið, hraunið mitt hrjúfa

Stutt samantekt um Konráð Bjarnason tónlistar- og fræðimann sem unni Gálgahrauni og orti fallegt ljóð um hraunið.

Kofatoft vid EskinesKonráð Bjarnason frá Þorkelsgerði í Selvogi hafði sérstakt dálæti á Gálgahrauni en hann bjó síðustu ár ævi sinnar í Garðabæ og Hafnarfirði. Konráð ólst upp á mannmörgu heimili við sjávarsíðuna í Selvogi en hann átti 16 systkini, tvö dóu í æsku en hin komust til manns. Faðir Konráðs var Bjarni Jónsson sjálfseignarbóndi og útvegsmaður og móðir hans var Þórunn Friðriksdóttir sem var lærð ljósmóðir. read more »

Greinar

Keyrt á Kjarvalskletta

Fyrir skömmu skrifaði sá mæti verkfræðingur, Jónas Frímannsson grein í Morgunblaðið og gerði fyrirhugaðan nýjan Álftanesveg að umtalsefni. Greinin er skrifuð út frá sjónarmiði bíleigenda, sem aka um landið og virða útsýnið fyrir sér út um bílrúðurnar. Jónas sá þann kost mestan við nýjan veg um Gálgahraun (líka kallað Garðahraun), að þá gæfist svo gott tækifæri að horfa yfir Gálgahraunið, rifja upp sögur af sakamönnum sem hengdir voru í Gálgaklettum og hafa svo Bessastaði í baksýn. Þessi upplifun væri gott nesti í heimsóknum á forsetasetrið og kjörið umræðuefni við forsetann. 

Jónas nefndi í þessu samhengi, Höfðabakkabrúna yfir Elliðaárdalinn sem margir hefðu mótmælt, en allir væru sáttir við í dag, enda nyti fólk útsýnis yfir dalinn. Ég held nú að flestir séu fullhertir með að fylgjast með umferðinni á brúnni, en bæti sér það kannski upp með gönguferð um Elliðárdalinn.

En hvað um það.  Ýmsir muna kannski líka eftir umræðunni um lokun vegar um Almannagjá og fólk gæti ekki notið þess lengur að aka niður gjána og horfa út um bílrúðurnar. En gjánni var lokað fyrir bílum og nú er Almannagjá, líklega vinsælasta gönguleið á Íslandi. Engum myndi detta í hug nú að taka aftur upp bílaakstur um gjána, enda líka varasamt eins og dæmin sanna. Og hverjum myndi t.d. detta í hug að leggja veg gegnum Dimmuborgir í Mývatnssveit? Kæmist slík hugmynd í umræðu, myndi sá sem hampaði henni, ekki aka óhultur um Mývatnssveit ef ég þekki Mývetninga rétt.

Það var léttur húmor yfir grein Jónasar Frímannssonar, en það sama verður ekki sagt um bæjarstjórann í Garðabæ, sem í sjónvarpsviðtali, notaði sömu rök og Jónas, graf alvarlegur í bragði. Vegurinn sem átti að flýta för fyrir Álftnesinga og auka jafnframt á umferðaröryggi, var kynntur sem útsýnisvegur, þar sem njóta mætti Kjarvalskletta við vegbrúnina.

Fram að þessu hefur allur málflutningur gegn núverandi vegi byggst á því að hann væri svo hættulegur og slysagildrur við hvert bílmál (fótmál). Halda menn virkilega að bílstjórar sem horfa á aðra hönd á Kjarvalskletta og á hina til Bessastaða og Gálgakletta, auki á umferðaröryggið? Ekki einu sinni útskot eru sjáanleg á teikningum.  Reyndin yrði líklegast sú með nýjum vegi, að það verði frekar gefið í í hrauninu og tæpast mun hraunið hlífa þeim sem út af lenda. Ef einhver skynsemi er til staðar, ætti frekar að minnka umferðarhraða á nýjum vegi s.s. með ljósum, hringtorgum og þrengingum.  Og allt þetta er auðveldast að gera á núverandi en endurbættum vegi.

Það er nú orðið fátt um rök hjá ráðamönnum Garðabæjar fyrir fyrirhuguðum vegi um Gálgahraunið. Þvergirðingsháttur meirihlutans ræður för og ekki er hlustað á neinar tillögur og sáttaleiðir. En það er alltaf ljós í myrkrinu. Vonandi sér meirihlutinn í bæjarstjórn Garðabæjar, ljósið von bráðar. Það er betra en að ,,keyra á Kjarvalskletta”.

Reynir Ingibjartsson,

formaður Hraunavina.