Sólstöðuganga 21. júní 2012 kl. 20.00

Fimmmtudagskvöldið 21. júní kl. 20.00 efna Hraunavinir til Sólstöðugöngu í Hraunum við Straumsvík. Öllum er velkomið að taka þátt í göngunni og ekki þarf að greiða neitt gjald enda er gangan farin til að kynna hvað hraunin á félagssvæði Hraunavina hafa upp á að bjóða.   

Safnast verður sama við húsið Gerði skammt frá álverinu í Straumsvík.

Reynir Ingibjartsson leiðir gönguna en gönguleiðabók hans um 25 gönguleiðir á Reykjanesskaga er nýlega komin út. Ætlunin er að fylgja Alfaraleiðinni frá Gerði að Kristrúnarborg og síðan að fara gamla Keflavíkurveginn til baka að Gerði. Þetta er sama leið og merkt er nr. 2 í bók Reynis, þannig að göngufólk fær smjörþefinn af því hverskonar leiðir um er að ræða. Reynir mun fræða fólk á leiðinni og leggja áherslu á merka staði, mannvistarminjar og náttúrufyrirbæri. Hann mun  rifja upp sitthvað sem tengist örnefnum, kennileitum og staldra við á nokkrum stöðum á leiðinni. Það er sjálfsagt að hafa nesti meðferðist og svo er skynsamlegt að hafa skjólfatnað því að kólnar þegar líður að kvöldi. 

Alfaraleiðin gamla er horfin að mestu frá Hafnarfirði að Gerði við Straumsvík en eftir stendur Kapellan, rúst á hól rétt sunnan álversins, kennd við heilaga Barböru úr kaþólskum sið, sem hugsanlega hefur verið áningar- og bænastaður fyrir áfallalausri ferð um hraun og torfærur. Rétt austan hennar liggur stuttur vegur af Reykjanesbrautinni að geymslusvæði gegnt álverinu. Af þeim vegi til vesturs má fara malarveg að Gerði og Gerðistjörn, sunnan Reykjanesbrautar og Straumsvíkur, að bílastæði á gamla vegarstæðinu þar sem gangan hefst.

Gengið verður um hliðið hjá Gerði, austan við tjarnirnar og að grjótgörðunum kringum túnið á Þorbjarnarstöðum. Hugað verður að bæjarstæðinu og síðan haldið í áttina að stórum stekk með litlum dilkum undir bröttum hraunklettum. Staðurinn heitir Stekkatún.

Gerðistjörn, Þorbjarnarstaðatjörn og fleiri ferskvatnstjarnir eru í hraunlægðum sunnan Straumsvíkur og gætir þar flóðs og fjöru. Létt ferskvatnið er á yfirborði tjarnanna og í þeim hefur þróast einstakt lífríki m.a. sérstök dvergbleikjutegund.

Miðmundarhæð nefnist mikil hraunbunga og norðan hennar er Alfaraleiðin greinileg. Hún liggur um skorninga, sem kallaðir eru Draugadalir og Þrengsli, tilkomumikil nöfn sem skýrð verða nánar í göngunni. Farið verður að klettahæð sem heitir Gvendarbrunnshæð og þar skammt frá er Gvendarbrunnur – vatnsstæði í hraunklöpp með grasgeirum og lyngi í kring. Brunnurinn var vígður af Guðmundi góða Hólabiskupi á Sturlungaöld og er einn af fjölmörgum slíkum vítt og breitt um landið.

Vestar eru Löngubrekkur og þar er beygt út af Alfaraleiðinni og haldið í átt að áberandi fjárborg vestan við klettahæð sem heitir Smalaskáli. Áður en að henni er komið, er á hægri hönd mikið jarðfall í hraunjaðrinum sem heitir Smalaskálaker og á botni þess er lítill rauðamelshóll. Húsgrind úr stáli stendur á hólnum á sama stað og Hreinn Friðfinnsson myndlistarmaður reisti lítið hús árið 1974. Þessi listgjörningur nefndist House Project en húsgrindin er einskonar endurómur fyrsta hússins sem stóð á hólnum í rúman aldafjórðung.

Fjárborgin sem næst er komið að er kölluð Kristrúnarborg, en Kristrún Sveinsdóttir húsmóðir á Óttarstöðum í Hraunum lét hlaða borgina um miðja 19. öld. Lengst af gekk fé úti um vetrartímann á Reykjanesskaganum og þá veittu fjárborgirnar skjól í illviðrum og kulda.  

Þessu næst verður haldið til baka og slóða frá fjárborginni fylgt að gamla Keflavíkurveginum og síðan gengið í áttina að Gerði. Gamli vegurinn er tvískiptur, sá til hægri er Suðurnesjavegurinn svokallaði, með fallegum kanthleðslum en breiðari vegurinn var notaður allt þar til Reykjanesbrautin var steinsteypt um miðjan sjöunda áratug 20. aldar.  

Litlu austar er vegurinn grafinn í sundur og við blasir gímald þar sem áður voru rauðamelshólar. Á botni ,,gígsins” er tjörn og hugmyndaríkt fólk sér hér tækifæri til að gera spennandi útivistarstað. Í staðinn fyrir rauðamölina hefur safnast þarna mikið drasl og rusl sem vonandi hverfur sem fyrst. Hraunavinir stóðu fyrir hreinsunarátaki á Degi umhverfisins á liðnu ári á þessum slóðum og verður átakið væntanlega endurtekið þegar hausta tekur.

 Frá þessum stað er stuttur spölur að Gerði, litlu húsi sem var eitt sinn býli en er nú í eigu starfsmannafélags álversins í Straumsvík.

 

 

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *