Gönguleið með ströndinni milli Straums og Lónakots

Straumur og Straumsvík, séð frá Litla Lambhaga

Gamla byggðin sem var í Hraunum við Straumsvík er fyrir löngu farin í eyði en þar er sitthvað forvitnilegt að sjá. Mannvistarminjar, gróið hraun, merkileg fjara og margt annað. Þarna voru um aldir nokkur smábýli þar sem byggt var á sjósókn og búskap. Norðan Reykjanesbrautar voru flest býlin en einnig voru nokkur sunnan brautarinnar. Enn sunnar í svonefndum Almenningi voru selstöður kotanna í Hraunum, fjárskjól í hellum og skútum, grösug beitilönd og svonefndir Almenningsskógar. Þeir voru nýttir til fjárbeitar og kolagerðar en einnig kom fyrir að hægt var að taka þar stórviði til húsagerðar.

Það er vel þess virði að sveigja til norðurs út af Reykjanesbraut þegar komið er framhjá álverinu, aka niður að Straumi og leggja bílnum þar. Þegar komið er út úr bílnum er hægt að taka stefnuna til suður upp í Almenninginn þar sem t.d. má finna tóftir aflagðra selja sem eru um 3-4 km sunnan brautarinnar. Þeir sem kjósa að rölta með strandlengjunni geta þrætt gamalgróna slóð sem liggur suður með sjó. 

Gamla eldhúsið við Litla Lambhaga

Haunamenn höfðu nóg að bíta og brenna svo lengi sem jarðbönn komu ekki í veg fyrir beit og fiskgöngur á grunnslóð brugðust ekki. Sauðfé var á útigangi árið um kring, ýmist suður í Almenningi eða á fjörubeit. Flestir kotungar reru til fiskjar á kænum sínum og sóttu björg í greipar ægis enda var sjósókn Hraunamönnum nauðsynleg til lífsviðurværis. 

Það er margt sem minnir á forna búskaparhætti í Hraunum og víða hægt að rekast á hlaðna vörslugarða, húsatóftir, stekkjarbrot, kvíar, réttir, náttból, smalaskjól, fjárhella, brunna í ferskvatnstjörnum, uppsátur, skiptireiti, fiskhjalla, varir og forna götutroðninga. Hér verður sjávarleiðinni að Lónakoti lýst og hefst gangan á bæjarhlaði Straums, en þar er margt að sjá sem ekki verður nánar lýst hér. 

Leiðin að Langakletti

Þýskubúðarvör

Gengið er stuttan spöl eftir vegaslóða frá Straumi og stefnan fljótlega tekin út af honum þar sem vegvísir sýnir leiðina að Langakletti. Gengið er eftir troðningi að Landabyrgistanga sem stendur varla lengur undir nafni. Tanginn skagaði fram í Straumsvík en sjórinn hefur brotið verulega af honum og hreinsað allan gróður af klettunum sem líkjast helst flæðiskeri. Nafn sitt dregur tanginn af löngu horfnu fiskbyrgi, en munnmæli herma að þýskir farmenn hafi reist kaupbúðir sínar á tanganum á 15. öld áður en þeir hófu verslunarrekstur á Háagranda í Hafnarfirði.

Nú er Þýskubúð að falli komin

Nokkru norðar er hálfhrunið hús sem nefnist Þýskubúð, gömul hjáleiga í Straumslandi. Umhverfis heimatúnið er fallinn túngarður sem var rammgerðastur sjávarmegin kotsins. Þar hefur garðinum ekki verið haldið við um áraraðir en samt markar enn fyrir honum þó förugrjótið sé á góðri leið með að kaffæra hann. 

Þegar farið er yfir lágan hraunhrygg er komið að tóftum Jónsbúðar sem var hjáleiga frá Straumi. Það sést á tóftunum að Jónsbúð hefur verið lítill torfkofi, keimlíkur mörgum öðrum sem holað var niður í skjólsælum stöðum í námunda Hafnarfjarðar á 18. og 19. öld. Þekjan er löngu fallinn en tóftirnar eru frekar heillegar þar sem vélvæðingin hefur ekki komið nærri þessum stað. Framan við kotið var Jónsbúðarvör til hliðar við Skötukletta sem skaga fram í víkina. Jónsbúðartjörn var vatnsból þeirra sem bjuggu í kotinu, sem mun hafa farið í eyði stuttu eftir 1910. Það gætir sjávarfalla í tjörninni sem þornar alveg á fjöru. Tveimur tímum eftir að sjávarflóðið hefur náð hámarki sínu byrjar að hækka í tjörninni. Þá er vatnið ferskast og þessvegna var þess jafnan gætt að sækja vatn í brunninn á aðfallinu.  

Hér starfaði Guðmundur bátasmiður í marga áratugi

Farið er framhjá Jónsbúðartjörn og klofnum kletti sem nefnist Markhóll, síðan vestan Vatnaskersklappar um grasi gróinn hvamm sem nefnist Bakkatún. Það er ótrúlegt að ímynda sér að þetta hafi verið slægjuland kotkarla í Hraunum sem nýttu hverja þúfu.  Sjávargatan þræðir grasbakkann ofan fjörunnar austan við vandaðann grjótgarð við austurmörk heimatúns Óttarstaða. Í fjörunni er skipsskrokkur í nokkrum hlutum sem rak á land eftir að hafa verið sökkt í djúpið til úreldingar. Á þessum slóðum bjó bátasmiðurinn Guðmundur sonur Sigurðar Kristins Sigurðssonar síðasta bóndans á Óttarstöðum eystri og konu hans Guðrúnar Bergsteinsdóttir. Guðmundur hélt lengst allra tryggð við Hraunin. Hann smíðaði hér báta sem þóttu eftirsóknarverðir og hleypti þeim af stokkunum í Óttarstaðavör. Þegar Guðmundur lést 1985 var íbúðarhúsið jafnað við jörðu eftir að kveikt hafði verið í því.

Eyðikotið, sem var um tíma sumarhús, en upphaflega býli.

Óttarstaðavör er í vari við skerjatanga sem gengur út í sjóinn og nefnist Innri- og Ytri hólmi. Þessir hólmar voru grasi vaxnir í eina tíð og sótti sauðfé mjög í hólmana á vetrum. Vestur af hólmunum er Eyðikotið með þremur burstum, gömul þurrabúð sem var breytt í sumarhús um miðja 20. öld og síðan jafnan nefnt Litlibær. Óttarstaðabæirnir voru tveir enda tvíbýli lengstum. Tvílyft íbúðarhús eystri bæjarins sem hefur verið í eyði frá 1952 er mjög illa farið.

Bergsteinn Sveinsson merkti bæjardyr Eyðikotsins árið 1865 þegar hann gerði bæinn upp.

Spölkorn frá standa steinlímdir veggir Gíslatóftar án þekju. Þetta var útieldhús Óttarstaða eystri og á milli íbúðarhúss og eldhúss er brunnurinn. Báðir bæirnir stóðu á sama hólnum og snéru austur og vestur en rétt fyrir aldamótin 1900 var tvílyfta húsið byggt úr kjörviði sem rak á land eftir að kaupskipið Jamestown strandaði suður við Stafnes og eystri bænum þá breytt í fjárhús.

Óttarstaðir eystri og Fiskhóll. Álfakirkjan er framan við Óttarstaðahúsið.

Vesturbærinn er vel varðveittur og eigendum sínum til sóma. Burstabærinn er í eigu afkomenda Guðmundar Ingvarssonar og Áslaugar Jónsdóttur sem stunduðu búskap á Óttarstöðum frá 1918 til 1966, er þau létust með stuttu millibili. Húsið er nú sumarhús en búskapur hefur lagst af á þessum slóðum. Lengi vel voru þarna fáeinar sauðkindur af Hraunakyni, sem undu heimahögunum vel og vildu hvergi annarsstaðar vera.   

Óttarstaðir vestri, gamli burstabærinn.

Stórgrýtt fjaran sem liggur að Langakletti við vestur túngarðinn nefnist Langibakki. Þar stóð eitt sinn fjárhús sem eyddist í stórflóði, sennilega 1957. Þegar horft er til suðurs blasa við klofnir klettar ofan vesturbæjarins og á einum þeirra er varða. Nefnist sá klettur Miðmundarhæð, sem er eyktarmark frá Óttarsstöðum. Á leiðinni að vestur túngarði eru nokkrir klettar sem skaga fram í sjóinn. Þeir heita Arnarklettur, Hrúðurinn, Langiklettur, Pálsklettur og Einbúi sem er sker framan við Langaklett. 

Ferskvatnstjarnir við Lónakot

Arnarklettur, Langiklettur, Einbúi og Hrúðurinn.

Þegar komið er vestur fyrir túngarðinn blasir Bletturinn við, sem er sæmilegur grasbali og ofan hans er Stekkurinn. Aðeins utar er laut og sveigir stígurinn fyrir hana og nefnist þar Bogafar. Það er gömul hjátrú að eitthvað óhreint sé á sveimi á þessum stað því það slökknaði ætíð á olíuluktum í gamla daga þegar farið

Söndur skammt frá Norðurfjárhúsum Lónakots.

var um Bogafarið eftir að skyggja tók. Þó nokkru vestar gengur Björnshella fram í sjóinn, en það er slípuð hraunklöpp ekki allfjarri grónum sandbakka sem nefnist ýmist Söndur eða Sandar, eftir því hvort Lónakotsmenn eða Óttarsstaðabændur áttu í hlut. 

Hér er komið í Lónakotsland og stutt í Norðurfjárhúsin sem standa á sjávarbakkanum norðan við Krumfót, klapparhól sem er líka nefndur Vökhóll og Sönghóll. Framundan fjárhústóftinni liggur Lónakotsnef fram í sjóinn. Með ströndinni var tvíhlaðinn sjávargarður til að verja túnið en nú er aðeins lítill hluti eftir af honum því sjórinn hefur brotið hann að mestu niður á síðustu áratugum.   

Norðurfjárhúsin í landi Lónakots, skammt frá Krummhól.

Síðustu ábúendur í Lónakoti voru Guðlaugur Sveinsson og Guðríður Jónsdóttir sem seldu jörðina 1939. Síðan hafa nokkrir aðilar skipt jörðinni með sér og stundað þar frístundabúskap. Lónakot er nú að nokkru leyti í eigu Hafnarfjarðarbæjar þó Kornelíus Jónsson og afkomendur hans eigi enn góðan skika og stundi fjárbúskap á sínum hluta landsins.   

Tóftir bæjarins eru vel sýnilegar á Bæjarhólnum norðan

Lónakotsbærinn er fallinn, en hlaðnir veggir sjást enn. Norðurfjárhús og Krummhóll í fjarska.

Lónakotsvatnagarða. Áður hafði bærinn staðið um aldir sunnan við Suðurhliðið í Kotagerði, en þegar skarlatsótt kom upp á bænum árið 1900 lét landlæknir brenna húsin. Bærinn var síðan byggður að nýju á Bæjarhólnum, sprungnum hól í miðju túni við Norðurtjörn. Þar stóð bærinn heldur þröngt og var nýttur til sumardvalar eftir að búskap lauk í Lónakoti. Nokkru eftir miðjan sjöunda áratuginn féll þekjan og eftir það hrundu veggir og veðrið sá um að eyða því sem eftir var á skömmum tíma. 

Norðurtjörn er nyrsti hluti Lónakotsvatnagarða, sem eru einnig nefndir Lónakotstjarnir og Lónakotslón eða einfaldlega Lónin. Þetta eru ferskvatnstjarnir þar sem sjávarfalla gætir, en vatnið flýtur ofan á jarðsjó sem liggur undir öllu Reykjanesi. Tjarnirnar áttu án nokkurs vafa stóran þátt í því að þarna hélst búseta öldum saman, þar sem óvíða á svæðinu er jafn auðvelt aðgengi að fersku vatni.

Vatnagarðafjárhellir við Lónakotsvatnagarða, sem var stundum nefndur Hausthellir.

Lónakotsbrunnur var grafinn í leirlag í Norðurtjörninni, rétt sunnan bæjarhólsins. Lónin eru víðáttumikil og austast í þeim, þar sem tjarnirnar liggja á landamerkjum Lónakots og Óttarstaða er Vatnagarðafjárhellir í skúta sem hlaðið hefur verið fyrir.  Hann var notaður til að brugga ólöglegan mjöð á bannárunum, en bruggstöðin fannst aldrei þrátt fyrir að mikil leit væri gerð að henni. Í skútanum eru örlítið eftir af bruggtunnunni sem var gerð úr timbri og líktist einna helst síldartunnu. Þetta var ekki eini brugghellirinn á þessum slóðum.

Hægt er að lesa nánar um Lónakot og leiðina að Hvassahrauni annarsstaðar á þessari síðu.

Jónatan Garðarsson

Heimildir:

Örnefnaskrá Straums, Gísli Sigurðsson og Sigríður Jóhannsdóttir

Örnefnaskrá Óttarstaða, Gísli Sigurðsson og Sigríður Jóhannsdóttir

Örnefnaskrá Lónakots, Gísli Sigurðsson og Ari Gíslason.

Íslenskir sjávarhættir IV, Lúðvík Kristjánsson.

Munnlegar heimildir: Jónína Björg Guðlaugsdóttir frá Lónakoti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *