Fundargerð nr. 49

Fundur stjórnar haldinn í Lóuási 2, 221 Hafnarfirði kl. 17.30.

Þorsteinn Þorsteinsson tók að sér ritun fundargerðar í forföllum ritara.

Sérstakir gestir á stjórnarfundinum voru Jónatan Garðarsson og Gunnsteinn Ólafsson og bauð formaður þá velkomna á fundinn á heimili Jónatans.

1. Fundargerð.

Fundargerð 48. fundar, 04.09.2012, var samþykkt.

2. Álftanesvegur.

Rætt var um fyrirhugaðan Álftanesveg (415) og stöðu mála. Tilboð í gerð vegarins voru opnuð hjá Vegagerðinni 18. september og er þannig greint frá opnun tilboða á heimasíðu Vegagerðarinnar:

Opnun tilboða 18.september 2012. Gerð Álftanesvegar (415), milli Hafnarfjarðarvegar og Bessastaðavegar. Verkið felst í því að leggja nýjan 4 km langan veg frá Engidal að Fógetatorgi við Bessastaðaveg. Gera skal mislæg gatnamót ásamt að- og fráreinum við Hraunsholt í Engidal og byggja tvenn göng fyrir gangandi umferð. Breyta skal legu strengja,vatns- og hitaveitulagna. Þá á að leggja nýja háspennu- og rafdreifistrengi, síma-, vatns-, og hitaveitulagnir. Einnig fylgir með í verkinu landmótun, sáning og yfirborðs­jöfnun hrauns innan verksvæðisins.

Helstu magntölur eru:

Bergskering 70.000 m3
Fylling og fláfleygar 72.000 m3
Neðra burðarlag 25.000 m3
Efra burðarlag 12.000 m3
Malbik 52.500 m2
Gangstígar 9.000 m2
Mótafletir 2.700 m2
Steypustyrktarstál 87.000 kg
Steinsteypa 1.120 m3
Eftirspennt járnalögn 5.300 kg
Hitaveitulagnir 346 m
Fjarskiptalagnir 4000 m
Rafstrengir 6740 m

Verkið skiptist í 3 verkáfanga og skal verkinu að fullu lokið eigi síðar en 1. júlí 2014.

Bjóðandi Tilboð kr. Hlutfall Frávik þús.kr.
Áætlaður verktakakostnaður 865.000.000 100,0 205.770
Suðurverk hf., Hafnarfirði 844.059.791 97,6 184.830
Ístak hf., Reykjavík 822.034.936 95,0 162.805
Urð og Grjót ehf., Reykjavík 799.612.663 92,4 140.382
ÍAV hf., Reykjavík 746.116.046 86,3 86.886
Loftorka Reykjavík ehf., Garðabæ 659.230.180 76,2 0

Enn fremur segir á heimasíðunni:

Loftorka Reykjavík ehf. átti lægsta tilboð í gerð Álftanesvegar (415), milli Hafnarfjarðar­vegar og Bessastaðavegar. Tilboð voru opnuð í dag, 18. september. Tilboð Loftorku nam tæpum 660 milljónum króna og var 76 prósent af áætluðum verktakakostnaði upp á 865 milljónir króna. ÍAV hf. átti næstlægsta boð upp á 746 milljónir króna, alls bárust fimm tilboð í verkið. Það skiptist í þrjá verkáfanga en skal að fullu lokið eigi síðar en 1. júlí 2014. Verkið hafði áður verið boðið út en þá var hætt við útboðið vegna efnahags­ástandsins.

Pétur gerði grein fyrir þeim viðtölum, sem stjórnarmenn hafa átt við ýmsa ráðamenn, svo og þeim bréfum sem stjórnin hefur sent fjölmörgum aðilum og ýmsum svarbréfum sem borist hafa stjórninni. Sérstaklega var farið yfir bréf Skipulagsstofnunar, dags. 19.07.2012 þar sem stofnunin telur að framkvæmdaleyfi fyrir Álftanesveg hafi verið gefið út og framkvæmdir við hann hafi verið hafnar áður en 10 ár voru liðin frá úrskurði Skipulagsstofnunar. Þá var farið yfir svarbréf Garðabæjar til Hraunavina, dags. 03.09.2012 þar sem bæjarráð vísar í svarbréf Skipulagsstofnunar um að framkvæmdir hafi verið hafnar. Í svarbréfi Garðabæjar er einnig nefnt að endurnýjun vegarins á núverandi vegarstæði kalli á mikið viðbótarrými og breytingar á deiliskipulagi sem fari þá gegn hagsmunum íbúa í suðurhluta Prýðishverfis. Það geti haft í för með sér skaðabótamál. Lagning vegar í stokk sé að mati sérfræðinga miklu dýrari leið en fyrirhuguð lagning vegarins.

Ræddar voru ýmsar hugmyndir til að bregðast við þessari afstöðu Skipulagsstofnunar og bæjarráðs Garðabæjar. Gunnsteinn gerði grein fyrir viðræðum sínum við Árna Finnsson, framkvæmdastjóra Náttúruverndarsamtaka Íslands og nefndi ýmsar hugmyndir um aðgerðir sem koma til greina.

Rætt var um stjórnsýslukæru og var samþykkt að ræða við fulltrúa íbúa í Mosprýði varðandi þann möguleika. Fram kom að ýmsir listamenn hafa áhyggjur af málinu og var ákveðið að ræða við fulltrúa þeirra.

3. Dagur náttúrunnar 16. september 2012 og hreinsunarátak 14.- 16. september.

Pétur þakkaði Reyni sérstaklega fyrir afar góðan þátt hans í hreinsunarátaki Hraunavina o.fl. í hrauninu vestan við Rauðamelsnámuna í Hafnarfirði. Reynir gerði grein fyrir framkvæmdinni. Hreinsunarátakið var með svipuðu sniði og á degi náttúrunnar 2011. Nemendur Áslandsskóla, Hvaleyrarskóla og Hraunvallaskóla tóku þátt í hreinsuninni föstudaginn 14. september. Sama dag tóku fyrirtæki þátt í hreinsuninni og einnig á laugardeginum 15. september. Á laugardeginum og á degi náttúrunnar, sunnudaginn 16. september, tók almenningur þátt í hreinsunarátakinu. Allt gekk þetta mjög vel og má ætla að um 40 – 50 tonn af rusli hafi verið hreinsuð síðan átakið hófst 2011.

Rio Tinto Alcan hefur samþykkt að veita Hraunavinum kr. 100.000 í styrk vegna átaksins.

Samþykkt að skrifa og senda þakkabréf til stofnana, félaga, fyrirtækja o.fl. er lögðu hönd á plóg í þessu þarfa verki.

Samþykkt að senda bæjarstjórn Hafnarfjarðar erindi til að vekja athygli á þessu fallega svæði og athuga hvort ekki sé tímabært að kalla eftir hugmyndum um lagfæringar til gera þetta að góðu útivistarsvæði fyrir íbúa í Hafnarfirði og víðar

4. Ársfundur (aðalfundur) Hraunavina.

Stefnt er að því að halda fundinn laugardaginn 27. október nk. og helst í Haukshúsi eins og undanfarin ár. Leitað verður til Ólafs Proppé til að bóka húsið fyrir fundinn.

5. Ný stjórn.

Rætt verður um næstu stjórn Hraunavina á næsta stjórnarfundi.

6. Önnur mál.

Engin önnur mál.

 Fundi slitið kl. 19:20.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *