Ný gönguleiðabók

Forsíða bókarinnar

Reynir Ingibjartsson, stjórnarmaður í Hraunavinum, gaf nýverið út bókina: Náttúran við bæjarvegginn – 25 gönguleiðir á höfuðborgarsvæðinu. Eins og nafnið gefur til kynna lýsir Reynir 25 hringleiðum á höfuðborgarsvæðinu. Flestar eru þær í námunda við vötn, ár eða strendur hér í nánasta umhverfi mesta þéttbýlissvæðis landsins. Þeir sem hafa áhuga á að kanna nýjar slóðir eða bæta við þekkingu sína á stöðum sem eru í snertifæri, ættu að tryggja sér eintak og fara út að ganga.   

Bókin er lipurlega skrifuð og gönguleiðirnar allar mjög aðgengilegar. Þær eru flestar í útjaðri byggðar og stutt að fara akandi eða hjólandi að upphafsstað hvers gönguhrings frá Suðurnesjum, Hafnarfirði, Garðabæ, Álftanesi, Kópavogi, Reykjavík, Mosfellsbæ og jafnvel frá Akranesi og Borgarnesi.

Í bókinni eru góð kort eftir Ólaf Valsson og þar má finna helstu kennileiti og örnefni auk þess sem leiðirnar sem lýst er í bókinni eru sýndar. Einnig er fjöldi ljósmynda sem auðvelda göngufólki mjög að rata á rétta staði. Þeir sem vilja helst sitja heima og njóta þess að lesa textann geta farið í huglægt ferðalag með aðstoð mynda og texta.

Það er bókaforlagið Salka sem gefur bókina út og fæst hún í bókaverslunum og víðar.  Reynir hefur í huga að bjóða upp á gönguferð á næstunni þar sem áhersla verður lögð á einhverja þeirra leiða sem lýst er í bókinni og verður hún kynnt nánar síðar.

Ein opnan í bókinn þar sem fjallað er um Gálgahraun

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *