Author Archives: Gunnar Örvarsson

Aðalfundur Hraunavina 2016

Aðalfundur Hraunavina verður haldinn laugardaginn 22. október 2016, kl. 11.00 í Gaflaraleikhúsinu við Víkingastræti í Hafnarfirði (fyrir innan Víkingahótelið/Fjörukrána).

Dagskrá:

Venjuleg aðalfundarstörf:

Kjör fundarstjóra og fundarritara

– Fundargerð síðasta aðalfundar. Umræður og afgreiðsla

– Skýrsla stjórnar og umræður

– Reikningar síðasta reikningsárs, umræður og afgreiðsla

– Breytingar á lögum félagsins hafi lagabreytingatillögur borist

– Kjör stjórnar og skoðunarmanns reikninga

– Önnur mál

Kaffihlé, 

Fundi lýkur á göngu yfir holtið frá Kaldárselsvegi að Hvaleyrarvatni og spáð í fuglana undir leiðsögn Einars Ó. Þorleifssonar

Stjórn Hraunavina

Athugasemdir Hraunavina vegna aðalskipulags Garðabæjar

Um þessar mundir vinna skipulagsyfirvöld í Garðabæ að endurnýjun aðalskipulags fyrir tímabilið 2016-2030.  Ekki er komið enn að lögbundnu formlegu athugasemdaferli, en bæjaryfirvöld hafa þó hvatt til þess að skilað sé inn tillögum eða athugasemdum við þær hugmyndir sem kynntar eru á vef bæjarins.  Sjórn Hraunavina hefur gert athugasemdir með eftirfarandi erindi:

Stjórn Hraunavina hvetur skipulagsyfirvöld Garðabæjar til að hlífa óspilltri náttúru á skipulagssvæðinu eins og best verður á kosið og leggur því til eftirfarandi ábendingar.

Félagið Hraunavinir leggur áherslu á að standa vörð um hraun og við viljum undirstrika að skemmdir á hrauni eru óafturkræfar aðgerðir. Því miður hafa hraun lengst af verið talin lítils virði á Íslandi og nú er svo komið að þau hafa að mestu verið skemmd innan þéttbýlismarka á höfuðborgarsvæðinu. Okkur er hinsvegar ánægjuefni að greina viðhorfsbreytingar. Í stað þess að líta á hraun sem lítt gróna farartálma hafa margir áttað sig á að hraun veita gott skjól fyrir næðingi meðan gönguferða er notið um óslétt og spennandi landslag. Auk þess má benda á að fjölbreytt lífríki, bæði plöntur og dýr, þrífst best í hrauni.

Skipulagsyfirvöld í Garðabæ eru eindregið hvött til að taka tillit til eftirfarandi sjónarmiða við endurskoðun aðalskipulags 2016 – 2030:

1) Að hverfa alfarið frá hugmyndum um vegalagningu þvert yfir Gálga-/Garðahraun frá enda Vífilstaðavegar og yfir að gamla Álftanesvegi milli vegamóta Herjólfsbrautar og Garðaholtsvegar. Okkur þykir ekki fullnægjandi að aðeins sé metinn sá valkostur að hverfa frá áform um lengingu Vífilstaðavegar við nýja veginn í miðju hrauninu, þ.e. helming leiðarinnar yfir hraunið. Vegtengingin sem er undanskilin í því mati sem hefur verið kynnt [sbr. http://www.gardabaer.is/library/Files/Skipulagsmal/Adalskipulag-2015/Kynningarfundir-nov-2015/Vifilsstadavegur.pdf] skemmir hraunfláka sem Jóhannes Kjarval notaði ítrekað sem vettvang fyrir sína listsköpun. Þar má enn sjá vegsummerki eftir listamanninn og finna nokkra klettadranga sem prýða mörg af hans þekktu málverkum. Við stingum upp á að bætt verði við ofangreint umhverfismat sá valkostur að flytja umrædda vegtengingu vestur fyrir jaðar hraunsins og varðveita hraunflákann sem hefur bæði mikið náttúru- og menningarlegt gildi.

2) Að draga úr umfangi fyrirhugaðrar íbúðabyggðar næst vesturjaðri hraunsins og gera ráð fyrir gönguleið (og akbraut sbr. lið 1) meðfram hraunjaðrinum, auk hæfilegrar fjarlægðar. Við teljum tilhlíðilegt að svæði meðfram hraunjaðri sé helgað og þess gætt að hindra ekki gönguleiðir þar, á sama hátt og gert er meðfram öllum ám og lækjum samkvæmt skipulagslögum. Þannig má bæði nálgast og skoða hraunfláka eins og þeir storknuðu og auðvelda fólki að ganga/hjóla meðfram óröskuðum hraunum, t.d. á útivistarstígum.

3) Að leggja ekki göngu-/hjólastíga yfir hraun, nema í undantekningartilvikum. Hugmyndin um bláu línuna meðfram strandlengju á höfuðborgarsvæðinu er góðra gjalda verð, en ekki er þörf á að festast alveg í þeirri hugmynd og þræða strandlínuna ófrávíkjanlega. Sama á við lagningu göngu-/hjólastíga og annað að framkvæmdir í hrauni eru óafturkræfar og upplifun fólks af sérstöku umhverfi hraunbreiða verður sterkari ef þess er gætt að raska umhverfinu sem minnst. Við leggjum til að frekar en að leggja stíg meðfram allri ströndinni verði valdir staðir gerðir aðgengilegir með því að leggja botnlanga frá ‘bláu línunni’ og skapa þar aðstöðu til áninga í næði frá megin umferðinni á langri leið milli Hvaleyrarholts og Leirvogsár. Í þessu sambandi er líka rétt að benda á mikilvægi þess að tryggja aðgengi andfugla sem koma af sjó, t.d. æðarfugla. Mikil umferð meðfram strandlengjunni getur hæglega fælt fuglinn frá svo hann setjist ekki upp á varpstöðvar sínar og hverfi frá svæðinu. Það samrýmist markmiðum um verndun Skerjafjarðar að tekið sé tillit til þessa og samþykkt verndar fyrir Skerjafjörð í Garðabæ á við um Gálgahraun og fuglavarp þar.

f.h. stjórnar Hraunavina

  • Kristinn Guðmundsson gjaldkeri
  • Ragnhildur Jónsdóttur formaður
  • Viktoría Áskelsdóttir ritari
  • Gunnar Örvarsson meðstjórnandi
  • Ragnar Unnarsson meðstjórnandi
  • Gunnsteinn Ólafsson varamaður í stjórn
  • Ragna Dagbjört Davíðsdóttir varamaður í stjórn

Fundargerð aðalfundar Hraunavina 31. október 2015

Aðalfundur Hraunavina var haldinn laugardaginn 31. nóvember í Gaflaraleikhúsinu við Víkingastræti í Hafnarfirði.

Formaður setti fundinn og kosnir voru fundarstjóri og ritari.  Fundarstjóri var Lárus Vilhjálmsson og Ragna D. Davíðsdóttir ritari.

Dagskrá:

  1. Ritari las eldri fundargerð frá aðalfundi 2014.
  2. Ragnhildur Jónsdóttir formaður flutti skýrslu stjórnar.
  3. Kristinn Guðmundsson gjaldkeri lagði fram reikninga.  Voru þeir samþykktir einróma.
  4. Kosið var í stjórn Hraunavina.
  5. Önnur mál.

Úr skýrslu stjórnar:

  1. Farið var í tvær göngur á árinu, aðra í Búrfellsgjá og hina að Eldvörpum.
  2. Í apríl voru sendar inn athugasemdir vegna fyrirhugaðrar Suðurnesjalínu 2.
  3. Félagsfundur var í júní þar sem Skúli lögmaður útskýrði dóm Hæstaréttar yfir níumenningunum sem ákærðir voru vegna mótmæla í Gálgahrauni.
  4. Stjórn félagsins hefur tekið við umsjón með heimasíðu og vefhýsingarkerfi.
  5. Sett hefur verið upp síða félagsins á Facebook og stofnaður hópur félagsmanna þar.
  6. Söfnunarsjóði var ráðstafað til greiðslu málskostnaðar níumenninganna og stóð þar á jöfnu.  þar með talið fé það sem safnaðist á tónleikum Bubba og vegna sölu málverka.

Kosið var í stjórn Hraunavina, eftirtaldir voru kjörnir:

  • Ragnhildur Jónsdóttir, formaður
  • Kristinn Guðmundsson, gjaldkeri
  • Gunnar Örvarsson
  • Ragnar Unnarsson
  • Viktoría Áskelsdóttir, ritari
  • Ragna Dagbjört Davíðsdóttir, varamaður
  • Gunnsteinn Ólafsson, varamaður

Skoðunamaður reikninga var kosinn Steinar Lúðvíksson.

Önnur mál:

  1. Næsta mál sem Hraunavinir munu láta sig varða er vegna Suðurnesjalínu 2.  Halda áfram baráttu vegna línumála.
  2. Halda áfram skipulögðum gönguferðum.
  3. Reynir Ingibjartsson sagði frá sögulegu efni félagsins í sinni vörslu.
  4. Kristinn Guðmundsson hefur beðið um aðstöðu fyrir félagið að Bjarnastöðum.
  5. Reynir Ingibjartsson sagði frá hreinsunarátaki sem félagið hefði áður staðið fyrir og reynst vel.
  6. Gunnsteinn Ólafsson óskar eftir því að gerast ármaður félagsins.  Ákveðið að fara yfir lista ármanna.
  7. Gunnsteinn Ólafsson lagði til að sett yrði upp skilti í Garðahrauni þar sem mótmælin hefðu staðið.  Sú hugmynd kom upp að setja upp sýningarsvæði undir brúnni með myndum af vettvangi 21.10.2013.
  8. Pétur Stefánsson lagði fram fyrirspurn um hvort hálendið og málefni þess væri ekki eitthvað sem Hraunavinir ættu að láta sig varða.
  9. Farið yfir skaðabótamál 10 Hraunavina vegna handtöku við mótmæli í Gálgahrauni. Ragnheiður Elfa lögfræðingur greindi frá.
  10. Rætt um að þau félagasamtök er láta sig varða náttúruvernd hittist
    meira og vinni meira saman.
  11. Eydís Franzdóttir kom og fjallaði um fyrirhugaða Suðurnesjalínu 2 og auk þess stæði til innan þriggja ára að gera Sandskeiðslínu yfir
    helstu vatnsból höfuðborgarsvæðisins.

Til stjórnar var vísað eftirfarandi:

  • Undirbúa ályktun um hvort Hraunavinir taki afstöðu til málefna
    hálendisins og að það skuli vera einn þjóðgarður.
  • Hvort setja eigi upp skilti í Gálgahrauni þar sem komi fram að
    Hraunavinir hafi staðið fyrir mótmælum þar og hvort setja eigi upp
    sýningu undir brúnni í Gálgahrauni með myndum af vettvangi 21.okt 2013.

(útdráttur)

 

 

Aðalfundur Hraunavina 2015

Aðalfundur Hraunavina verður haldinn laugardaginn 31. október 2015, kl. 10.00 – 12.00 í Gaflaraleikhúsinu við Víkingastræti í Hafnarfirði ( fyrir innan Víkingahótelið/Fjörukrána).

Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
  2. Dómsmál Hraunavina gegn ríkinu, rædd
  3. Dagskrá vetrarins rædd t.d. helstu baráttumál, göngur félagsmanna ofl
  4. Kaffi og meðlæti

Þeir sem hafa áhuga á að koma inn í stjórnina endilega látið vita af ykkur.

Bestu kveðjur

Stjórn Hraunavina

Ragnhildur Jónsdóttir formaður
Margrét Pétursdóttir ritari
Kristinn Guðmundsson gjaldkeri
Gunnar Örvarsson meðstjórnandi
Gunnsteinn Ólafsson meðstjórnandi
Ragnar Unnarsson varamaður
Ragna D. Davíðsdóttir varamaður

Ýmsum spurningum enn ósvarað

20131023_144330

Reykjavík vikublað fjallar ítarlega um dóm Hæstaréttar yfir níumenningunum sem sættu ákæru fyrir að vilja standa vörð um náttúruperlur í Gálgahrauni og voru handteknir ásamt fjölda annarra í viðamiklum og þrautskipulögðum aðgerðum lögreglu þann 21. október 2013.

Ingimar Karl Helgason ritstjóri fjallar um málið í leiðara.  Þar segir m.a.

Enda þótt hér hafi Hraunavinir sannarlega unnið sigur, þá er hér hópur fólks sem hefur þurft að glíma við handtöku, ákærur og dóma um margra mánaða skeið. Og fyrir hvað? Fyrir að sitja á rassinum fyrir íslenska náttúru.

Því hefur ekki enn verið svarað hvernig á því stóð að allir þessir lögreglumenn voru staddir í Hrauninu þennan morgun. Lögreglumenn kunna jafnvel að hafa verið fleiri en þau sem söfnuðust saman snemma dags til friðsamlegra mótmæla.

Leiðara Ingimars, Dagsform og duttlungar, má lesa í heild sinni hér:

https://rvkv.wordpress.com/2015/05/30/dagsform-og-duttlungar/

Umfjöllun blaðsins má sjá hér:

https://rvkv.wordpress.com/2015/05/30/nyr-tonn-i-natturuverndarmalum/

Dómar Hæstaréttar í máli Hraunavina

9mdv

Hæstiréttur hefur nú fellt dóma í máli níu Hraunavina sem ákærðir voru fyrir að hafa óhlýðnast fyrirmælum lögreglu og neitað að færa sig um set við mótmæli gegn lagningu nýs Álftanesvegar um Gálgahraun 21. október 2013.  Rétturinn frestar ákvörðun refsingar, sem fellur niður haldi ákærðu almennt skilorð í tvö ár.  Héraðsdómur Reykjaness hafði áður dæmt ákærðu til sektargreiðslu og fangelsisvistar til vara.

Varðstaða um náttúrverðmæti viðurkennd

Hæstiréttur vísar m.a. til ákvæða stjórnarskrár um tjáningarfrelsi og rétt manna til mótmæla.  Ennfremur er litið til þes að tilgangur mótmælanna hafi verið að standa vörð um náttúruverðmæti.  Segir svo í dómunum:

Við ákvörðun refsingar ákærðu verður litið til þess að hún hefur ekki áður hlotið refsingu, að fyrir henni vakti að standa vörð um náttúruverðmæti, sem hún og fleiri töldu að verið væri að vinna óbætanlegan skaða, og að það gerði hún með því að nýta á friðsaman hátt stjórnarskrárvarinn rétt sinn til að mótmæla þó svo að í þessu tilviki hafi hún gengið lengra en heimilt var.

Þótt dómar Hæstaréttar komi ekki í veg fyrir að lögregla geti að eigin geðþótta misbeitt 19. grein lögreglulaga þá ber engu að síður að fagna því að þeir hafi verið mildaðir að verulegu leyti og ákvörðun refsingar frestað.  Einnfremur er mikilvægt að Hæstiréttur líti sérstaklega til þess að fyrir ákærðu hafi vakað að standa vörð um náttúruverðmæti.  Hlýtur það að verða náttúruverndarsinnum hvatning að láta hvergi deigan síga í þeirri baráttu sem vænta má um náttúru Íslands í náinni framtíð.

Dómarnir eru samhljóða.  Þá má lesa þá í heild sinni á vef Hæstaréttar.  Sjá dæmi hér:

http://haestirettur.is/domar?nr=10480

(Mynd fengin af vef dv.is)

Níumenningarnir fyrir Hæstarétti

9menningar

Fimmtudaginn 21. maí kl. 9:00 verður málfutningur máli þeirra níu sem ákærð voru fyrir að sitja kyrr í Gálgahrauni 21. okt. 2013, þegar lögreglan fyrirskipaði að fólk „færði sig um set“.

Þetta mál fjallar um svo margt fleira en níumenningana. Það fjallar um rétt okkar til friðsamra mótmæla og að vernda náttúruna.Réttarhaldið er opið svo allir sem áhuga hafa geta komið og fylgst með. 21.05 – kl. 9:00 – Hæstiréttur – Dómsalur II.

Skúli Bjarnason lögfræðingur okkar mun flytja málið.
Stjórn Hraunavina.

Athugasemdir Hraunavina vegna Suðurnesjalínu 2

Hraunavinir mótmæla harðlega fyrirætlunum Landsnets um lagningu Suðurnesjalínu 2 í loftlínum í gegnum Vallahverfið í Hafnarfirði og í gegnum ósnortin hraunsvæði í Almenningi. Einnig er mótmælt byggingu tengivirkis í Hrauntungum. Hraunavinir fara því fram á að Hafnarfjörður veiti Landsneti ekki framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 að óbreyttu.

Sjá bréf stjórnar Hraunavina til skipulags- og byggingarsviðs Hafnarfjarðar 4. apríl 2015 í pdf viðhengi.

Athugasemdir Hraunavina vegna Suðurnesjalínu 2