Margra áratuga barátta

Búrfellshraun, Gálgahraun og Álftanesvegur
Minnisblöð 7/12 2012, Reynir Ingibjartsson.

Engin mannvirki í Búrfellshrauni
Fram að tíunda áratug síðustu aldar var almennt litið á hraunið norðan núverandi Álftanesvegar (Garðahraun/Gálgahraun) sem útivistarsvæði sem bæri að vernda. Í grein sem Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur skrifaði í Náttúrufræðinginn 1972-1973 um aldur Búrfellshrauns, leggur hann áherslu á friðun hraunsins og því verði ekki raskað með mannvirkjum. Búrfellsgígur og Búrfellsgjá verða svo hluti af Reykjanesfólkvangi árið 1975, en fólkvangar eru friðlýstir.

Lítilsháttar grjótnám var í Urriðakotshrauni (Búrfellshrauni) sem stöðvað var af Náttúruverndarráði á sínum tíma. Þá voru uppi áform um skálabyggingar nálægt Búrfelli og Búrfellsgjá, en þeim áformum var hafnað af þáverandi bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði og Garðabæ, sjá grein Guðmundar Kjartanssonar.

Vegir í Gálgahrauni komnir í aðalskipulag
Við kynningu á nýju aðalskipulagi fyrir Garðabæ frá 1997 til 2016 eru strax gerðar alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaða vegi í Garðahrauni/Gálgahrauni og íbúabyggð í hrauninu.

Náttúruverndarráð taldi mikilvægt að tryggja verndun Gálgahrauns vegna fjölbreytts gróðurs, söguminja, sögustaða, fornra gatna og búsetuminja frá ýmsum tímum. Búrfellshraun væri í hópi merkra náttúruminja sem forðast bæri að raska frekar en orðið er. Þá hefði Ísland alþjóðlegar skyldur varðandi verndun einstakra jarðmyndana.

Fleiri aðilar s.s. Hið íslenska náttúrufræðifélag og Fuglaverndarfélag Íslands gerðu einnig athugasemdir við hið nýja aðalskipulag. Þá skrifaði Árni Björnsson læknir og Álftnesingur grein í Morgunblaðið þann 19. febrúar 1997 undir fyrirsögninni: Gefið Gálgahrauni gálgafrest. Þar varaði hann mjög við röskun hraunsins.

Um áramótin 1996-97 var Náttúruverndarráð lagt niður og í staðinn kom Náttúruvernd ríkisins. Þegar gert var umhverfismat árið 2002 vegna áforma um lagningu nýs Álftanesvegar og framlengingu Vífilsstaðavegar um Gálgahraun og Garðahraun, gerði Náttúruvernd ríkisins margvíslegar athugasemdir. Fram að því hafði hraunið að Álftanesvegi verið skilgreint sem bæjarverndað svæði. Í umsögninni segir m.a. að náttúruleg landslagsheild verði eyðilögð og ekki sé ásættanlegt að fórna þessum náttúruverðmætum. Þá er lagt til að núverandi vegur verði endurbættur. Loks er minnt á að hraunið hafi hátt alþjóðlegt verndargildi.

Eldhraun njóti verndar
Gálgahraun var sett á náttúruminjaskrá árið 1996 en á náttúruminjaskrá eru svæði sem æskilegt er talið að friða síðar. Það var tæpast tilviljun að Gálgahraun var sett á þessa skrá árið 1996, þegar í undirbúningi var nýtt aðalskipulag fyrir hraunið með áformum um vegi og íbúabyggð í því.

Í lögum um náttúruvernd frá 1999, grein 37 er tekið fram að eldhraun skuli njóta sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er. Reglan hefur þó því miður verið sú að ef um einhverjar framkvæmdir er að ræða í hraunum svo sem vegalagningu eða íbúðabyggingar, er vikið frá þessari vernd.

Í umhverfismatinu frá 2002 er bent á það að hraunið muni skiptast í fjóra parta með umræddum vegum. Það sé einstakt í okkar heimshluta að finna svo ósnortið hraun inni í miðri byggð og runnið frá gíg og alla leið til sjávar. Vegir um hraunið muni leiða til hljóðmengunar, sjónmengunar og efnamengunar.
Þá er vakin athygli á því að meiri íbúabyggð á höfuðborgarsvæðinu geri kröfur um meira útivistarsvæði.

Hins vegar eru það talin rök í málinu að vegir um Gálgahraun og Garðahraun muni stuðla að íbúafjölgun á Álftanesi og á Garðaholti, en samkvæmt aðalskipulaginu var gert ráð fyrir allt að 8 þúsund manna byggð á Garðaholti.

Ófullkomin fornleifaskráning
Fornleifaskráning fór fram árið 1999 og byggir umhverfismatið á henni. Ekkert er þar minnst á forna stíga s.s. Móslóða, Garðagötu og Engidalsstíg. Móslóði liggur þar sem Vífilsstaðavegurinn er áformaður og kemur fram, að engin fornminjaskráning fór þar fram.

Þá er ekkert minnst á rústir af fjárborg við Garðastekk eða garðsveggi sem þar eru norðvestan stekksins og gætu verið af einum fyrsta matjurtagarði hér á landi. Þá er heldur ekki minnst á álfaklettinn Ófeigskirkju við Engidalsstíg eða rúst á Grænhól þar rétt hjá. Ljóst er því að þessi fornleifaskráning var ófullkomin og hæpið á byggja á henni við umhverfismatið. Vart þarf að taka fram að engar fornleifarannsóknir hafa farið þarna fram.

Skiptar skoðanir hafa verið um klettinn Ófeigskirkju sem mun fara undir nýjan Álftanesveg.
Gísli Sigurðsson lögreglumaður í Hafnarfirði sem vann ötullega að örnefnaskráningu nefnir í skrá frá 1964 að kletturinn Ófeigskirkja hafi verið brotin niður árið 1908 við lagningu vegar yfir hraunið út á Álftanes. Jónatan Garðarsson sem er allra manna fróðastur um örnefni í Búrfellshraunum og víðar hefur það frá afa sínum að Ófeigskirkja sé umræddur klettur við Engidalsstíg og Gísli hafi ruglast á honum og kletti hjá bústaðnum Hrauni, vestar í hrauninu. Jónatan telur það reyndar fráleitt að álfaklettur hafi verið brotin niður. Slík var trúin á álfa og er enn. Ófeigskirkja er því álagaklettur og náttúruvætti.

Grænhóll og Ófeigskirkja munu lenda undir nýjum Álftanesvegi. Einnig garðarnir hjá Garðastekk. Vegurinn mun skera sundur Móslóða og Garðagötu og liggja yfir Engidalsstíg að hluta. Verði af lagningu Vífilsstaðavegar yfir hraunið mun Móslóði hverfa undir veg.

IKEA í stað bæjarverndar
Á árinu 2005 var bæjarvernd létt af Vífilsstaðahrauni við Urriðakotsvatn og aðalskipulagi breytt svo hægt væri að byggja þar verslanahverfi með IKEA í fararbroddi. Allt gerðist þetta með skjótum hætti og nágrönnum hraunsins gafst vart tími til andmæla. Þau Ólafur G. Einarsson, fyrrverandi alþingismaður og sveitarstjóri í Garðabæ (þá Garðahreppur), Pétur Stefánsson, verkfræðingur og Sigrún Gísladóttur, fyrrv. formaður skipulagsnefndar, skiluðu þó inn athugasemdum með bréfi dags. 22. apríl 2005. Þar mótmæltu þau þessari breytingu á aðalskipulagi, bentu á þau ómetanlegu verðmæti sem fælust í óröskuðu hrauni og lögðu áherslu á að nábýli við óspillta náttúru hefði verið frá upphafi aðall Garðabæjar. Ekkert var gert með athugasemdir þeirra.

Samtökin Landvernd létu sig líka málið skipta en fengu það í hausinn, að þau hefðu enga lögverndaða hagsmuni að verja í hrauninu. Aðkoma Landverndar var líka hunsuð.

Ári síðar eða um sumarið 2006 skrifaði Reynir Ingibjartsson greinar í staðarblöð um örlög Vífilsstaðahrauns og setti fram þá hugmynd að velunnarar hrauna stofnuðu félagsskap, þeim til varnar. Ólafur og Pétur höfðu strax samband við Reyni og síðan hófst undirbúningur að stofnun Hraunavina. Það félag var svo formlega stofnað á árinu 2007.

Byggt í Garðahrauni
Um þetta leyti auglýsti svo Garðabær lóðir í nýju hverfi norðan Álftanesvegar, alls 52 íbúðir. Var hverfinu gefið nafnið Prýðishverfi. Vegna mikillar eftirspurnar var áformað að bæta við 10-12 lóðum norðan hverfisins.
Þann 6. október 2007 efndu Hraunavinir til skoðunarferðar með bæjarfulltrúum og starfsmönnum Garðabæjar um hraunið. Var m.a. komið við hjá Kjarvalsklettum og litið inn í klettaskúta, þar sem sjá mátti málningardósir og dúktætlur frá þeim tíma, þegar Jóhannes S. Kjarval málaði Kjarvalskletta, sem hann kallaði reyndar Gálgaklett. Eftir þessa för heyrðist ekki meira af lóðaúthlutun, enda hefðu Kjarvalsklettar lent undir lóðir. Hraunavinir sendu bæjaryfirvöldum bréf og vöruðu við þessari fyrirhuguðu lóðaúthlutun.

Vanda Garðabæjar nú vegna Álftanesvegar má ekki síst rekja til þeirrar ákvörðunar að úthluta lóðum norðan núverandi vegar. Ekki hefur tekist betur til í skipulagi en svo að eitt húsið, Mosprýði 10 er byggt nánast ofan í Kjarvalsklettum. Þetta er 500 fermetra hús og mjög áberandi. Þetta nýja hverfi telst því varla ,,hraunprýði”. Ekkert rak í raun á eftir bæjarfélaginu að byggja í Garðahrauni. Nóg var af lóðum á Urriðaholti og víðar. Kannski hefur það bara verið gróðavonin sem réð?

Þann 24. júlí 2007 birtist grein í Morgunblaðinu eftir Ágúst H. Bjarnason, náttúrufræðing en hann gerði m.a. úttekt á gróðurríkinu í Gálgahrauni og Garðahrauni vegna umhverfismats.
Greinina kallaði Ágúst; Af hrauni eigum við nóg. Þar benti hann á hversu hraunum á Íslandi væri sýnd lítil virðing og stöðugt gengið á þau ef framkvæmdir kölluðu á það.

Barátta Hraunavina hefst
Haustið 2007 hófst barátta Hraunavina fyrir verndun Gálgahrauns og Garðahrauns sem enn stendur eftir fimm ár. Ein af hugmyndum Hraunavina var um s.k. Kjarvalsreit, þar sem svæði Kjarvalskletta yrði verndað og skipulagt fyrir aðkomu fólks. Þrátt fyrir friðum ýmissa hluta Búrfellshrauns af hálfu Garðabæjar, eru Kjarvalsklettar ekki friðaðir.

Á árinu 2009 býður Vegagerðin út gerð nýs Álftanesvegar. Lægsta tilboðið kom frá Loftorku og var því tekið. Um var að ræða veg frá hringtorgi nálægt heimreið Bessastaða og að gatnamótum í Engidal við Hafnarfjörð. Settir voru upp nokkrir kostir með vegstæði úti í hrauninu, en s.k. núll-lausn þ.e. núverandi vegi var sleppt.

Hraunavinir brugðust strax gegn þessum áformum. Efnt var til fjölmennra gönguferða um hraunið og fyrirhugað vegastæði þar og undirskriftasöfnun gegn veginum sett i gang undir forystu Gunnsteins Ólafssonar tónlistarmanns á Álftanesi. Hilmar Örn Hilmarsson, allsherjargoði helgaði Ófeigskirkju með dreypifórn og ýmsir urðu til þess að mótmæla í blöðum. Sérstakar stuðningskveðjur bárust frá Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrv. forseta. Ekkert fé var hins vegar lagt til vegarins af fjárlögum ríkisins og frestaðist því framkvæmdin. Hrunið kom því andstæðingum vegarins til hjálpar.

Mótmæli úr ýmsum áttum
Ýmis félagasamtök vöruðu við þessum framkvæmdum s.s. Náttúruverndarssamtök Íslands. Þyrma ætti Gálgahrauni í heild sinni og það hefði ómetanlegt gildi. Reyndar hefur komið fram sú skoðun að setja ætti hraunið á heimsminjaskrá UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Þá varaði stjórn Landverndar sérstaklega við vegagerð og íbúðabyggingum í Gálgahrauni á aðalfundi sínum árið 2009. Minnt var á að eldhraun nytu séstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd.

Loks voru skrifaðar nokkrar greinar um þessa baráttu fyrir verndun Gálgahrauns og málið vakti talsverða athygli í fjölmiðlum. Vonuðu menn að bæjaryfirvöld í Garðabæ tækju áform um vegalagningu í hrauninu til endurskoðunar. Sú varð þó ekki raunin.

Álftanesvegur – enn og aftur
Á árinu 2012 er Álftanesvegur kominn inn á vegaáætlun með 550 milljóna króna framlagi það ár og lúkningu framkvæmda 2014. Aftur er vegurinn boðinn út og aftur á Loftorka lægsta tilboðið. Annar aðili sem bauð í verkið hefur nú kært útboðið og er beðið niðurstöðu.

Hraunavinir og ekki síst nokkrir íbúar í Prýðishverfi hafa brugðist hart við áformum bæjaryfirvalda Garðabæjar og Vegagerðarinnar. Íbúar í Prýðishverfi hafa nú sent stjórnsýslukæru til Úrskurðarnefndar umhverfis- og skipulagsmála á þeirri forsendu að framkvæmdaleyfi séu fallin úr gildi. Afla þurfi því nýrra leyfa en leyfi fellur úr gildi, hefjist framkvæmdir ekki innan 12 mánaða frá útgáfu þess. Umrædd leyfi voru gefin út 2009.
Áður hafði meirihluti bæjarráðs Garðabæjar hafnað því að framkvæmdaleyfi væri fallið úr gildi.

Ítrekað hefur einnig verið bent á að umhverfismat sem skilað var í maí 2002, sé einnig fallið úr gildi þar sem meira en 10 ár eru frá gerð þess, en framkvæmdir ekki enn hafnar við Álftanesveg. Á móti er því haldið fram að gerð hringtorgs á Álftanesi teljist hluti af lagningu Álftanesvegar og hefur Skipulagsstofnun fallist á þá skýringu. Stofnunin hefur því ekki talið ástæðu til að gera nýtt umhverfismat. Kringumstæður hafa þó mjög breyst á þessum 10 árum. Almenn viðhorf til umhverfismála hafa tekið miklum breytingum og svo er ekki um samskonar framkvæmd að ræða nú og áformuð var árið 2002.

Vífilsstaðavegur í bið
Í aðalskipulaginu frá 1997 er gert ráð fyrir því að halda áfram með s.k. Vífilsstaðaveg meðfram Arnarnesvogi og suður í gegnum Gálgahraun og Garðahraun og yfir á Garðaholt.Vegur þessi átti m.a. að þjóna fyrirhugaðri áttaþúsund manna byggð á Garðaholti. Í umhverfismatinu frá 2002 er svo gert ráð fyrir þessum vegi og að hann skarist við Álftanesveg úti í miðju hrauni. Nú, 10 árum síðar er þessi vegur ekki beint á dagskrá sem breytir þar með forsendum um umferð og fleira. Þess vegna þurfi að gera nýtt umhverfismat.

Það er hins vegar athyglisvert að vegstæði fyrirhugaðs Vífilsstaðavegar hefur ekki verið friðlýst þrátt fyrir friðun á öðrum svæðum í Garðahrauni og Gálgahrauni. Í viðtali við Gunnar Einarsson bæjarstjóra í Morgunblaðinu 27. sept. 2012, segir hann að vegurinn sé síðari tíma vangavelta og inni í ,,lengri framtíð”. Verði af þessum vegi, hverfur Móslóði undir hann. Aðeins ysti hluti Gálgahrauns verður þá ósnortinn. Og Vífilsstaðavegur er enn til staðar í aðalskipulagi Garðabæjar sem gildir til 2016.

Í öllu þessu máli ber Vegagerðin mikla ábyrgð sem framkvæmdaraðili. Það var því athyglisvert að sjá í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar, 14. tbl. 2012 að hinn nýi Álftanevegur muni valda raski á ósnortnu eldhrauni og skerða hraungróður og búsvæði fugla. Þeir sem unna gróðri og fuglalífi hafa ítrekað minnt á gildi Gálgahrauns fyrir fjölbreyttan og gróskumikinn gróður og ríkulegt fuglalíf. Áhugaljósmyndarar hafa þar margt að skoða.

Gálgahraun – samofið sögu Bessastaða
Bent hefur verið á hversu Gálgahraun og umhverfi tengist sögu Bessastaða að fornu og nýju. Alfaraleiðin að Bessastöðum lá um Fógetagötu í Gálgahrauni.Á Sturlungaöld eignaðist Snorri Sturluson Bessastaði og síðan sátu valdsmenn og fulltrúar konungsvaldsins í Noregi og síðar Danmörku á Bessastöðum, öldum saman. Fangar voru geymdir í dyflissu á Bessastöðum og hugsanlega hengdir í Gálgaklettum. Skólapiltar í Bessastaðaskóla s.s. Jónas Hallgrímsson, áttu sín spor í hrauninu og síðar skáldið Grímur Thomsen sem eignaðist Bessastaði. Þar leyndist um skeið, útilegumaðurinn Arnes Pálsson.
Samofið er allt umhverfi Bessastaða: Bessastaðanesið, Arnarnesvogur, Lambhúsatjörn og Gálgahraun.

Í lok október 2012 átti fulltrúi Hraunavina fund með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta og kynnti mótmæli Hraunavina gegn nýjum Álftanesvegi um ósnortið hraunið. Um fundinn var bókað á heimasíðu forsetaembættisins eftirfarandi:
,,Mikilvægt sé að framkvæmdir á þessu svæði leiði ekki til þess að fórnað sé stöðum sem hafa mikið gildi í menningar- og listasögu Íslendinga og að hin einstæða náttúra Álftaness sé varðveitt i þágu komandi kynslóða”.

Kjarvalsklettar – Gálgaklettur
Talið er að Jóhannes S. Kjarval hafi málað milli 50 og 70 myndir af Kjarvalsklettum og nágrenni á um 20 ára tímabili. Margar af þeim eru taldar meðal hans bestu mynda.Nokkrar af þeim voru á sýningu á Kjarvalsstöðum sl. sumar ásamt verkum frá fleiri listamönnum. Hét sýningin, Gálgaklettur og órar sjónskynsins. Þá er líklegt að sumar mynda hans sem taldar voru málaðar í Þingvallahrauni, séu málaðar í Gálgahrauni, en það nafn notaði Kjarval um hraunið og kallaði klettinn sem hann málaði oftast, Gálgaklett. Þá málaði Kjarval víðar í Búrfellshrauni s.s. í Vífilsstaðahrauni og Svínahrauni. Nú sækjast golfáhugamenn eftir þeim stað, þar sem Kjarval málaði í Svínahrauni, gegnt Vífilsstaðahlíð.
Fleirir málarar s.s. Eiríkur Smith, Pétur Friðrik og Guðmundur Karl máluðu mikið í Gálgahrauni og víðar í hraununum.

Myndir Jóhannesar S. Kjarvals af ,,Gálgakletti” eru nú notaðar við kennslu í listaheimspeki við Listaháskóla Íslands. Þær eru til marks um einstætt samband listamanns og náttúru. Engar tvær myndir eru eins. Meistari Kjarval opnaði á sínum tíma augu Íslendinga fyrir töfrum og dulúð hraunsins. Fram að því þótti flestum hraunið ljótt og torfarið.

Gallað umhverfismat
Í umhverfismatsskýrslu sem verkfræðistofan Hönnun gerði árið 2000 um fyrirhugaðan Álftanesveg kemur fram að s.k. núllkostur þ.e. núverandi vegur, hafi ekki verið skoðaður, þar sem sá vegur uppfylli ekki kröfur um umferðaröryggi og ,,vegtæknilegar” kröfur.
Í umhverfismatinu frá 2002 er svo núverandi vegur ekki talinn ,,fýsilegur” kostur. Þetta er nú allur rökstuðningurinn fyrir því að skoða ekki núverandi veg, þótt það eigi að gera samkvæmt lögum.
Almennt á að nota þá reglu að skoða fyrst þann kost sem veldur minnstri röskun. Ótrúlegt er því að sjá þá fullyrðingu í matsgögnun að nýr vegur í hrauninu valdi minnstri röskun!

Nú fara innan við 6000 bílar um Álftanesveg á sólarhring. Litlar breytingar hafa orðið á umferð á sl. 10 árum og ekki borið á neinum umferðarvandræðum. Ekki eru líkur á mikilli íbúafjölgun á Álftanesi eða á Garðaholti á næstu árum. Í og við þéttbýli eru svo vaxandi kröfur um að hægja á umferðarhraða. Þrátt fyrir fullyrðingar eru engar tölur til um að núverandi Álftanesvegur sé einhver sérstök slysagildra. Þar eins og annarsstaðar er það aksturslagið sem skiptir mestu máli.

Endurbæta núverandi veg
Hraunavinir hafa ítrekað bent á endurbætur á núverandi vegi sem framtíðarlausn. Hringtorg eru nú í vaxandi mæli notuð í stað mislægra gatnamóta eða umferðarljósa og gefast vel s.s. í gegnum Hafnarfjörð. Þá má skoða þann möguleika að leggja veginn í stokk í hrauninu. Stórar lóðir liggja að veginum að sunnanverðu. Möguleikar á breikkun eru því til staðar. Hvers vegna ekki að skoða þessa kosti alla?

Nýr vegur úti í hrauninu veldur óafturkræfum spjöllum á hrauninu, þekkt kennileiti glatast, fornar götur skerast í sundur, Kjarvalsklettar króaðir inni, hljóðmengun og sjónmengun eyst og hljóðmanir byrgja sýn íbúa yfir umhverfið. Hinn nýi vegur er í raun meira truflandi fyrir flesta íbúana en núverandi vegur. Þá eyðileggja mislæg gatnamót og vegslaufur, hraunbrúnina að austanverðu að ekki sé talað um kostnaðinn við þá framkvæmd. Svo þarf reiðveg, hjólabraut og undirgöng fyrir gangandi umferð, allt á kostnað hraunsins. Allar líkur eru svo á að umferðarhraði aukist með meiri hættu á umferðarslysum. Auðvitað ætti svo að setja verðmiða á hraunið sjálft. Þá mundi reikningsdæmið fljótt snúast við.

Friða Búrfellshraun
Hraunavinir hafa ítrekað lagt til að allt Búrfellshraun verði friðað og forgangsverkefni sé að friða það sem eftir er af Garðahrauni og Gálgahrauni norðan núverandi Álftanesvegar. Í ár eru liðin 40 ár frá andláti Guðmundar Kjartanssonar jarðfræðings, sem skrifaði gagnmerka grein um Búrfellshraun rétt fyrir andlát sitt. Friðun hraunsins væri verðugt verkefni til að minnast Guðmundar.
Náttúrufræðistofnun sem nú starfar við rætur Urriðaholts hefur samþykkt að standa að málþingi um Búrfellshraun á næsta ári i samstarfi við Hraunavini og hugsanlega bæjarfélögin Garðabæ og Hafnarfjörð.
Guðmundur Kjartansson benti ekki síst á gildi Búrfellshrauns fyrir fræðslu t.d. fyrir nemendur Háskóla Íslands í náttúruvísindum. Raunar er hraunið fræðslubrunnur fyrir alla, ekki síst börnin.

Nýtt umhverfismat ætti svo að gera sem fyrst og meta þá allt svæðið, ekki bara fyrirhuguð vegstæði. Skoða þarf öll áhrif á núverandi byggð og hvernig nýir vegir í hrauninu skerða útivistartækifærin í hrauninu, að ekki sér minnst á eyðileggingu hrauns, gróðurs og fuglalífs. Vaxandi áhersla er nú á að vernda landslagsheildir og Búrfellshraun allt er einhver merkilegasta landslagsheildin á höfuðborgarsvæðinu og reyndar á landinu öllu. Hinar merkilegu hraunmyndanir frá sjálfum gígnum og alla leið að sjávarströndunum, má líkja við aðrar hraunmyndanir s.s. Dimmuborgir, Almannagjá, Hraunfossa og Eldborg í Hnappadal.

3500 manns mótmæla
Í baráttu Hraunavina fyrir verndun hrauna, ekki síst Gálgahrauns er búið að skrifa fjölda bréfa til Garðabæjar, Innanríkisráðuneytis, Umhverfisráðuneytis, Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, Skipulagsstofnunar, Vegagerðarinnar og Fornleifaverndar og halda fundi með þessum aðilum flestum. Þá hefur fjöldi greina birtst í blöðum um þessa baráttu.

Þá má ekki gleyma því að um 3500 manns hafa skrifað undir mótmæli gegn lagningu Álftanesvegar um ósnortið hraunið og nokkrar göngur hafa verið farnar um Garðahraun og Gálgahraun til að mótmæla þessum áformum. Loks var haldinn fjölmennur borgarafundur í Kirkjuhvoli í Garðabæ í lok nóvember 2012, þar sem skorað var á yfirvöld Garðabæjar að fresta framkvæmdum og breyta aðalskipulagi vegna sameiningar Garðabæjar og Álftaness svo breyta megi lagningu Álftanesvegar í sátt við umhverfið. Loks hefur verið skorað á Alþingi að fresta framlögum til Álftanesvegar. Verndun hraunsins er forgangsmál.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *