Tímamótafundur í Garðabæ

Borgarafundurinn um verndun Gálgahrauns sem Hraunavinir efndu til í safnaðarheimili Vídalínskirkju á fimmtudagskvöldinu 29. nóvember, tókst í alla staði mjög vel. Salurinn var þétt skipaður og fundarmenn sýndu fundarefninu mikinn áhuga.

Fyrst fjallaði Sigmundur Einarsson jarðfræðingur um Búrfellshraun frá ýmsum hliðun sem hann og Lovísa Ásbjörnsdóttir höfðu undirbúið. Það var sem nýr heimur hefði opnast fyrir mörgum Garðbæingum sem töldu sig þó vita ýmislegt um sitt byggðarlag. Búrfellshraun er tvímælalaust með merkilegustu hraunum á Íslandi, en Gálgahraun er ysti hluti þess.

Næsta erindi var ekki síður forvitnilegt en þar fjallaði Ólafur Gíslason listfræðingur um tengsl Jóhannesar S. Kjarvals við Gálgahraun.  Í 20 ár kom Kjarval árlega í hraunið og málaði sama klettinn sem hann kallaði Gálgaklett. Engar tvær myndir eins. Einstakt samband manns og náttúru átti sér þarna stað. Kjarval varð að klettinum og kletturinn að Kjarval. Hann jafnvel þurrkaði af penslinum af móður jörð svo sambandið rofnaði ekki. Að mati Ólafs eru Kjarvalsklettar einstakir á heimsvísu um samband manns og náttúru. 

Gunnsteinn Ólafsson tónlistarmaður og stjórnarmaður í Hraunavinum fjallaði svo um Álftanesveginn, bæði óformin um nýjan veg og hugmyndir um endurbætur núverandi vegar. Hann studdi mál sitt með myndum og kortum sem töluðu sínu máli. Gunnsteinn brýndi fundarmenn til samstöðu um að verja Gálgahraun og láta hér staðar numið í eyðileggingunni. Allt hraunið ætti að friða.

Því næst afhenti Gunnsteinn undirskriftir um 3500 manns sem mótmæltu lagningu nýs Álftanesvegar um ósnortið hraunið.  Við listunum tóku þau: Áslaug Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og Íris Bjargmundsdóttir, lögfræðingur Umhverfisráðuneytisins.

Í lokin bar fundarstjórinn, Eiður S. Guðnason, fyrrverandi umhverfisráðherra upp samþykkt fundarins um frestun áforma um fyrirhugaða vegagerð í Gálgahrauni meðan verið væri að leita annarra leiða um öruggan og endurbættan Álftanesveg. Þá væri nauðsynlegt að gera nýtt aðalskipulag fyrir hið sameinaða sveitarfélag Garðabæjar og Álftaness, þar sem tekið væri tillit til nútímalegra náttúruverndarsjónarmiða. Tillagan var samþykkt samhljóða.

Þá flutti Eiður fundinum kveðju frá Ólafi G. Einarssyni, fyrrverandi menntamálaráðherra sem átti þess ekki kost að sækja fundinn. Ólafur var fyrsti sveitarstjóri í Garðahreppi, nú Garðabæ og er heiðursborgari Garðabæjar.

Á fundinum hafði sá mikli baráttumaður fyrir náttúruvernd, Ómar Ragnarsson, orð á því að ef baráttan um Gálgahraunið tapaðist í miðju þéttbýlinu á höfuðborgarsvæðinu, væri mjög ótrúverðugt að vera að mótmæla á sama tíma, náttúruspjöllum vítt og breitt um landið. Vonandi var taflinu snúið við á þessum glæsilega fundi. Lykillinn er nú í höndum heimamanna í Garðabæ.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *