Fréttir af aðalfundi

Aðalfundur Hraunavina var haldinn í Haukshúsi á Álftanesi laugardaginn 6. nóvember og var vel sóttur. Fundarstjóri var Janus Guðlaugsson, ármaður á Álftanesi. Fráfarandi stjórnarmenn gáfu allir kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og voru þeir endurkjörnir. Þeir sem skipa stjórnina eru: Pétur Stefánsson og Þorsteinn Þorsteinsson úr Garðabæ, Ólafur Proppé af Álftanesi og Jónatan Garðarsson og Reynir Ingibergsson úr Hafnarfirði. Stjórnin mun skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi. Ármenn voru allir endurskipaðir.

Fram kom á aðalfundinum að starfið hefði að mestu snúist um að fylgjast með skipulagsmálum og að hvetja sveitastjórinir til að auka samstarfið við íbúana og vinna að skráningu og merkingu náttúru- og söguminja. Stjórnin átti gagnlegt og upplýsandi samstarf við sveitarstjórnirnar á félagssvæðinu og fundaði auk þess með Umhverfisráðherra um Árósarsamþykktina. Félagið efndi til vettvangsgöngu um Almenning á þeim slóðum þar sem ætlunin er að setja upp umfangsmikið spennivirki og leggja nýja Suðvesturlínu.

Heiðmerkurhlutinn í landi Garðabæjar

Tvö fróðleg erindi um skipulagsmál voru haldin á fundinum. Þráinn Hauksson landslagsarkitekt hjá Landslagi kynnti þá vinnu sem átt hefur sér stað í Garðabæjarhluta Heiðmerkur en Vífilsstaðahlíðin, Hjallaflatir, Grunnuvötn og Vífilsstaðavatn tilheyra þessum landshluta. Vinnan er vel á veg komin en alls ekki lokið og er áhersla m.a. lögð á fjölgun gönguleiða. Eitt af því sem er í deiglunni er útilífsmiðstöð á Hjallaflötum en margt fleira er í skoðun. Jarðfræði svæðisins og skjólsæl skógarbelti hafa mikið aðdráttarafl og með sívaxandi útivist aukast kröfur fólks um bætt aðgengi. Þráinn fjallaði einnig um Bláþráðinn, stíg sem byrjað er að leggja með strandlengjunni og Græna stíginn sem ætlunin er að leggja milli Kaldársels og Kjalarness með tengingar frá byggðunum á höfuðborgarsvæðinu.  

Garðahverfið

Halldóra Hreggviðsdóttir og Heiða Aðalsteinsdóttir frá Alta fóru yfir helstu þætti sem verið hafa ofarlega á baugi í tengslum í tengslum við deiliskipulagsvinnu Garðahverfis á Garðaholti, eins og gamla byggðin umhverfist Garðakirkju nefnist. Þar eru merkar búsetu- og byggðaminjar á hverju strái sem ástæða þykir til að varðveita fyrir komandi kynslóðir. Landsvæðið er einstaklega vel fallið til landlæsis því þar er heildstæð byggðamynd, garðhleðslur og búsetuminjar auk aðgengilegra heimilda um mannlíf og búsetu sem auðvelt er að miðla. Þar fyrir utan auðvelt að skoða jarðfræði svæðisins og  náttúruna að ekki sé talað um fjölskrúðugt fuglalíf sem dregur að fugla áhugafólk árið um kring. Þá er Garðaholtið kjörið til stjörnuskoðunar því þar er ljósmengun óvenju lítil miðað við nálægðina við þéttbýlið sem er á næsta leyti. Margskonar hugmyndir um miðlun og aðgengi að svæðinu hafa verið ræddar í tengslum við þessa vinnu sem er ekki alveg lokið þó hún sé komin langt. Fundargestir fögnuðu því að fá tækifæri til að fylgjast með þessari vinnu og spurningum rigndi yfir fyrirlesarana.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *