Afhjúpun gönguleiða skilta

Meðal þeirra verkefna sem Hraunavinir hafa unnið að síðustu mánuði er gerð tveggja skilta sem sýna fornar leiðir í Gálgahrauni. Stjórn félagsins hefur unnið að þessu máli í góðri samvinnu við Umhverfisnefnd og  bæjarstjórn Garðabæjar. Nú er verkefnið komið á það stig að afhjúpun fer fram fimmtudaginn 25. ágúst kl. 17.00. Athöfnin verður í hraunjaðri Gálgahrauns á móts við hringtorgið á mótum Hraunsholtsbrautar og Vífilsstaðarvegar vestan við Sjálandshverfið í Garðabæ.

Hraunavinir hafa lagt sig fram um að kynna Gálgahraunið á undanförum árum og boðið upp á gönguferðir og fræðslu sem margir hafa nýtt sér. Gerð var tilraun vorið 2010 sem fólst í að Hraunavinir komu fyrir einföldum gönguleiðakortum og vegvísum á nokkrum stöðum til að auðvelda göngufólki að finna gamlar götur og slóða í hrauninu. Mæltist þetta vel fyrir og í framhaldinu hófust viðræður milli stjórnar félagsins og bæjaryfirvalda um það hvernig standa mætti að varanlegri skiltagerð og merkingu götuslóðanna. Nú eru skiltin tvö tilbúin og búið að stika hluta þeirra leiða sem liggja um hraunið. Unnið verður að því að stika þær allar þegar fram líða stundir og síðan verður árangurinn metinn.

Hraunavinir er félagsskapur áhugafólks sem vinnur í sjálfboðavinnu en félagsgjöld eru ekki innheimt þannig að fjárhagur félagsins er takmarkaður. Þegar bæjaryfirvöld höfðu samþykkt að Hraunavinir mættu koma fyrir varanlegum skiltum í jaðri Gálgahrauns var næsta verkefni að tryggja fjármögnun. Leitað var til fyrirtækja í Garðabæ og tóku forráðamenn Ikea, Marels og Íslandsbanka beiðni félagsins af miklum höfðingsskap. Hraunavinir eru þessum aðilum afar þakklátir fyrir stuðninginn því án aðkomu þeirra hefði ekki verið hægt að standa jafn myndarlega að verki og raunin er.     

Að afhjúpun lokinni verður boðið upp á hressingu og síðan geta viðstaddir haldið í göngu um Gálgahraun og notið leiðsagnar staðkunnugra. Það er von Hraunavina að skiltin komi sem flestum að notum og auðveldi aðgengi að þessari söguríku og áhugaverðu útivistarperlu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *