Hreinsunarátak á degi náttúrunnar

Fjarlægja þarf bílhræ, ónýt heimilistæki og annan úrgang sem skilinn hefur verið eftir á ótrúlegustu stöðum.

Hraunavinir, félag áhugamanna um náttúruvernd í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi, boða til hreinsunarátaks í hrauninu sunnan og vestan við Straumsvík föstudaginn 16.  og laugardaginn 17. september nk.

Átak þetta er unnið í samvinnu við SEEDS (alþjóðleg sjálfboðaliðasamtök á Íslandi), þrjá grunnskóla, fyrirtæki og stofnanir í Hafnarfirði og ýmsa aðra sjálfboðaliða.

Hreinsunarátakið hefst með formlegum hætti í Straumi kl. 09.30 föstudaginn 16. sept. á degi íslenskrar náttúru. Þann dag munu félagar í SEEDS og grunnskólabörn sjá um hreinsunina.

Laugardaginn 17. sept. eru íbúar hvattir til að koma í Straum við Straumsvík kl. 10.00 eða kl. 13.00. Á þeim tímum er gert ráð fyrir að hópar gangi frá Straumi með skipulegum hætti. Félagsmenn Hraunavina og aðrir íbúar nærliggjandi sveitarfélaga eru hvattir til að taka með sér sorppoka og leggja þessu verkefni lið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *