Listin í hrauninu

Myndlistarmenn leita oft fanga í nánasta umhverfi sínu að fyrirmyndum til að mála eða nota liti og form náttúrunnar til að vinna óhlutbundin listaverk. Stundum orka fyrirmyndirnar svo sterkt á listamenn að þeir dragast að þeim aftur og aftur. Sama á við um útivistarfólk sem sækist eftir því árið um kring að komast aðeins út í óbyggðir til að dást að listasmíð náttúrunnar sem getur verið svo gefandi á margvíslegan hátt. Allsstaðar eru heillandi staðir sem veita innblástur og eru nærandi fyrir líkama og sál, ef maður gefur sér smá tíma til að gaumgæfa og njóta þess sem í boði er á hverjum stað á mismunandi árstímum. Slíkir staðir þurfa ekki að vera svo langt í burtu því stundum nægir að fara rétt aðeins út fyrir byggðamörkin til að finna heillandi náttúru, merkar minjar, fagurt landslag, skjólsæla laut eða góða útsýnisstaði, allt eftir því hvernig liggur á manni.    

Jóhannes S. Kjarval var í hópi brautryðjendanna sem sýndu landsmönnum fram á að hraun er ekki bara hraun og fjall er ekki bara fjall. Hann var náttúrubarn sem skynjaði svo margt í landslaginu. Hann heillaðist af svipmikilli náttúrunni og valdi sér staði þar sem hann gat unað við að mála í friði og ró. Hann kunni að lesa í náttúruna og notfæra birtuspil, ljós og skugga og litbrigði náttúrunnar til sköpunar magnaðra málverka. Kjarval notaði ekki bara fallega sumardaga til að mála því hann átti það til að mála í dumbungi þegar skýin hrönnðust upp eða að vori þegar snjór var ennþá í fjöllum. Hann málaði einnig í haustbirtunni og átti það til að draga upp myndir sínar um hávetur ef því var að skipta.

Kjarval átti sína uppáhaldsstaði og margir kannast við svipmiklar Þingvallamyndir hans sem sýna ólík sjónarhorn, fjöllin í kringum staðinn, gjárnar, hraunið, vatnið, Öxarárfoss eða mismunandi lagaða kletta og hraunbreiður. Hann fór víða um landið í leit af mótífum, fjöllum, dölum, ám, lækjum og grónum reitum til jafns við eyðistaði. Hraunlandslagið varð eitt af helstu stefjum Kjarvals í myndlistinni enda hafði hann næmt auga fyrir sérkennilega löguðum hraunklettum og sá í þeim kynjamyndir sem aðrir sáu ekki fyrr en hann hafði fest þær á léreft. Mosinn varð annað og meira en grámóska í verkum hans og margskonar lyng, grastór, skófir, fléttur og smágerður blómgróður íslenskrar náttúru breyttust í ævintýraheima í litasinfóníu hans.   

Kjarval leitaði víða fanga og fór í langar ferðir austur á land á heimaslóðir sínar og málaði mikið á Borgarfirði eystri og málaði hin dulúðugu Dyrfjöll sem hann þekkti svo vel. Hann dvaldi um skeið í Skaftafellssýslu, fór líka á Hekluslóðir og um Vesturland og nágrenni Skagastrandar. Snæfellsnesið varð að ævintýralandi í höndum hans þar sem ströndin og hraunið mynda óvenjulegar náttúrumyndir.

Kjarval átti ekki bifreið en notaði þjónustu atvinnubílstjóra til að komast á milli staða. Hann bjó lengst af í Reykjavík og málaði Esjuna frá ýmsum sjónarhornum eða málaði það sem fyrir augu bar á Hellisheiði, við Rauðhóla, undir Vífilsfelli og í Svínahrauni. Hann kom víðar við og svo voru mannamyndirnar og teikningarnar heill kapítuli út af fyrir sig.  

Kjarval uppgötvaði marga áhugvaverða og myndræna staði í næsta nágrenni Reykjavíkur sem voru alveg jafn heillandi og aðrir landshlutar. Mest voru þetta margbreytilegar hraunbreiður sem runnu frá Búrfellsgíg fyrir um 8000 árum. Kjarval fór nokkrar ferðir upp að Vífilsstöðum og fann staði í hrauninu skammt frá Vífilsstaðahæli og í Heiðmörk sem hann málaði. Hann leitaði líka fanga í hrauninu skammt frá Engidal á leiðinni út á Álftanes. Líklega var hann að leita að Gálgaklettum þegar hann leitaði fyrst á þessar slóðir en virðist aldrei hafa komist alla leið að þeim. Staðurinn sem hann helgaði sér nefnist Klettar eða Klettahraun og umhverfis það er Flatahraun. Sjálft Gálgahraunið með hinum svipmiklu Gálgaklettum er nokkru norðar og mér vitanlega eru ekki til nein málverk eða myndrissur eftir hann af Gálgaklettum eða nánasta umhverfi þeirra. 

Flatahraun er nokkuð greiðfært eins og nafnið gefur til kynna og um hluta þess liggur Álftanesvegur. Svo vel vildi til að á tveimur stöðum á Álftanesvegi á milli Engidals og Garðaholts voru útskot á veginum þar sem Kjarval gat látið bílstjóra sinn stöðva bifreiðina og hinkra eftir sér á meðan hann rölti út í hraunið með trönur, striga, liti og litaspjald. Kjarval var næmur á fallega staði og fann von bráðar skjólsælan reit með fallegum klettaþyrpingum á þrjá vegu og ágætri flöt þar sem hann gat komið sér vel fyrir. Í jaðri flatarinnar var smáskúti þar sem hann gat skilið hluta af dótinu sínu eftir og breitt segl yfir það til skjóls þar til hann kom næst á staðinn. Klettarnir urðu honum uppspretta fjölmargra málverka á tímabilinu frá 1950-1960 eftir því sem næst verður komist. Málverkin nefndi hann gjarnan Úr Gálgahrauni, Gálgahraun, Vetrarmynd úr Gálgahrauni, Úr Bessastaðahrauni, eða einfaldlega Hraun. Flest málaði hann á sömu flötinni og fékk mismunandi sjónarhorn og bakgrunn með því að snúa trönunum örlítið í hvert sinn. Hann virðist samt ekki hafa bundið sig alfarið við þennan stað því hann málaði einnig á öðrum stöðum í næsta nágrenni við þessa flöt. Líklega hafa veður og vindar ráðið nokkru um það hvar hann staðsetti sig hverju sinni og reikna með því að birta og litaspil hafi stjórnað því hvaða sjónarhorn hann valdi sér.

Mörg málverkanna sem Kjarval málaði í Klettahrauni eru af sömu hraunklettunum sem kalla má einu nafni Kjarvalskletta, því annað nafn er ekki nærtækt. Með sömu rökum má nefna svæðið þar sem hann sat löngum stundum Kjarvalsreit en þetta er að sönnu hluti af landssvæði sem heimamenn á Álftanesi kölluðu einu nafni Kletta.

Það er ekki alveg ljóst hversu mörg málverkin sem Kjarval málaði á þessum slóðum eru en þau hafa dreifst víða. Sennilega komust þau flest í einkaeign hér á landi en nokkur hafa ratað inn á listasöfn og einhver voru flutt úr landi. Ég hef séð nokkur mörg málverk sem Kjarval málaði á þessum slóðum. Sum hafa verið á sýningum hér á landi en önnur hef ég séð í heimahúsum bæði hér heima og erlendis. Mér þótti nokkuð merkilegt þegar ég rakst á eitt þessara málverka fyrir tilviljun í Osló og fannst frekar eðlilegt að Norðmenn hefðu heillast af handbragði meistarans, en ég var frekar hissa þegar ég sá eitt slíkt málverk í Moskvu. Vera má að Kjarvalsklettarnir leynist á veggjum heimila víðar í heiminum og það væri sannarlega áhugavert að rannsaka það mál nánar og fá heildarmynd á það hversu mörg þessi málverk eru í raun og veru.

Í sumarbyrjun verður haldin sýning á málverkum Kjarvals af þessum kletti á Kjarvalsstöðum sem Ólafur Gíslason sýningarstjóri vinnur nú að.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *