Selvogsgata – leiðarlýsing

Selvogsgata er gömul þjóðleið sem aðallega var farin þegar bændur og búalið í Selvogi og Ölfusi sóttu kaupstað í Hafnarfirði. Einnig var hún notuð af vermönnum. Þegar enskir athafnamenn hófu brennisteinsvinnslu í Brennisteinsfjöllum um miðja 19. öldina var þetta aðal flutningaleiðin, enda var brennisteininum skipað út frá Hafnarfirði. Á síðustu árum hefur Selvogsgatan verið vinsæl gönguleið útivistarfólks.

Selvogsgata ofan LækjarbotnaFrá Hafnarfirði lá gatan fyrst um Hamarskotsmöl, upp Illubrekku með Góðholulæk framhjá Góðholu sem er undir húsinu nr.2 við Selvogsgötu, en þar var vatnsból áður fyrr. Þvínæst lá leiðin með Öldulæk upp á Öldur, sem voru grónar melöldur þar sem nú stendur m.a. Öldutúnsskóli og húsin þar í kring. Þegar komið var þangað sem Kirkjugarður Hafnarfjarðar hefur staðið síðan árið 1921, var komið að grónum börðum sem nefndust Hvíldarbörð. Þar hvíldu Hafnfirðingar lúin bein þegar þeir komu úr hrístökuferðum fyrir ofan bæinn. Leiðin liggur síðan skáhalt niður Mosahlíð í áttina að Stekkjarhrauni. Við suðurhluta þess var komið að koti sem nefndist Botnshagakot, en það stóð við túnskika sem Botnshagi hét. Er haginn nefndur eftir Lækjarbotnum þar sem Botnalækur á upptök sín, en hann rennur til norðurs með austurbrún Stekkjarhrauns og sameinast Kaplakrikalæk við Þverlæk þar sem Stekkjahraun endar að norðvestanverðu og Sjávarhraun tekur við.

Hléberg og NorðlingamóiÁ móts Hléberg var Norðlingavað á Botnalæk við Norðlingamóa og þar upp af Norðlingaháls, einnig nefndur Oddsmýrarháls. Um hálsinn lá Norðlingagata sem var þjóðleiðin til norðurs. Rétt neðan við Norðlingavað var kotið Hléberg, en nokkru sunnar er Hlébergsstíflan þar sem sem Jóhannes J. Reykdal virkjaði lækinn á sínum tíma og kom upp rafstöð. Enn sunnar er Lækjabotnastíflan, en þaðan veitti Jóhannes vatni í trérörum og skurði vestur á Setbergstún og áfram í Hamarskotslæk. Efst í Hamarskotslæk reisti Jóhannes tvílyft timburhús árið 1917 og var rafstöðin á neðri hæðinni. HlébergÞegar komið er í Lækjarbotna sjást vegsummerki vatnsveituhússins sem reist var árið 1909 yfir uppsprettuna þegar Vatnsveita Hafnarfjarðar lagði vatnsveitulögn til Hafnarfjarðar. Hér nærri mun Botnshagakot (oft nefnt Bossakot) hafa staðið, við Botnshaga, en þar var búið 1846-1860 og er kotið skráð í kirkjubók 1859. Nú sér engin merki þessa kots og óvíst hvar það stóð nákvæmlega.

Mosahlid SvinholtOfan við Lækjarbotna uppsprettuna lá Selvogsgatan yfir hraunhaftið þar sem það er mjóst og sér enn marka fyrir götunni í hraunhellunni. Þar sem gatan liggur eru mörk Gráhelluhrauns og Stekkjahrauns. Svínholtið rís austan við Lækjarbotna og liggur gatan á milli Svínholts og Gráhelluhrauns suður í áttina að Setbergshlíð. Þegar komið er framhjá Svínholti eru Oddsmýrarhæðir á vinstri hönd, en norðaustan þeirra liggur Oddsmýrardalur. Upp af honum rís Flóðahjalli með Hádegisholti nyrst og sunnar er slakki sem er auðveldur uppgöngu og nefnist Klif. Á hæð sem rís norðan Klifs er Klifsvarða, en sunnar þar sem fjallið hækkar á nýjan leik er  Sandahlíð, hæsti hluti Setbergshlíðar. Á hægri hönd inn á sjálfu Gráhelluhrauninu rís hraunnybba eða öllu heldur klettar sem nefnast  Gráhella. Undir klettunum norðvestanverðum eru tóftir beitarhúsa eða fjárhúsa frá Setbergi, en um miðja helluna liggja landamerki Setbergs og Hamarskots, sem eru um leið mörk Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

Þegar komið er suður með Setbergshlíð, lækkar hún nokkuð á kafla og sá hluti Þverhlíð. Þar upp á hæðinni eru tóftir beitarhúsa sem Jóhannes J. Reykdal lét reisa snemma á 20. öldinni, en voru aldrei Gráhellatekin í notkun. Þar nærri lá leiðin í norður, til Vífilsstaða annarsvegar og til norðausturs í áttina að Hjallaflöt og Hjöllum. Austan Þverhlíðar er Tjarnholt sem ekki sést fyrr en komið er upp á hæðina. Sunnan Þverhlíðar rís Háanef og vestur undan því lá Setbergssel við Selhelli sem er opinn í báða enda með þverhleðslu í miðjum helli. Setbergsbændur höfðu hér í seli í margar aldir og sést móta fyrir tóftum, stekkjum og öðru sem minnir á selveruna. Þessi hellir er einnig nefndur Kethellir og ofan hans er steinsteypt varða sem nefnist Markavarða. Var hellinum skipt til jafns milli Setbergs og Hamarskots og eru sinn helmingur hans í landi Hafnarfjarðar og Garðarbæjar líkt og Gráhellan.

Önnur varða stendur ofar og sunnar  sem vísar á Kershelli, mikinn helli sem er þröngur við opið en víkkar þegar inn er komið. Hellir þessi er í jarðfall, átta metrar að ummáli, nær hringlaga og er hann stór og rúmgóður og hátt undir loft. Austur og uppúr honum er afhellir, sem nefndur hefur verið Hvatshellir, eftir að nokkrir meðlimir í félaginu Hvati í Reykjavík töldu sig hafa fundið hellinn snemma á þessari öld. Talið er að hér sé kominn hinn rétti Kethellir, en nafnið hafi færst yfir á Selhelli þegar hætt var að nota hann.

Leiðin liggur nú upp á við á milli austurhlíðar SléttuhlíðarhæKethellirða annarsvegar og vesturbrúnar Smyrlabúðahrauns hinsvegar. Í Sléttuhlíðarhæðum heita Torfur rétt norðan við Klifsholtin sem eru nokkrir hæðarásar fyrir miðjum Sléttuhlíðarhæðum. Hæst rís sjálf Sléttuhlíðin. Þegar sunnar kemur í hæðirnar lækka þær verulega og myndast skarð milli Klifsholta og Smalaskála sem er syðsta hæðin. Á vinstri hönd er Smyrlabúðahraun sem er frá Búrfelli komið. Smyrlabúðarhraun er illt uppgöngu og ekki mælt með að göngufólk leggi á hraunið. Hefur það trúlega storknað og mótast er það rann út í vatn eða í sjó fram fyrir rúmlega 7000 árum. Smyrlabúð er hæð við suðurenda hraunsins, sem er auðveld uppgöngu að norðaustanverðu, en suðurhlið Smyrlabúðar er illkleifur klettaveggur þar sem Smyrlar munu hafa orpið í eina tíð. Framan við klettahlíðina er misgengi það sem gengur inn að Gjáarrétt og Hjöllum í áttina að Heiðmörk. Þar sunnanvið eru Stjánagjá nær og Folaldagjá fjær. Vestar er mikil hraungjá, Lambagjá sem minnir um margt á Búrfellsgjá.

Framundan er slétt hraun sem nefnist Mosar og liggur í áttina að Helgadal. Þetta hraun er einnig Helgadals kvínefnt Sléttahraun, en hraunið austan Helgadals nefnist Helgadalshraun. Þegar farið er yfir Mosa er hægt að fylgja varðaðri slóð. Þegar komið er yfir Mosana er ekki lengur hægt að fylgja gömlu leiðinni sem lá með Kaldárhnúkum niður í Helgadal og síðan í áttina að Valahnúkum. HelgadalshellarHelgadalur er að mestu girtur af því hann tilheyrir vatnasviði Vatnsveitu Hafnarfjarðar í Kaldárbotnum. Gengið er að austurenda girðingarinnar og farið yfir misgengisgjá sem búið er að fylla upp í. Þar austuraf er Helgafellshraun. Girðingunni er fylgt þar sem hún liggur í suðvestur yfir eystri hluta Helgadals að annarri girðingu sem farið er yfir á tréstiga og liggur þá leiðin næst að móbergshnúkum sem nefnast Valahnúkar. Fyrir miðjum Valahnúkum austanverðum er gamall gangnamannahellir eða smalaskjól sem leitarmenn notuðu áður fyrr. Músahellir heitir hann, en í seinni tíð kallaður Valaból eftir að Farfuglar tóku hann í sínar þarfir og girtu svæðið umhverfis hellinn. Þar hefur verið ræktaður fallegur reitur. Í hellinum er gestabók. Selvogsgatan liggur með austuhlíð Valahnúka í áttina að Mygludölum og austan þeirra blasir Víghóll við. Norðan Mygludala er eldgígurinn Búrfell og suðaustan þeirra er hið myndarlega Húsfell. Reynar hefur Húsfell álíka lögun og Helgafell þau sem finnast víða um land. Eru uppi kenningar um að Helgafell Helgafell, Valahnukar, Mygludalirsé hið raunverulega Búrfell, enda hefur það svipaða lögun og önnur Búrfell á landinu. Ef kenning þessi er rétt ætti  Húsfell að nefnast Helgafell og Búrfellsgígurinn sem nú er nefndur svo að nefnast Húsfell, enda er þar að finna tóftir eftir sel og hver veit nema þer hafi verið búið í eina tíð.

Stuttu eftir að komið er upp úr Mygludölum er komið á hraun sem nær svotil óslitið upp í Grindarskörð. Farið er yfir Húsfellsgjá sem liggur vestur um Helgafell og áfram út í Skúlatúnshraun og endar í Gullkistugjá. Þegar komið er yfir Húsfellsgjá tekur Þríhnúkahraun við en ekki er gott að greina mun þess og Helgadalshrauns. Fara verður í gegnum hlið þar sem höfuðborgarsvæðið er girt af með rammgerðri girðingu og þegar haldið er áfram til suðurs er komið að neðri Strandatorfu.

Selvogsgata 2Neðri Strandatorfa er nokkuð mikil melalda, en komið  er að efri Strandatorfa eftir rúmlega hálftímagang.  Milli þeirra eru tvær melöldur sem nefnast Kaplatór og liggur Selvogsgata norðaustan þeirra. Í Kaplatóm var venja að taka ofan af lestarhestum og leyfa þeim að bíta. Sagt er að Strandarkirkja í Selvogi hafi átt skógarítak í efri og neðri Strandatorfum. Eru þær að mestu uppblásnar líkt og Kaplatór, en í seinni tíð er kjarrið farið að skjóta upp kollinum eftir gengdarlausa beit á þessu svæði. Þegar komið er yfir neðri Strandatorfu er Rjúpnadyngjuhraun á vinstri hönd í norðausturátt. Farið er um það að hluta til á ruddri slóð, en talið er að Rjúpnadyngjuhraun hafi runnið árið 1150, um líkt leyti og Kapelluhraun og Ögmundarhraun.  Sunnan þessa hraunrima eru Kaplatór, einskonar óbrinnishólmar á milli Rjúpnadyngjuhrauns og Kóngsfellshrauns, sem á upptök sín vestan Stóra Kóngsfells, trúlega frá því um 1200. Vestan þeirra er hraunrani úr Tvíbollahrauni og síðan tekur við grágrýtisklöpp eða grágrýtisborg og er það efri Strandatorfa. Hér eru landamerki Hafnarfjarðar og Garðabæjar og nær land Hafnfirðinga ekki sunnar. Er nú komið á Tvíbollahraun og heitir nyrsti hluti þess Hellur vegna þess að það er tiltölulega slétt. Hér er leiðin vel vörðuð. Grindaskarðahnúkar - BollarnirÞegar komið er suður úr Hellum taka Mosar við og sker Bláfjallavegurinn, sem lagður var 1981,  Selvogsgötuna í sundur í miðjum Mosum.

Norðavestan þess staðar sem Bláfjallavegur sker Selvogsgötuna eru uppblásnar melöldur sem nefnast Markraki eða Marghraki. Milli þeirra eru Dauðadalir. Þar sem þessar melöldur ber hæst er hornmark Garðakirkjulands hins forna og má þar sjá gamlar landamerkjahleðslur. Enn lengra í norðvesturátt sést Skúlatún, grasi gróinn óbrynnishólmi í miðju Skúlatúnshrauni, sunnan Gullkistugjár.

Frá Bláfjallavegi blasir Kristjánsdalahorn við í austri með Kristjánsdalabrúnum, sem eru einskonar öldur og vestan þeirra grænir Kristjánsdalir. Austar eru Þríhnúkar en til  vesturs teygir sig Lönguhlíðin með Hvirfilinn hæstan og liggur hún allt vestur að Lönguhlíðarhorni.

Framundan eru sex hnúkar sem nefnast Grindaskarðshnúkar eða Bollar og milli þeirra eru Grindaskörð. Austast er Stóri Bolli, sem reyndar er talinn vera hið eina sanna Kóngsfell, en framan í bollanum er gígur sem er líkur bolla í lögun. Þetta er gamalt fiskimið sem sjómenn miðuðu út um aldir og tóku þá gjarnan stefnuna um Helgafell. Næst koma Tvíbollar, einnig nefndir Miðbollar, en vestan þeirra er Kerlingaskarð þar sem Selvogsgatan liggur um. Vestast eru berghnúkar sem nefnast Syðstu bollar eða Þríbollar.

Við KóngsfellLeiðin liggur sniðhalt eftir varðaðri leið upp í skörðin um Kerlingaskarðsstíg og þegar komið er upp á brúnina er hægt að velja nokkrar leiðir. Ef haldið er til hægri, suðvestur með hlíðinni er stefnan tekin á Brennisteinsfjöllin og gömlu brennisteinsnámurnar. Þar eru minjar sem eru óðum að hverfa. Ef ætlunin er hinsvegar að fylgja Selvogsgötunni áfram er einfaldast að halda beint af augum og ganga eftir varðaðri leið í gegnum hraunið að norðvestanverðum Austur Ásum. Þar er Hvalfellið mest áberandi. Það er líka hægt að ganga hina eiginlegu Selvogsgötu sem liggur austan við hraunstíginn, í skorningum suðvestan undir hæðarhryggjum sem nefnast einu nafni Heiðin há, að Stóra Leirdal. Þar tekur Hvalskarðið við milli Hvalfells og Ásanna. Þeirri leið verður ekki lýst frekar hér. Þegar komið er að Austur Ásum liggur leiðin vestan þeirra áleiðis að Vestur Ásum sem rísa upp úr landinu nokkru sunnan við Austur Ása. Ef gengið er á Vestur Ása sést vítt og breitt og framundan þeim í hraunjaðrinum liggur svonefnd Stakkavíkurleið, sem heitir öðru nafni Selstígur. Hann liggur austan undir hraunbrúninni og varla hægt að villast. Þegar komið er fram á suðausturbrúnina er lítil varða sem vísar á slóðann sem Vid Stóra Leirdal og Hvalfellliggur niður að Stakkavík við vestanvert Hlíðarvatn.

Hlíðaskarðsleið, eða Hlíðastígur liggur um Litla Leirdal svo til milli Austur- og Vestur Ása og beint af augum þegar Ásunum sleppir. Það var algengasta leiðin eftir að fólki tók að fækka í Selvogi stefnir nánast beina leið á eyðibýlið Hlíð sem Hlíðarvatn er kennt við. Leiðin er nokkuð augljós þar sem vörður vísa veginn að mestu alveg að Hlíðarskarði. Land fer nokkuð lækkandi á þessari leið þó ekki fari að halla verulega undan fæti fyrr en komið er fram á suðaustur brúnina. Þar liggur leiðin niður Hlíðarskarðið í nokkrum bratta og blasir þá Suðurlandið við, Selvogurinn og Hlíðarvatn.                                     

© Jónatan Garðarsson

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *