Ákall – Verndum Gálgahraun

Grafa í Gálgahrauni 004Að morgni föstudagsins 13. september var farið með skurðgröfu inn í Gálgahraun og þar hafa verið unnar óafturkræfar skemmdir, sem sjást hér á meðfylgjandi ljósmyndum. Þetta er mjög nálægt fornminjunum Garðarstekk og gömlu fjárborginni, sem eru merkar minjar og gamalli þjóðleið sem hefur sögulegt gildi. 

Tökum höndum saman  –  Verndum Gálgahraun

Gálgahraun1Gálgahraun2Sýslumaðurinn í Reykjavík hefur hafnað beiðni fernra umhverfisverndarsamtaka um lögbann á lagningu vegar í Gálgahrauni þar sem samtökin eigi ekki lögvarða hagsmuni í málinu. Kæra vegna þessarar synjunar sýslumanns hefur þegar verið lögð fram til úrlausnar héraðsdóms.

Ennfremur er nú rekið mál fyrir héraðsdómi Reykjavíkur á hendur vegamálastjóra til viðurkenningar á ólögmæti vegaframkvæmdanna.

Á sama tíma eru framkvæmdir hafnar við fyrirhugaðan Álftanesveg og aðeins dagaspursmál hvenær farið verðGrafa í Gálgahrauni 006ur að mylja hraunið undir veg.

Til að mótmæla þessu ætla hraunavinir að safnast saman í Gálgahrauni á sunnudaginn kemur, 15. september kl.tvö (14.00) og koma fyrir fánum í fyrirhuguðu vegstæði Álftanesvegar.

Safnast á saman við innkeyrsluna í Prýðishverfi (Gálgahraun) norðan núverandi Álftanesvegar.

Þátttakendur eru hvattir til að hafa með sér íslenska fána, en auk þess verða grænir fánar til staðar. Gengið verður frá hringtorgi við Hraunsholtsbraut og fánum komið fyrir og að Garðastekk, vestan Gálgahrauns.

Næsta dag, mánudaginn 16. september er Dagur íslenskrar náttúru og afmælisdagur Ómars Ragnarssonar. Það er mikilvægt að allir velunnarar Gálgahrauns og um leið íslenskrar náttúru, taki forskot á sæluna og mæti með fána í hönd til verndar Gálgahrauni og öðrum náttúruverðmætum á Íslandi.

Um leið verður að standa vörð um rétt umhverfisverndarsamtaka á Íslandi til aðgangs að réttarúrræðum í málum sem þessum í samræmi við ákvæði EES-samningsins og Árósasamningsins sem Ísland hefur fullgilt. Mál fernra samtaka um ólögmæti framkvæmda í Gálgahrauni er því prófmál sem varðar alla umhverfisverndarsinna.

Búið er að veita á fjárlögum ríkisins á annan milljarð króna í fyrirhugaðan Álftanesveg. Hraunavinir hafa lagt það til við hagræðingarhóp ríkisstjórnarinnar, að spara skattborgurunum þessi útgjöld. Best væri þó að verja þessum fjármunum til Landsspítalans og hugsanlega um leið að bjarga mannslífum.

Látum þetta neyðarkall úr Gálgahrauni berast og fjölmennum þangað á sunnudaginn kl. 14.

Bílastæði má finna við gatnamótin í Prýðishverfið og eins norðan Hrafnistu.

Hraunavinir.

Grafa í Gálgahrauni 001

 

One comment

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *